Spá hugveitu: 2012 er árið þegar evran fer að splundrast

Eitt ríki að minnsta kosti mun segja skilið við evru-svæðið á þessu ári og 99% líkur eru á því að samstarfið um evruna splundrist á næstu 10 árum. „Nú bendir allt til þess að árið 2012 verði árið þegar evran tekur að splundrast."

Þetta er niðurstaðan af rannsóknum hugveitunnar Centre for Economics and Business Research (CEBR). Forstöðumaðurinn, Douglas McWilliams, skrifar: „Enn hefur þetta ekki gerst - en við teljum 60% líkur á að það gerist - í spá okkar felst að fyrir lok þessa árs hafi eitt ríki yfirgefið evru-svæðið og líklega fleiri."

Hann telur „næsta öruggt" að Grikkir segi skilið við evruna og sennilegt að Ítalir geri það einnig. „Ég vænti þess að flestir franskir og þýskir bankar fái neyðaraðstoð til að bæta þeim upp tap vegna ríkisskuldabréfa. Þeir kunna jafnvel að verða þjóðnýttir. Margir aðrir evrópskir bankar lenda í miklum erfiðleikum."

Bent er á að þessi viðvörun frá CEBR birtist daginn eftir að Angela Merkel Þýskalandskanslari og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hvöttu þjóðir sínar til að búa sig undir erfitt ár 2012 í nýársávörpum sínum.

Evran kom fyrst til sögunnar sem gjaldmiðill 1. janúar 2002, það er fyrir réttum tíu árum. Þá var henni hampað sem tákni þess að ESB-ríkin hefðu náð nýjum áfanga við að styrkja sig inn á við og út á við, þau ættu nú eigin mynt sem mundi keppa við dollarann um heimsyfirráð. Evran mundi auk þess leggja grunn að blómlegri framtíð ESB-ríkjanna. Þau eru öll skuldbundin til að taka upp hina sameiginlegu mynt nema Danir og Bretar. Nú eru 17 af 27 ríkjum ESB með evru.

Skoðanakönnun á vegum BBC meðal fremstu hagfræðinga leiðir í ljós að flestir telja að samdráttur verði í efnahagslífi ESB á árinu 2012. Þá telur meirihluti þeirra 30 til 40% líkur á að evru-samstarfið splundrist.

Rannsóknarhópur á vegum greiningarstofnunarinnar OFCE við hina virtu stofnun Sciences Po í París heldur því fram að hin „raunverulega kreppa" á evrusvæðinu sé nú fyrst að verða að veruleika. Fjármálakreppan sem hófst 2008 hafi verið skuldakreppa einkabanka en nú snúist kreppan um ríkisskuldirnar. Rannsóknarhópurinn spáir því að stöðnun sé framundan á evrusvæðinu. „Allar vísbendingar benda í sömu áttina - það er niður á við", segir Xavier Timbeau, forstjóri fyrir greiningarstofnunina. „Að undanförnu hefur útlitið versnað jafnt og þétt. Annað hvort verður ESB að breytast í nýtt, sjálfstætt stórríki, og það væri það besta, því að það yrði voldugt ríki, eða það á eftir að hrynja", bætti Xavier Timbeau við.

En hér á Íslandi heldur pílagrímsganga Jóhönnu og Össurar áfram til fyrirheitna landsins þótt þau sjálf hafi ekki hugmynd um í hvers konar Evrópusamband þau eru að leiða þjóðina.  

Heimildir: Vefritið E24.no á vegum norska blaðsins VG og Evrópuvaktin, 2. janúar 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Evran er víða litinn hornauga einkum vegna þess að hún ógnar stöðu bandaríkjadollars sem hinnar ríkjandi viðskiptamyntar í heiminum og vegna þess að hún hefur gert pundið að minniháttar gjaldmiðli.

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að það eru nánast eingöngu Bandaríkjamenn og Bretar sem tala niður evruna. Þeir telja sig vera að verja hagsmuni þjóðar sinnar með því að koma í veg fyrir uppgang evrunnar. Helst vilja þeir hana feiga.

Það hefði geigvænleg áhrif á bandaríkst efnahagslif ef evran viki bandaríkjadollar til hliðar og tæki við hlutverki hans sem ríkjandi mynt í heiminum. Þetta er vel hugsanleg framtíðarsýn enda eru ESB-löndin miklu fjölmennari en BNA og efnahagurinn traustari. Jöfnuður er þar miklu meiri en í BNA.

Það mun engin evruþjóð leggja niður evru nema að undangengnu allsherjarhruni í landinu. Upptaka annars gjaldmiðils verður þá hluti af endurreisninni. Ef evran splundrast, eins og Vinstrivaktin orðar það, þá splundrast peningakerfi alls heimsins og hið aðþjóðlega hagkefi verður ein rjúkandi rúst.

Vandinn er alþjóðleg skuldakreppa en ekki evran. Ef kemur til þess að hið alþjóðlega hagkerfi fer að sýna alvarleg veikleikamerki sem leiðir að lokum til hruns á heimsvísu gæti upphafið vel verið utan evrusvæðisisins enda á skuldakreppan ekki upptök sín þar.

Ástæðan fyrir því að athyglin beinist að evru og evrulöndum er, fyrir utan óttann við uppgang evru, sú staðreynd að evrulöndin eru að reyna að leysa vandann. Önnur illa stödd ríki eins og Bretland og Bandaríkin fljóta sofandi að feigðarósi.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 17:24

2 Smámynd: Elle_

3.1.2012 | 7:29

Danskir forstjórar vilja ekki evru

Meirihluti forstjóra danskra stórfyrirtækja er nú andvígur því, að Danir taki upp evru, samkvæmt könnun, sem viðskiptablaðið Børsen hefur látið gera.

Elle_, 3.1.2012 kl. 18:51

3 identicon

Elle, ertu að reyna að telja okkut trú um að við eigum ekki að ganga í ESB af því að danskir forstjórar vilja ekki evru eins og sakir standa?

Danir eru í ESB og vilja alls ekki út. Danska krónan er bundin við evru með stuðningi ECB.

Við eigum því að ganga í ESB ef þú vilt taka Dani þér til fyrirmyndar. Svo þurfum við ekki að taka endanlega afstöðu til evru fyrr en eftir nokkur ár.

Þá er líklegt að danskir forstjórar verði aftur orðnir hlynntir því að taka upp evru.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 19:22

4 Smámynd: Elle_

Ykkur?  NEI.  En við fullveldissinnar erum ekkert eins bláeyg og þið haldið.  Þið bara haldið áfram að ausa yfir okkur blekkingum um ekki neitt.  

Elle_, 3.1.2012 kl. 21:01

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Elle reynir ekki neitt sem er falskt. Það er bara svo að í þjóðríkjum,sem eru nú þegar í Esb. eru hópar eins og forstjórar stórfyrirtækja í Danaveldi,sem sjá hve óskynsamlegt er að taka upp Evru. Þeir ættu að skynja hættuna við slíkt.Við fullveldissinnar munum aldrei samþykkja inngöngu í ESB. Það er auðvitað vitað að allt er breytingum háð,verði danskir kaupmenn einhv.tíma til í að taka upp Evru.þá þeir um það. Á sama tíma verðum við komin í gjaldmiðlasamstarf við Canada t.d. .Miklu betri kostur,við ætlum í það fyrsta að verja okkar fullveldi,það er innprentað í meirihluta þjóðarinnar.

Helga Kristjánsdóttir, 4.1.2012 kl. 04:12

6 identicon

Það er ekkifrétt fyrir okkur Íslendinga að danskir forstjórar séu orðnir ófúsir til að taka upp evru eins og nú háttar til.

Þetta er auðvitað ekki nein vísbending um að við eigum ekki að ganga í ESB og taka upp evru enda búa Danir ekki við sama gjaldmiðilsvanda og við. Danska krónan er bundinn evru með stuðningi ECB (Evrópska seðalabankans).

Úr því að 15-20 sinnum stærri gjaldmiðill en íslenska krónan er ekki talin spjara sig nema með bindingu við evru er auðvelt að álykta að íslenska krónan er gjörónýt sem gjaldmiðill.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 08:05

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hugmyndafræðin um evruna og ESB var góð, ef hún hefði verið byggð upp á traustum og réttmætum grunni og vegna mannréttinda/velferðar-hugsjóna fyrir almúgann. 

Því miður var og er sú hugmyndafræði byggð á spilltum og ótraustum grunni, þar sem stjórnsýslan var/er jafn rotin og hjá öðrum höfuðsstöðvum stórríkja/velda.

Evran og krónan eru ekki meinið, heldur rotin og gjörspillt græðgi-hugsjóna-stjórnsýsla fárra auðmanna heimsins.

Þess vegna hrynur allt sem heitir normalt, heiðarlegt og eðlilegt í kringum þessar gjaldmiðla-spilaborgir svikulla matsfyrirtækja.

Gjaldmiðlar heimsins eru hættir að þjóna almenningi, og þjóna nú gjörspilltu seðlabankakerfi heimsins, sem allt er samtvinnað og tengt í bankaráns-stofnunum víðsvegar um veröldina.

Sumum hentar og/eða trúa á, og mæla með þessari eiginhagsmuna-spillingarstefnu auðmanna heimsins, sem mun þurrka út mannréttindi og eðlilegt líf á þessari plánetu sem kölluð er jörð. Þessir heims-auðmenn og valdasjúklingar eru of sjúkir til að skilja að þeir eru að tortíma eðlilegu lífi á jörðinni með eitraðri hugsun og verkum.

Það er ekki innstæða fyrir núverandi svika-seðlabankastefnu og fjármálakerfi heimsins, og þess vegna á það kerfi sér ekki neina framtíð. Þeir sem ekki horfast í augu við þær staðreyndir, eru að aðstoða þessa tortímingu sjúks fjármálakerfis heimsins. Afneitun er fyrsta boðorð í áróðurs-boðskapi svika-aumanna heimsins.

ESB er einn armurinn á svikulum heimskolkrabbanum, og skilgetið afkvæmi auðmanna-klíku heimsins. Sú klíka leggur ofuráherslu á að splundra samstöðu almennings og gera almenning að þrælum.

Sannleikurinn er sagna bestur þótt hann sé ljótastur, og þar af leiðandi erfiðastur í augnablikinu.

Minni á síðuna hans Jóhannesar Björns: vald.org.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.1.2012 kl. 09:23

8 Smámynd: Elle_

4.1.2012 | 12:57 

Segir Evrópu á barmi kreppu

Jean-Claude Juncker, einn helsti forystumaður samstarfsins um evruna, segir Evrópu á barmi kreppu.

Elle_, 4.1.2012 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband