Réttindi launafólks rústuð með undirboðum í skjóli ESB

ESB vinnur markvisst að því að grafa undan kjörum og réttindum launafólks með því að ýta undir „félagsleg undirboð" fyrirtækja frá láglaunaríkjum þar sem lakari starfskjör gilda en samið hefur verið um í landinu þangað sem starfsmennirnir eru sendir, m.a. um vinnutíma, veikindarétt o.fl.

Páll H. Hannesson rekur þessi lævísu vinnubrögð þar sem beitt er tilskipunum en ekki síður dómsvaldi ESB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins til að skrúfa kjör og réttindi heimamanna „niður á lægsta samnefnara og á því tapa allir launamenn í lengdina, sama hvaðan þeir koma," eins og Páll kemst að orði á bloggsíðunni ESB og almannahagur, esbogalmannahagur.blog.is.

Þetta er flókin saga en jafnframt stórfróðleg. Allir sem láta sig kjarabaráttu launafólks einhverju skipta þurfa að kynna sér hvernig þessi mál standa, því að ekki er þess að vænta að forseti ASÍ og liðsmenn hans kynni þessi mál fyrir launafólki. Hjá Gylfa Arnbjörnssyni kemst ekkert annað þessa mánuðina en að reka áróður fyrir „klettinum í hafinu", evrunni, svo grátlega skoplegt sem það er á þessum síðustu og verstu tímum evrukreppunnar. Við grípum hér niður í nokkra kafla úr grein Páls 6. janúar s.l:

„Íslendingar kannast ágætlega við þegar að erlend fyrirtæki koma hingað til lands og hafa í farteskinu "eigin starfsmenn". Slíkir starfsmenn geta komið víða að og kunna eftir atvikum að koma frá ESB-löndum og vera pólskir, frá Eystrasaltslöndunum, Portúgal eða hvaðeina eða þeir koma utan frá ESB, t.d. frá Kína. Og þeir kunna að vera ráðnir í gegnum starfsmannaleigur eða vera útsendir starfsmenn hinna erlendu fyrirtækja. Við skulum láta Kínverjana bíða og einbeita okkur að hinum innri markaði ESB. Spurningin sem iðulega vaknar upp í kjölfarið er, á hvaða starfskjörum slíkir erlendir starfsmenn eiga að vera? Gilda reglur heimalands starfsmannanna, t.d. um vinnutíma, réttindi í veikindum, um vinnuvernd o,fl. eða gilda reglur þess lands sem þeir eru sendir til starfa í? Gilda kjarasamningar heimalandsins eða gistilandsins? Vandamálið liggur sem sagt í því að þegar erlendir starfsmenn koma inn á vinnumarkað lands og eru á lægri launum og búa við rýrari réttindi en heimamenn, að þá grefur það undan kjörum og réttindum heimamanna. Þetta hefur verið kallað "félagsleg undirboð". Allt skrúfast niður á lægsta samnefnara og á því tapa allir launamenn í lengdina, sama hvaðan þeir koma.

Það var ætlun ESB "með einbeittum brotavilja" að koma á slíkum vinnumarkaði á hinum innri markaði ESB með tilurð þjónustutilskipunarinnar. Upprunalandsreglan svokallaða í tilskipuninni gekk einmitt út á þetta; pólskir starfsmenn sem buðu "þjónustu" erlendis, áttu að vera á pólskum starfskjörum og launum. Það var pólskra yfirvalda að fylgjast með að ekki væri á þeim brotinn réttur, yfirvöld gistilandsins áttu að hafa mjög takmarkaðan rétt til eftirlits og inngripa. Og þrátt fyrir að hörð barátta evrópskra verkalýðsfélaga gegn tilskipunin hafi borið nokkurn árangur, þá er upprunalandsregluna enn að finna, t.d. í nýjum lögum 2011 nr. 76 21. júní um þjónustuviðskipti "þegar þjónusta er veitt án staðfestu" eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Jákvæðri tilskipun...

Á hinum innri markaði ESB gilda meginreglurnar um fjórfrelsið, frelsi til að veita þjónustu, frelsi fjármagnsins, frjáls för verkafólk og frelsi til að selja vörur. Menn sáu því fyrir vandamálin sem upp gátu komið ef slíkt frelsi væri algert og í þeim tilgangi að verja stöðu og réttindi launafólks á hinum innri markaði samþykkti ESB tilskipun 96/71/EC um útsenda starfsmenn. Tilskipuninni var sem sagt ætlað að verja réttindi útsendra starfsmanna, en ekki síður réttindi launafólks í gistilandinu með því að koma í veg fyrir gegndarlaus félagsleg undirboð. En tilskipuninni var einnig ætlað að koma í veg fyrir ósanngjarna samkeppni, því hvernig á sænskt þjónustufyrirtæki með starfsmenn á sænskum launum að standast samkeppni við lettneskt fyrirtæki sem starfar í Svíþjóð en borgar helmingi lægri laun samkvæmt lettneskum kjarasamningum?

...snúið á haus af dómstólum

Það sem að hefur síðan gerst, eftir átökin um þjónustutilskipunina og samþykkt hennar 2006, er að Evrópudómstólinn (ECJ) snýr efni tilskipunarinnar á haus með Laval-dómnum sem kveðinn var upp í árslok 2007. Tilskipunin, sem menn töldu almennt að ætti að tryggja ákveðin réttindi að lágmarki, er túlkuð af dómstólnum sem hámarksréttindi. Þeim atriðum sem verkalýðshreyfingin gerði ESB afturreka með í baráttunni gegn þjónustutilskipuninni, var nú (að hluta til) náð til baka með nýrri tangarsókn Evrópudómstólsins. Tilskipunin um útsenda starfsmenn hefur síðan verið notuð til af dómstólunum (EFTA og ECJ) til að hefta og draga úr réttindum launafólks. Dæmi um það er málarekstur ESA gegn Íslandi sem endaði með dómi EFTA-dómstólsins 28. júní síðasta sumar."

Í lok greinar sinnar segir Páll H. Hannesson:

„Lýðræðislegri og skynsamri lagasetningu rústað í nafni frelsins

Þar með er búið að rústa lögum nr. 45 27. mars "um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra". Búið er að þrýsta á að gr. 8.,10., og 11. hefur verið breytt þannig að nú er erfiða fyrir Vinnumálastofnun að gegna eftirlitshlutverki sínu en áður, og nú bíður Alþingis að gera enn á ný breytingar á lögunum með afnámi greina 5. og 7.

Það sem að þessi saga sýnir er að menn verða vera mjög á varðbergi gagnvart dómstólum eins og EFTA-dómstólnum og Evrópu-dómstólnum. Þeir eru ekki eins hver annar dómstóll sem er að reyna að komast að réttlátri niðurstöðu í deilum tveggja. Þeir hafa hvor um sig hliðstæð hlutverk; að passa upp á grunnsáttmála ESB og EES-samninginn, sem byggir á sömu grunnsáttmálum um fjórfrelsið. Til þess að geta gegnt því hlutverki varðhundsins skirrast þeir ekki við að beita öllum þeim meðölum og rökum sem þeir þurfa."

Sjá nánar: ESB og almannahagur, esbogalmannahagur.blog.is

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum nú þegar hluti af sameiginlegum vinnumarkaði ESB í gegnum EES-samninginn. Það breytist því ekkert að þessu leyti fyrir okkur þó að við göngum í ESB.

Annars virðist mér að þarna sé verið að mála skrattann á vegginn eins og svo oft áður.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 11.1.2012 kl. 14:48

2 Smámynd: Elle_

Að vera í EES er ekki eins og gefa upp fullveldið undir stjórn nokkurra stórvelda.  Hvað sem þú, Ásmundur, endurtekur það oft.  Við ættum líka að segja upp EES samningnum sem er að valda okkur of miklum skaða. 

Elle_, 11.1.2012 kl. 15:39

3 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þessi bloggfærsla Ragnar Arnalds hérna er haugalygi. Íslendingar eru búnir að vera með ESB löggöfina varðandi starfsréttindi síðan árið 1994, þegar Ísland gekk í EES. Það var samningur sem Ragnar Arnalds var einnig á móti.

Evrópusambandið hefur tryggt réttindi vinnandi fólks allstaðar í Evrópu og heldur áfram að gera það.Hægt er að kynna sér atvinnulöggöf ESB hérna. Einnig sem að félagsvefsíða ESB er að finna hérna.

Það eru menn eins og Ragnar Arnalds sem vilja gera sem minnst úr réttindum launafólks.

Bloggfærslan á ESB og Almannahagur er einnig haugalygi eins og annað sem þar er skrifað og snúið útúr er varðar Evrópusambandið og hlutverk þess.

Jón Frímann Jónsson, 11.1.2012 kl. 17:12

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Jón Frímann, talaðu varlega maður!!

Hver er sú lygi sem fram kemur í blogginu hér fyrir ofan? Þar kemur skýrt fram að það er vegna EES samningsins sem hér þarf að breyta lögum til að sefa gráðugt gin ESB! Þar að auki er færslan fyrst og fremst copering frá bloggi Páls Hannessonar, en þér væri holt að lesa skrif þess manns. Hvergi kemur hins vegar fram að Ragnar Arnalds hafi komið að þessari færslu, ekki eru stafir hans undir eins og hann er vanur að setja.

Þú ættir að venja þig á að lesa það sem þú gagnrýnir, ekki hrópa lygi eins og þú gerir í hvert sinn sem þú gerir athugasemdir við þína andstæðinga. Ef þú læsir áður en þú gagnrýnir, kæmi kannski eitthvað af viti úr hausnum á þér!!

Að réttlæta ESB aðild vegna þess að við erum aðilar að EES er eins fáráðnlegt og frekast getur og ekki nema þeir allra heimskustu sem reyna slíkt. Það er eins og sá sem fer óvart út í keldu ákveði að vaða áfram lengra út í fenið, í stað þess að snúa aftur á fast land. Þvílík heimska!!

Gunnar Heiðarsson, 11.1.2012 kl. 18:15

5 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Gunnar, Hérna eru sagðar fullyrðingar af hálfu Ragnar Arnalds sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Það er skýrt innan ESB og EES að þeir sem vinna eiga að fá sömu laun og heimamenn. Á þessu hefur orðið misbrestur af hálfu óheiðarlegra fyrirtækja og verktaka.

Sérstaklega ef viðkomandi starfsmenn eru ekki frá ESB/EES/EFTA svæðinu.

Ég hef aldrei þekkt andstæðinga ESB að neinu öðru en að þeir ljúgi í því sem þeir segja um Evrópusambandið. Þegar þeim er síðan bent á staðreyndir. Þá kemur bara svona væl eins og sjá má hjá þér Gunnar. Ég vísaði í gögn máli mínu til stuðnings, sem er ólíkt því sem þetta blogg hérna gerir. Bloggið Almannahagur og ESB vísar ennfremur ekki í nein gögn máli sínu til stuðnings og hefur aldrei gert það.

Ég læt ekki andstæðinga ESB komst upp með svona þvælu og lygar. Það kemur einfaldlega ekki til greina af minni hálfu.

Jón Frímann Jónsson, 11.1.2012 kl. 18:23

6 Smámynd: Elle_

´Af hálfu Ragnars Arnalds´?  Eins og Gunnar benti á að ofan segir ekki nokkursstaðar að hann komi að pistlinum.  Enda skiptir það kannski engu: Pistillinn er hárréttur og lýsir ´blekkingum´ og þvættingi ykkar Brusselfara.  Enginn má segja neitt um nýlenduveldabandalagið ykkar nema vera sakaður um ´barnaskap´, ´bull´, ´paranoju´, ´rugl´´skilningsleysi´, ´útlendingaphóbíu´, ´vanmáttarkennd´ endalaust.  Og enn verri orð. 

Elle_, 11.1.2012 kl. 18:49

7 Smámynd: Elle_

Og gleymdi ég nokkuð orðinu ´þvælu´?

Elle_, 11.1.2012 kl. 18:55

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er röng útlegging á Laval dóminum. Ástæðan fyrir því aðgerðirnar í Svíþjóð fengust ekki staðist var vegna - sænskra laga! Eigi Evrópska laga og regluverkið. Var allt í lagi með það. það voru sænsku lögin sem klikkuðu. Ju jú, þessi dómur er dáldið flókinn og þessvegna auðvelt að afvegaleiða umræðuna með því að þvæla um hann af engu viti og mínus þekkingu eins og andsinnar eru landsfrægir fyrir.

þetta er aðalatriðið í dóminum:

,,Í Svíþjóð, ólíkt því sem er hér á landi, eru kjarasamningar ekki almennt skuldbindandi sem lágmarkskjör og allt sænska kerfið byggist á því að ná verði kjarasamningum við einstaka atvinnurekendur séu þeir ekki aðilar heildarkjarasamninga. Sænsk stjórnvöld hafi innleitt tilskipunina að hluta þannig að þessum markmiðum verði náð en ekki hvað varðar lágmarkslaun. Auk þess heimila sænsku lögin að semja megi við einstaka atvinnurekendur um betri kjör en þau sem þó eru tilgreind sem lágmarkskjör í lögum sem sett voru við innleiðingu tilskipunar 96/71."

http://www.asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-929

Þetta var allt með sínum hætti í Svíðþjóð og ólíkt því sem við þekkjum eins og sjá má hér ofar, þ.e.a.s. ef menn nenna að kynna sér efnið 1% eða meira. ,,Í svíþjóð ... kjarasamningar ekki almennt skuldbindandi sem lágmarkskjör og allt sænska kerfið byggist á því að ná verði kjarasamningum við einstaka atvinnurekendur séu þeir ekki aðilar heildarkjarasamninga.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.1.2012 kl. 22:30

9 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

ESB er fyrir löngu búið að gefast upp á að verða samkeppnishæfasta hagkerfi í heimi með verðmætustu hátæknistörfin en í þess stað þá leggja þeir nú áherslu á að koma sem flestum í fátækt svo að hægt verði að keppa við Kína um ódýr réttindalaus vinnudýr sem kallast verkamenn.

 http://www.tilveraniesb.net/evropusambandidh/hverjir-ba-til-atvinnu--esb

 http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1215647/

Eggert Sigurbergsson, 11.1.2012 kl. 22:32

10 identicon

Góðan dag.  Ég var að gúggla aðeins og fann eftirfarandi vefsíðu sem vert er að snara yfir á íslensku með gúggle translate eða öðru forriti.

http://www.weisser-legal.eu/page.php?p=29

Ég ákvað að kópera eftirfarandi úr síðunni:

2. Mindestlohn (Lágmarkslaun)

Nach dem Arbeitnehmer-Entsendegesetz (§ 1 I) müssen Sie den Arbeitnehmern, die Sie in Deutschland einsetzen, für die Arbeitsleistungen auf den deutschen Baustellen den deutschen Mindestlohn zahlen6. 

Þar kemur fram að þeir starfsmenn sem koma til með að starfa fyrir erlent fyrirtæki í þýskalandi skuli fá greidd þau lágmarklaun sem eru gildandi í Þýskalandi. 

Ég vona að þetta hjálpi ykkur frekar. 

Stefán (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 06:50

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Atvinnuleysi Evrópu er vel þekkt. Jón Frímann hefur greinilega ekki kynnst og unnið með grasrótarfólki frá Evrópu sem hefur þurft að flýja atvinnuleysi, því þá hefði hann haft vit á að segja ekki svona ósatt.

Ætlar Jón Frímann að borga aðgöngumiðann að ESB-atvinnuleysis-sambandinu fyrir mig? Hann hlýtur að hafa efni á því, þessi hálaunaði og vinnandi drengur. Ekki hef ég efni á svona framtíðar-ræningja-"draumasambandi".

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.1.2012 kl. 08:52

12 identicon

Er Vinstrivaktin að mælast til að Ísland segi upp EES-samningnum?

Ef Páll H Hannesson er að fjalla um eitthvað sem launþegar í ESB-löndunum þurfa að hafa áhyggjur af þá á að það einnig við um íslenska launþega nú þegar vegna EES-samningsins.

Þetta getur því ekki undir nokkrum kringumstæðum skipt okkur máli varðandi inngöngu í ESB heldur aðeins varðandi uppsögn EES-samningsins.

Ég hef nokkrum sinnum áður spurt hvort Vinstrivaktin stefni að uppsögn EES-samningsins en ekki enn fengið svar. Ég spyr því aftur.

Annars virðist þarna verið að mála skrattann á vegginn enda hafa íslenskir launþegar ekkert orðið varir við þessar afleiðingar.

Krónan getur ekki verið án gjaldeyrishafta til frambúðar. Gjaldeyrishöft samræmast ekki EES-samningnum svo að uppsögn hans blasir við ef krónan verður áfram gjaldmiðill á Íslandi.

Gjaldeyrishöft til frambúðar leiða hins vegar til einangrunar og lífskjaraskerðingar. Búast má við að ESB-löndin verði okkur þá að mestu lokuð nema til orlofsdvalar.

Það mætti auðvitað sætta sig við miklu lægri lífskjör og einangrun ef skuldir ríkisins væru ekki það miklar að ekki veitir af tekjuaukningu til að greiða þær.

Þeir sem vettlingi geta valdið munu ekki sætta sig við þá einangrun og lífskjaraskerðingu sem fylgja gjaldeyrishöftum til frambúðar.

Þeir sem hafa bestu menntunina munu því flytja unnvörpum til útlanda. Þó að allur þorri manna fái ekki atvinnu í ESB-löndum  gegnir öðru máli með vel menntað fólk, einkum úr tæknigeiranum.

Hér yrði því mikill atgervisflótti með sífellt minnkandi gjaldeyristekjum svo að vandséð er hvernig hægt væri að greiða skuldir ríkisins.

Króna án gjaldeyrishafta leiðir óhjákvæmilega til nýs hruns hálfu verra en hið fyrra vegna þess  að erlendar skuldir ríkisins eru nú mjög háar.

Mjög líklega mun króna í gjaldeyrishöftum einnig leiða til nýs hruns. Vegna atgervisflótta og minni tekna af öðrum ástæðum verða tekjur ríkisins sífellt minni svo að greiðslufall blasir við.

Þannig gæti vanmáttarkennd Íslendinga gagnvart ESB-löndunum rústað framtíð komandi kynslóða á Íslandi.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 09:32

13 identicon

Anna, það er alrangt að mikið atvinnuleysi einkenni ESB sem heild.

Þetta á aðeins við um nokkur lönd innan ESB einkum Spán og Eystrasaltslöndin. Í mörgum ESB-löndum er atvinnuleysi miklu minna en á Íslandi. Í mörgum öðrum er það svipað.

Með upptöku evru batnar mjög samkeppnisstaða Íslands vegna aukins stöðugleika og miklu lægri vaxta. Framleiðsla til útflutnings mun því aukast og ný atvinnutækifæri verða til. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 09:44

14 identicon

Mér finnst fyndið að þessir trúboðar, Ásmundur, Ómar og Jón séu sífellt að skrifa hérna á þessari vefsíðu. Þeir halda að þeirra skrif hafi eitthvað upp á sig en átta sig ekki á því að fólk sér bara enn frekar hversu heilaþvegnir þeir í í raun og veru eru. Kallast það ekki að skjóta sig í fótinn?

Vonandi skrifa þeir meira á fleiri miðla. Við aðildar-andstæðingar ættum að hvetja þá til verka. Vitiborði fólk þarf ekki annað en að lesa þeirra skrif til að átta sig á esb-sinnum, en ekki gleyma heldur að svara þeim með rökum. Þegar þeir komast í rökþrot þá einmitt tjúllast þeir og leita heim í möntrusafnið og fúkyrðaflauminn, sýna sitt rétta andlit.

palli (IP-tala skráð) 13.1.2012 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband