Ítalía er tifandi tímasprengja á evrusvæðinu

Nú ríkir biðstaða á evrusvæðinu, hugsanlega lognið á undan storminum. Viðbrögð forystumanna ESB við aðsteðjandi háska þykja fálmkennd. Ítalía er mesta ógn evrusvæðisins vegna gífurlegra þarfa fyrir endurfjármögnun. Því vofir þar yfir lækkun á lánshæfismati og enn hærra vaxtaálag skulda.

Samt er Ítalía ekki það ríki evrusvæðisins sem dýpst hefur sokkið í skuldafenið. Mælingar á vantrausti markaðarins í formi skuldatryggingaálags á fimm ára bréf sýna miklu lakari stöðu Grikklands (7500 punktar), Portúgals (1065) og Írlands (670). Ítalía hefur staðið í um 500 punktum undanfarnar vikur. Engu að síður er staða Ítalíu háskalegri en annarra vegna þess hve hagkerfið er risastórt, og því miklu erfiðara fyrir önnur ríki og alþjóðlegar stofnanir að koma því til bjargar en þegar smærri ríki eiga í hlut.

Ítalska mafían stóreykur umsvif sín

Sú frétt í fyrradag að ítalska mafían væri nú talin mesta viðskiptaveldi Ítalíu jók ekki tiltrú markaðarins á fjármálalífi landsins. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar atvinnurekendasamtakanna Confesercenti sem birtar voru s.l. þriðjudag hafa ítölsku mafíuhóparnir fjórir aukið umsvif sín gríðarlega á flestum sviðum viðskipta seinustu árin og eru árlegar tekjur þeirra taldar nema um eitt hundrað milljörðum evra en það munu vera um 7% af landsframleiðslu Ítalíu. Meðal þessara hópa eru Cosa Nostra á Sikiley, Camorra í kringum Napólí og Ndrangheta í Calabríu en starfsemi mafíunnar teygir anga sína æ meira norður á bóginn og hefur nú náð sterkri stöðu í Mílanó. (The Telegraph 11.jan. s.l.)

Lánshæfismat Ítalíu er á niðurleið

Langt er síðan á það var bent að skuldastaða Ítala nálgist óðfluga hættumörkin sem gætu valdið greiðslufalli. Jyrki Katainen, forsætisráðherra Finna, lýsti því yfir í byrjun nóvember að erfitt væri að sjá hvernig önnur Evrópuríki ættu að ráða við að bera uppi þjóðarskuldir Ítalíu.

Matsfyrirtækið Fitch benti á það í fyrradag skv. frétt mbl.is 11. jan. s.l. „að evrusvæðinu stæði mest ógn af skuldavanda Ítalíu en landið er bæði mjög skuldsett og mikill kostnaður fylgir endurfjármögnun skulda ítalska ríkisins en vextir á ríkisskuldabréfum til 10 ára eru í dag 7,141 prósent miðað við 1,868 prósent vaxtakjör þýska ríkisins á sambærilegum bréfum.

„Þetta eru helstu áhættuþættirnir sem við lítum til þegar lánshæfiseinkunn Ítalíu er metin og því líklegt að það lækki hjá okkur í lok janúar," segir David Riley yfirmaður hjá Fitch.

Að sögn Riley er Ítalía í framlínu skuldavandans og telur hann áætlanir ítalska ríkisins um að selja ríkisskuldabréf upp á nærri 440 milljarða evra eiga eftir að verða því erfiðar í ljósi þess hvað lántökukostnaðurinn er hár fyrir Ítalíu í dag.

„Það verður að koma í veg fyrir að skuldavandi Ítalíu smitist yfir á allt evrusvæðið sem nú þegar á við mikla erfiðleika að etja." - RA

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Einhverntíma hefði samúðin vegið þyngst,af öllum mínum kenndum,með þessum þjóðum,því sannarlega bitnar það mest á illa stöddum fjölskyldum þeirra. Hef tekið því þegjandi,vænd um að hlakka yfir ástandinu. Ég og aðrir Íslendingari,sem ávallt hafa verið mótfallnir inngöngu í Esb,köllum eftir ábyrgð stjórvalda og bendum á margfalt augljósari hættu við að ganga þarna inn,var þó næg fyrir. Stjórnvöld vita að meirihluti þjóðarinnar,er andvíg inngöngu, það eitt sýnir okkur fasistískt eðli þeirra,hreykjandi sér nú,að lýðræðiselsku,vitandi að Jóhönnu ákv0rðun er að þjóðaratkvæðagreiðslan um ESb. er aðeins ráðgefandi. Ég ætla að safna liði og reka þessa fjandsamlegu þorpara frá.

Helga Kristjánsdóttir, 14.1.2012 kl. 05:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband