Ég held að staðan í viðræðunum við Evrópusambandið hvað varðar bæði sjávarútveg og landbúnað sé á miklu hættulegra stigi en menn gera sér grein fyrir, segir Jón Bjarnason í viðtali við Mbl. í dag, þegar hann er beðinn að meta stöðuna í viðræðunum við ESB. Hér eru nokkur brot úr löngu viðtali:
Það er eins og fólk hafi farið upp á einhvern ESB-vagn sem er í raun hringekja sem snýst hraðar og hraðar. Menn þora ekki að hoppa af þótt þeir sjái að það stefni í ógöngur. Öll rökhugsun tapast og allt í einu ertu farinn að velta því fyrir þér hvernig þú getir þóknast þeim sem stýrir hringekjunni. Það er hættulegast og auðvitað á að slíta þessum viðræðum."
- Þú talar um hættulegt stig í samningaviðræðunum, í hverju er sú hætta fólgin?
Stærsta blekkingin í öllu aðildarferlinu er að við höldum að við getum leikið okkur að alþjóðasamningum bara til að sjá hvað sé í boði. Það gildir í þessum samningum eins og allri samningatækni að það skapar mjög hættuleg fordæmi að gefa hagsmuni þjóðarinnar eftir við samningaborð og segja svo: Þjóðin getur bara valið! Þannig getur þetta ekki gengið fyrir sig. Ef við til dæmis gefum eftir rétt okkar til samninga um deilistofna í sjávarútvegi, eins og formaður samningahóps um sjávarútveg hefur ýjað að í viðræðu hér heima, þá hefur það gríðarleg áhrif á framtíðarstöðu okkar við samningaborð þó svo að ekki yrði úr aðild. Við erum hér að tala um 40% af heildartekjum sjávarútvegsins sem eru í húfi bara í þessu máli. Óvarleg umgengni um þessa hagsmuni getur haft gríðarleg bein áhrif á lífskjör okkar á Íslandi. Þetta er eitt dæmi þar sem viðræðurnar eru á hættulegu stigi út frá þjóðarhagsmunum.
Annað atriði er landbúnaðarmálin, þar hafa aðilar í stjórnkerfinu lagt hart að mér að gefa t.d. strax eftir verndartolla landbúnaðar og bann við innflutningi á hráu ófrystu kjöti sem var nýlega staðfest í matvælalögum. Það og innflutningur lifandi dýra sem ESB gerir kröfu um getur haft mjög alvarleg áhrif á viðkvæmar búfjártegundir okkar og ógnað forsendum íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi þjóðarinnar. Við sem þekkjum til í landbúnaði vitum hvaða áhrif karakúl-féð hafði á sínum tíma og seinna hrossapestin árið 2010. Í reynd getur óvarlegur innflutningur rústað hér íslenskum landbúnaði sem er vegna landfræðilegrar stöðu afar viðkvæmur. Þegar íslenskir samningamenn tala um þessi mál við viðræðuborð ESB hefur það áhrif á stöðu okkar til dæmis innan WTO og skaðar þannig okkar rétt að þar verður erfitt að bæta úr. Landbúnaðurinn er grundvöllur hinnar dreifðu byggðar í landinu og fæðuöryggis og ef við fyrirgerum honum og möguleikum dreifbýlisins erum við að skila landinu umtalsvert fátækara til afkomenda okkar.
Og við höfum líka í þessu efni mjög ríkar alþjóðlegar skyldur til að standa hér vörð um þá búfjárstofna sem hafa fylgt þjóðinni og eru ekki til annars staðar. Þær skyldur verða ekki uppfylltar án þess að hér sé rekinn lifandi og öflugur landbúnaður. Það eru stór orð að segja það en ég treysti ekki þeim sem þarna véla um. Málið er í forsjá utanríkisráðuneytisins, síðan kemur að málinu sérstök ráðherranefnd Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Katrínar Jakobsdóttur og loks er það samninganefnd Íslands.
Undir það síðasta fann ég að ESB-málin voru að fara í þann farveg að nú yrði farið að gefa alvarlega eftir og að mínu mati miklu meira en samþykkt Alþingis heimilar. Nú þegar er að koma að vendipunktum í þessu ferli var ég látinn heyra það af forystu ríkisstjórnarflokkanna að ef ég léti ekki undan yrði það ekki vel séð.
Vildu tengja viðræður um ESB-aðild og makríldeilu
Á síðasta starfsdegi sínum í embætti sjávarútvegsráðherra, 30. desember, tilkynnti Jón makrílkvóta Íslendinga á þessu ári, en síðar í þessum mánuði er ráðgerður viðræðufundur strandríkja um skiptingu aflaheimilda. Aðspurður hvort hann hafi óttast að makríllinn yrði skiptimynt í viðræðum Íslands og ESB segir Jón að Evrópusambandið hafi ítrekað tengt saman deiluna um skiptingu makrílkvótans og ESB-viðræðurnar. Hann hafi ávallt hafnað því og sagt að makríllinn væri sjálfstætt samningsmál eins og samið hafi verið um kolmunna, loðnu og fleiri tegundir.
Hótanir hafa komið beint frá æðstu yfirmönnum Evrópusambandsins um að þetta tvennt væri tengt. Ég gerði grein fyrir stöðu málsins í ríkisstjórn í byrjun desember að loknum árangurslausum fundi strandríkjanna á Írlandi. Um leið tilkynnti ég að við myndum taka okkur sömu hlutdeild 2012 og við höfum haft tvö undanfarin ár. Sumir ráðherrar voru mjög taugaóstyrkir yfir því að ákvörðun mín um makrílveiðarnar myndi hafa áhrif á ESB-viðræðurnar.
Ég lagði mikla áherslu á að við stæðum á okkar rétti. Í beinu framhaldi af því að hafa gert ríkisstjórninni grein fyrir málinu gaf ég út makrílkvóta Íslendinga 2012. Það þarf að fara að undirbúa veiðarnar og ástæðulaust að láta þetta vera eitthvert vafamál."
Hné farin að bogna á ýmsum í okkar liði
Jón rifjar upp að stór þáttur í baráttu VG fyrir síðustu kosningar hafi snúist um baráttuna gegn aðild að Evrópusambandinu. Þegar leið á kosningabaráttuna fannst mér vera farin að bogna hnén á ýmsum forystumönnum í okkar liði í þessum efnum. Þegar síðan kom að stjórnarmyndun var alveg ljóst frá byrjun að ESB-aðild var grunnatriði í málflutningi Samfylkingarinnar. Þeir forystumenn okkar sem stýrðu þessum viðræðum gáfu þarna eftir eitt aðalbaráttumál flokksins."
Jón segir að eftir því sem lengra komi í innleiðinguna fjölgi ágreiningsmálum. Hann hafnar því að hafa tafið fyrir vinnu við aðildarumsóknina og segir mikla vinnu hafa verið lagða í upplýsingaöflun og í að svara spurningum frá ESB um sjávarútveg og landbúnað. Á hans könnu hafi stærstu málaflokkarnir verið varðandi umsóknarferlið og hann hafi alltaf lagt áherslu á að samið yrði út frá íslenskum forsendum og hagsmunum. Í sjávarútvegi hafi hann t.d. alltaf sagt að ekki yrði hvikað frá yfirráðum yfir deilistofnum og stjórn veiða í íslenskri lögsögu.
Á sjálfstæðum forsendum
Sjálfstæði okkar er fólgið í því að eiga rétt á að semja á okkar forsendum, en um það virðast skiptar skoðanir. Ég hef sagt að við göngum til þessara viðræðna á sjálfstæðum forsendum, en ekki undir einhverju mútufé eins og þessir IPA-styrkir eru. Þarna er fullkominn ágreiningur á milli mín og forystu ríkisstjórnarinnar. ESB er vant því að ríki sæki um aðild til þess að komast inn. Hjá okkur samþykkti Alþingi með naumum meirihluta að senda inn umsókn og ég var meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn því. En Alþingi samþykkti aldrei að hér yrði tekið við milljörðum króna til þess að undirbúa íslenska stjórnsýslu.
Ég hef lagt grunngildi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs til grundvallar í afstöðu minni og hef sagt að ef fara ætti í þessa vegferð ætti fyrst að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur stutt mig afdráttarlaust í þessari baráttu og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur líka lýst afdráttarlausum skoðunum sínum um að ganga ekki í Evrópusambandið og að honum hefur verið mikill stuðningur í ríkisstjórn. Ég vona að aðrir ráðherrar VG í ríkisstjórn séu einnig andvígir aðild, en ég hefði viljað sjá þá beita sér af alvöru í málinu."
Þá koma aðrir sem vilja taka þann fána
- Umræða hefur verið um nýjar hreyfingar sem hyggjast bjóða fram við næstu kosningar. Er það til marks um óánægju með þá sem sitja á þingi?
Ef okkar flokkur færist aftur á réttan veg og stendur vörð um þau gildi sem hann er stofnaður um, félagsleg, umhverfisleg, samfélagsleg og jafnréttisleg, og síðan fullveldi Íslands, þá þarf ekki að stofna aðra flokka á þessum væng stjórnmála. Það eru verkin sem tala í þessu. Það dugar ekki að flokkar gangi langt frá stefnunni í framkvæmd og hafi hana bara til spari í orðum.
Ef við ekki réttum okkar kúrs í pólitík VG koma aðrir sem vilja taka þann fána. Þess vegna er svo brýnt að rétta af kúrsinn og hvetja það fólk sem stóð að því að byggja upp hugsjónir þessa flokks að láta ekki deigan síga, láta ekki mæðast, heldur taka slaginn og rétta flokkinn við. Hann hefur villst af braut, um það er ekki vafi, og á skoðanakönnunum sjáum við að fylgið hefur minnkað mikið frá síðustu kosningum. Flokkurinn verður að fara inn á þá braut sem hann var stofnaður til."
- Ágreiningur þinn og forsætisráðherra var áberandi.
Forsætisráðherra hefur ítrekað komið í fjölmiðla og gagnrýnt mig persónulega. Mér finnst með ólíkindum að forsætisráðherra skuli haga sér þannig og ýmislegt gæti ég sagt um verkstjórn hennar. Þegar forsætisráðherra leyfir sér að kalla hóp þingmanna í samstarfsflokknum ketti sem þurfi að smala segir það meira um forsætisráðherra en margt annað. Kettir eru fínir, en að tala með þessum hætti til samstarfsflokksins og þingmanna þar, sem hún veit að halda einarðlega fram hugsjónum og grunngildum flokks síns, það finnst mér ekki sýna mikla dómgreind."
Alltaf stutt alla til góðra verka
- Styðurðu ríkisstjórnina?
Ég hef alltaf stutt alla til góðra verka og það geri ég áfram. Margt hefur ríkisstjórnin gert vel og mörg mál hefðu ekki komist áfram án samstarfs þessara flokka. Ég hef ekki verið sáttur við allt sem gert hefur verið og ég hef áhyggjur af forystu míns flokks hvað það varðar að standa vörð um grunngildi hans. Allir þingmenn eiga að vera trúir sannfæringu sinni og því sem þeir voru kosnir til. Ég var afdráttarlaus í minni kosningabaráttu að halda fram gildum flokksins og þeim verð ég trúr. Ég styð þær afgreiðslur sem koma inn á þing og geta fallið að og eru í samræmi við þá stefnu sem VG hefur lagt upp með."
- Hefurðu hugleitt að segja skilið við VG?
Ég hef átt þátt í því með mörgu góðu fólki að byggja upp hugsjónir, baráttumál og stefnu VG. Þau verða áfram mín baráttumál og ég hverf ekki frá þeim hugsjónum. Síðustu vikur hef ég fundið fyrir gríðarlega miklum stuðningi og á nokkrum klukkustundum spratt upp mikil hreyfing og hátt í 200 manns skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu sem birtist í dagblöðum og ályktanir mér til stuðnings hafa borist víða að. Ég veit að því miður vilja margir hætta í flokknum, en ég hef hvatt fólk til að við tökum slaginn saman því hugsjónirnar eru þær sömu. Það lenda allir flokkar í þeim vandræðum að forystumenn þeirra villast af leið, en þá er bara að skipta þeim út eða kippa þeim inn á sporið aftur. Ég hef ekkert breyst, hugsjónirnar eru þær sömu, viljinn og löngunin til að hafa áhrif. Ég er sáttur við þau tækifæri sem ég hef fengið sem ráðherra og þingmaður og er tilbúinn að verja áfram kröftum, þreki og hugsjónum í þágu þess málstaðar sem ég hef barist fyrir með fjölmörgu góðu fólki."
- Hafið þið Ögmundur, Guðfríður, Atli og Lilja ráðið ráðum ykkar síðustu daga?
Þetta er gott fólk sem þú nefnir og við eigum samleið um margt, meðal annars grunngildi VG. Ögmundur og Guðfríður Lilja eru í flokknum og við stöndum þétt saman."
Forysta VG með of bogin hné | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það sjá það allir sem vilja að forystuvandamál VG er yfirþyrmandi og sömuleiðis má öllum vera ljóst að núverandi forysta einfaldlega leiðir þessa gagnrýni hjá sér og hyggst ekki ætla að taka mark á henni. Þar fer klárlega fólk sem setur eigin persónulega metnað og hagsmuni ofar flokks- og þjóðarhagsmunum. Um þetta þarf ekki að deila, svo augljóst er það.
Vandamál leysast hinsvegar sjaldnast af sjálfu sér bara ef það er bloggað nógu mikið um þau.
Það verður að hrökkva eða stökkva. Það verður að grípa til viðeigandi aðgerða áður en það verður allt of seint.
Og munið: tíminn vinnur með forystunni en ekki flokknum.
Birgir (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 14:34
Sammála Birgir,sameinumst um fullveldið, sem er það mikilvægasta.
Helga Kristjánsdóttir, 7.1.2012 kl. 17:17
Á skammstöfunin ekki að vera WHO (World Health Organization)?
Jón hefur verið öflugur gegn fullveldisafsali Jóhönnu og Össurar og co. Hann gerði samt óútskýranleg mistök í kúgunarmálinu ICESAVE. VG var samsekt.
VG-liðar ættu allir sem einn að fara að hætta að klappa fyrir stórhættulegum Steingrími og hætta að sættast á yfirgengileg svik hans og nokkurra hjálparmanna hans innan flokksins.
Elle_, 7.1.2012 kl. 19:28
VG-liðar ættu að reka Árna Þór og Björn Val og Steingrím úr flokknum. Vilji þeir ekki valda bæði landi og flokki enn stórfelldari skaða en nú er orðinn.
Elle_, 7.1.2012 kl. 19:31
WTO sem Jón nefnir í viðtalinu er World Trade Organization.
Vinstrivaktin gegn ESB, 7.1.2012 kl. 19:51
þessir ólátabelgir í Vinstri grænum eru meiru furðufuglarnir. Öll lætin eru vegna þess að flokkurinn vill ekki svíkja málefnasamning ríkisstjórnarinnar.
Þetta fólk virðist telja það sé sómi af því að svíkja gerða samninga. Það virðist ekki gera sér neina grein fyrir að flokkar verða að gefa eftir svo að hægt sé að mynda ríkisstjórn. Að öðrum kosti eru þeir dæmdir til áhrifaleysis og eiga því tæpast rétt á sér.
Framferði þessara einstaklinga hefur stórskaðað flokkinn. Fátt er eins slæmt fyrir fylgið og innri togstreita sérstaklega þegar hún á engan rétt á sér.
Í flokkum verða menn að virða lýðræðislegar samþykktir. Stöðugur þrýstingur á að fylgja ekki málefnasamningi ríkisstjórnarinnar hlýtur að flæma kjósendur frá flokknum í stórum stíl.
Svona uppákomur vekja upp spurninguna um hvort Vinstri grænir séu yfirleitt stjórntækur flokkur.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 11:53
Mjög líklega vantar krónuna þarna einfaldlega vegna þess hve lítl hún er. Þetta eru upplýsingar sem ná yfir nokkrar aldir. Krónan var ekki til nema lítinn hluta þess tíma og auk þess í höftum mest allan þann tíma. Veikleikinn mælist einnig í öðru en verðbólgu.
Það sem ég á við með að krónan sé veikasti gjaldmiðillinn er auðvitað að hann er minnsti gjaldmiðillinn og því auðveldast fyrir vogunarsjóði að keyra gengi hans niður úr öllu valdi ef gjaldeyrishöftum verður aflétt.
Að hann fór ekki neðar en raunin varð er eingöngu vegna þess að gripið var til gjaldeyrishafta til að koma í veg fyrir frekara hrun.
Ég var auðvitað að tala um styrkleikann núna en ekki í sögulegu samhengi. Það er því rangt að bera krónuna saman við gjaldmiðila sem eru horfnir af sjónarsviðinu fyrir löngu eða styrkleika þeirra fyrir mörgum árum og áratugum þegar krónan bjó við gjaldeyrishöft.
Úr því að verið er að rifja upp söguna er við hæfi að nefna að frá 1920 þegar gamla íslenska krónan fékk sjálfstæða gengisisskráning,u hefur gengi hennar lækkað úr einni danskri krónu í 0.0005 d.kr. Gengi hennar nú gagnvart d.kr. er aðeins 1/2100 af því sem það var 1920.
Ég tel nokkuð víst að enginn gjaldmiðill, sem enn eru frjáls viðskipti með, hafi lækkað jafnmikið umrætt tímabil. Sennilega hefur krónan ekki komið til álita í þessari upptalningu vegna þess hve lítil hún er auk þess sem hún hefur búið við höft mest allan þennan tíma.
Ertu í alvöru að halda því fram að krónan sé sterkari gjaldmiðill en bandaríkjadollar?
Annars ætti þessi upptalning á miklu stærri gjaldmiðlum en þeim íslenska að sýna okkur hve vonlaust það er að hafa frjáls viðskipti með krónuna. Króna með gjaldeyrishöftum er einnig skelfilegur kostur. Við höfum reynsluna.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 12:58
Fyrir mistök lenti athugasemdin hér næst á undan við ranga færslu. Hún er nú komin á réttan stað. Það væri því gott ef hún yrði fjarlægð héðan ásamt þessari færslu ef það er hægt.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 13:07
Samfylkingarskrattinn er ´ekki stjórntækur flokkur´. Og ´öll lætin´ eru vegna yfirgangs þeirra. VG er ekki heldur stjórntækur meðan nokkrir innan hans og helst formennskan lætur Jóhönnu og co. algerlega valta yfir stefnu flokksins. Og þjóðina.
Elle_, 8.1.2012 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.