Evrudraumur ASÍ er orðinn að martröð fólksins
28.1.2012 | 11:57
Stjórnarmaður í VR veltir fyrir sér aðgerðarleysi ASÍ-forystunnar gagnvart skuldavanda heimilanna og stuðningi við verðtrygginguna. Hann hallast helst að því að skýringin sé ofsatrú á evru og ESB. Evrópusinnaðir verkalýðsskrumarar leiti að þægilegum hægindastólum innan völundarhúsa ESB.
Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, segir á vefsíðu sinni 27. jan. s.l: að innan ASÍ ríki skoðanakúgun. Þeir sem ekki séu fylgjandi ofsatrú á evru og ESB séu taldir lýðskrumarar og populistar af verstu sort.
Ragnar er bersýnilega gáttaður á því eins og fjöldamargir fleiri í verkalýðshreyfingunni hvernig kjarabarátta ASÍ undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar hefur snúist upp í gagnrýnislaust ESB-daður sem bersýnilega sé að skaða hreyfinguna. Hann spyr hvort aðgerðaleysi forystu ASÍ gagnvart skuldavanda heimilanna og stuðningur við verðtrygginguna sé meðvituð leið" forystu ASÍ, til að auka fylgi umbjóðenda sinna við ESB aðild". Ragnar spyr einnig:
Hver er raunveruleg ástæða þess að Gylfi Arnbjörnsson kom í veg fyrir frystingu á vístölunni í kjölfar hrunsins sem hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir heimilin í landinu? Var þetta vísvitandi gert til að reka skuldara með byssusting í bakinu til kosninga um aðild að Evrópusambandinu og nota svo verðtrygginguna sem skiptimynt fyrir atkvæði með aðild?"
Er vítavert sinnuleysið gagnvart raunkjaraskerðingu og eignaupptöku vegna forsendubrests með ráðum gert til að ýta undir loforð þeirra um betra líf og bætt kjör með inngöngu í pólitískt himnaríki stofnanafíkla og skriffinnskupúka."
Ragnar Þór segist ekki hafa gert upp hug sinn um aðild" þótt vissulega hafi hann sínar efasemdir. Í lok greinarinnar veltir Ragnar því fyrir sér: Hafa pólitísk tengsl og Evrópudraumar forystumanna ASÍ skaðað hreyfinguna?"
Eitt er víst að meðan innviðir samfélagsins eru í ljósum logum leita Evrópusinnaðir stjórnmálamenn og verkalýðskrumarar að þægilegum og upphituðum hægindastólum innan völundarhúsa ESB þar sem metnaðurinn liggur fyrst og fremst innávið. Ekki eru eldarnir minni fyrir utan fílabeinsturnana í Brussel svo mikið er víst. Forgangsröðunin er einfaldlega galin."
Grein Ragnars má finna í heild sinni á: http://www.dv.is/blogg/ragnar-thor-ingolfsson/
Athugasemdir
Tek algjörlega undir þennan pistil.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.1.2012 kl. 15:08
Hvar er nú helsta málpípa ESB trúboðsins á Íslandi, Ásmundur Harðarson.
Ætli hann sé nú á launalausri frívakt til verndar sínu heilaga ESB trúboði !
Gunnlaugur I., 28.1.2012 kl. 19:58
Ekki gleyma fóstbróður hans Ómari Harðarssyni. Það eru bara þrír Ásmundar Harðarssynir á Íslandi hver þeirra skyldi þessi maður vera?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.1.2012 kl. 21:58
Eitt af mörgu slæmu við krónuna er þetta endalausa þras um verðtrygginguna og almenna niðurfellingu skulda.
Málið virðist vera of flókið til að almenningur skilji það. Eða eru menn kannski einfaldlega að þrýsta á að aðrir, oft verr staddir fjárhagslega, borgi skuldir þeirra?
Þegar sveiflur á gjaldmiðli eru svo miklar vegna smæðar hans að verðbólga getur rokið upp úr öllu valdi er tvennt í stöðunni að því er varðar lán: Breytilegir vextir sem breytast í takt við verðbólgu eða verðtryggð lán.
Af þessum tveim kostum hefur verðtryggingin ýmislegt fram yfir breytilega vexti. Hún tryggir jafnasta greiðslubyrði út lánstímann og gerir því lántakendum kleift að taka hærri lán og minnkar um leið hættuna á að lenda í vanskilum vegna tímabundins ástands.
Óverðtryggð lán með breytilega vexti hafa mjög ójafna greiðslubyrði. Hún er að öðru jöfnu þyngst fyrst en getur einnig hækkað mikið tímabundið út allan lánstímann þegar vextirnir hækka.
Það getur verið heppilegt að taka hluta lánsins td 1/3 í óverðtryggðu láni eða jafnvel meira ef efnahagurinn leyfir það. Þannig lækka skuldirnar hraðar en ella sem getur komið sér mjög vel sérstaklega þegar kreppir að.
Það er hins vegar algjörlega fráleitt að banna verðtryggð lán. Ef fólki er gefinn kostur á óverðtryggðu láni hvers vegna vill það banna verðtryggð lán til handa þeim sem hafa svo þrönga fjárhagsstöðu að kostir óverðtryggðra lána gagnast þeim ekki?
Vandamálin með krónuna, en þetta er aðeins eitt af mörgum, hafa því ekkert með evruna að gera. Evran gæti hins vegar verið lausn á þeim flestum ef ekki öllum.
Almenn niðurfelling lána er algjörlega fráleit hugmynd. Ef íbúðalánasjóður lækkar lán verður ríkið að taka á sig skellinn. Hundruð milljarða myndu þá lenda á skattgreiðendum.
Ef skuldir íbúðalánasjóðs við lífeyrissjóðina yrðu lækkaðar samsvarandi þannig að íbúðalánasjóður fengi tapið bætt myndu öryrkjar og ellilífeyrisþegar taka það á sig hugsanlega ásamt ríkissjóði vegna minni skerðingar á lífeyri frá TR.
Það eru engin rök í málinu að þessar fjármagnstilfærslur dreifast á allt að fjörtíu ár. Það á nefnilega einnig við um lánin.
Alþingi getur sett lög um að ríkið taki á sig hundruð milljarða vegna almennra lækkana á skuldum. Það eru hins vegar engin rök fyrir því að færa þannig fé í stórum stíl frá skattgreiðendum til auðmanna.
Ríkið getur ekki sett lög um almenna lækkun lána banka og lífeyrissjóða öðruvísi en að bæta þessum aðilum tjónið. Eignaréttarákvæði stjórnarskrárunnar heimila ekki eignatilfærslur frá einum hópi til annars nema með samþykki beggja.
Það væri mikil spilling ef ríkið myndi með lagasetningu færa eignir ríkisins eða lífeyrisþega til skuldara sem margir eru miklu betur staddir fjárhagslega en hnit fyrrnefndu. Gjaldmiðill sem virkar ekki eðlilega og þarf á slíkum tilfærslum að halda er ónýtur. Þess vegna er upptaka evru lausnin eftir fáein ár.
Lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttir er einnig feigðarflan sem gefur stóreignamönnum kost á að yfirhlaða einstakar eignir með skuldum til að losa sig við skuldirnar.
Stóreignafólki er gefinn kostur á að skila inn yfirveðsettum íbúðum þó að það geti auðveldlega staðið í skilum og geti jafnvel greitt áhvílandi lán upp vegna þess að það á aðrar eignir td skuldalausar fasteignir, verðbréf eða bankainnistæður.
Að láta fátæka öryrkja og ellilífeyrisþega eða skattgreiðendur greiða þannig skuldir hinna ríku er ótrúleg spilling.
Skuldastaða heimilanna er ekkert verri núna en 2004. Eini munurinn er sá að' 2004 datt engum í hug að koma skuldum sínum yfir á aðra.
Eins og Ólafur Stephensen sagði þá ættu skuldarar að fara að taka sönsum. Þessi þráhyggja þeirra hefur staðið yfir í þrjú ár. Mál er að linni.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 02:48
Eitt veit ég það er að Gylfi hefir ekki umboð aðildarfélaganna fyrir sinni hugljómun um ESB. Hann gerir þetta á móti stefnu þeirra sem er að fólk mun sjálft kjósa um þessi mál. Ég skrifaði öllum formönnum þessara félaga sem mynda ASÍ og allir svöruðu á þennan hátt. Gylfi er lygari og þetta verðum við að lifa við í stjórnkerfi okkar á öðrum stöðum líka.
Valdimar Samúelsson, 29.1.2012 kl. 09:32
Leitin endalausa að ókeypis peningum handa skuldaranum sem reisti sér burðarás um öxl heldur áfram!
Verðtrygging er ekki fyrirbæri heldur einfaldlega annað nafn á nafnvöxtum láns, verðtrygging veitir lánveitenda, sem eru í langflestum tilfellum lántaki í gegnum lífeyrissjóði og Íbúðalánasóð, tryggingu fyrir því að raunvirði lánsins haldi sér og því getur lánveitandi tekið út óvissuna um verðbólguna og lækkað ávöxtunarkröfu sína um 1-2%.
Fólk lenti í vanda vegna þess að kerfið býður upp á að greiðslugeta fólks sé fölsuð og fólk skuldsetji sig langt umfram getu.
Verðtryggð annuity lán veita lántaka ranga mynd af greiðslugetu og því fjárfestir lántaki langt umfram raunverulega getu sem síðan hækkar verð á t.d fasteignum sem síðan skapar verðbólgu sem hækkar vexti (verðtrygging) á lánum.
Vandi almennings á Íslandi er getu eða viljaleysi ráðamanna, vegna pólitískra hugmyndafræði (Samfylkingin/VG) eða hagsmuna sérhagsmunaaðila (Sjálfstæðisflokkurinn/Framsókn), til að haga hagstjórn eins og þörf er á til hagsbóta fyrir almenning.
Upptaka annars gjaldmiðils er raunveruleikaflótti og gerir málin verri ef engin hagstjórn af viti er fyrir hendi eins og sannast í fátækravæðingu jaðarhagkerfa Evrunnar sem glata einfaldlega samkeppnishæfni sinni og safna botnlausum skuldum í gegnum viðvarandi viðskiptahalla.
Það eru bara til tvær leiðir út úr viðskiptahalla eins og Ísland var með í mörg ár í miðju góðærinu(gróðærinu):
1. Innri gengisfelling (Leið Grikklands, Írlands, Ítalíu og Spánar).
2. Ytri gengisfelling (Ísland).
Báðar leiðirnar lækkar greiðslugetu fólks af húsnæðislánum. Menn geta svo rifist um hvor leiðin sé "betri".
Eggert Sigurbergsson, 29.1.2012 kl. 10:03
Sveiflur á gengi krónunnar vegna smæðar hennar gera hana ónothæfa sem gjaldmiðil.
Þegar gengi krónunnar lækkar verður verðbólguskot vegna verðhækkana á innfluttum vörum. Laun hækka í kjölfarið til að ná aftur sama kaupmætti launa. Launahækkun veldur enn frekari verðbólgu.
Þegar gengi krónunnar hækkar kemur það sjaldnast fram í verðlækkun og aldrei í launalækkunum.
Úr því að verðhækkanir sem verða vegna lækkunar á gengi krónunnar ganga ekki tilbaka við hækkun á gengi hennar verður verðbólgan óhjákvæmilega mun meiri hér en í evrulöndum.
Við höfum reynsluna. Gengi gömlu krónunnar er nú minna en 1/2000 af danskri krónu. Þær höfðu sama verðgildi þegar sjálfstæð gengisskráning íslensku krónunnar hófst á fyrri hluta síðustu aldar.
Sveiflur af þessu tagi leiða til bólumyndunar vegna víxlverkana. Bólur springa og enda óhjákvæmilega með gengishruni.
Slík hrun eru miklir skaðvaldar. Einstaklingar og fyrirtæki verða gjaldþrota í stórum stíl vegna þess að eigið fé gufar upp, skuldir hækka, íbúðarverð lækkar og atvinna minnkar.
Gengishrun geta orðið svo alvarleg að ríki verða gjaldþrota. Ef ekki hefði komið til aðstoð frá AGS og nokkrum Evrópuríkjum hefði Ísland orðið gjaldþrota eftir hrunið 2008.
Upptaka evru er þvi mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 29.1.2012 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.