Staða VG veikist mjög og ríkisstjórnin hangir á bláþræði
1.1.2012 | 14:10
Augljóst er að brottvísun Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn veikir VG verulega, eykur sundrungu innan flokksins og fælir frá honum fylgi en gleður þó samningamenn ESB í Brussel. Líf ríkisstjórnarinnar hangir bersýnilega á bláþræði eftir vanhugsað samkomulag Jóhönnu og Steingríms.
Í áramótaávarpi formanns VG til flokksmanna var áhersla lögð á að stefnt væri að framtíð án hægri aflanna við völd. Mörgum fundust orð Steingríms grátleg öfugmæli þegar hann er á sama tíma önnum kafinn við aðgerðir sem vekja mikla ólgu og óánægju meðal vinstri manna í landinu.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tekur undir með fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í viðtali á síðasta degi ársins að væntanlega gleðjist menn í Brussel við burtför Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórninni. Á því er auðvitað enginn vafi. En hægri öflin í landinu geta líka glaðst því líf fyrstu vinstri stjórnar lýðveldissögunnar hefur aldrei staðið jafn tæpt.
Við blasir að ráðherranum sem ötullegast hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni í aðildarviðræðum við ESB var vikið úr embætti að kröfu formanns Samfylkingarinnar. Vegna orða Steingríms um framtíð án hægri aflanna við völd hafa ýmsir bent á að markaðstrúin sé líklega hvergi sterkari og altækari í nokkrum flokki hér á landi en í samstarfsflokki VG í ríkisstjórn og minna þá jafnframt á að annað vígi hægristefnu í heiminum er einmitt Evrópusambandið þar sem markaðslögmál og stórfyrirtækjapólitík er greypt í stein.
Einnig undrast margir að Steingrímur skuli aftur og aftur beygja sig í duftið fyrir óbilgjörnum kröfum Jóhönnu og telja augljóst að staða VG í þessari ríkisstjórn sé nú veikari en nokkru sinni fyrr. Grétar Einarsson stjórnmálafræðingur bendir á að tvö valdamestu embætti hverrar ríkisstjórnar séu embætti forsætis- og utanríkisráðherra. Þegar tveir flokkar hafi myndað saman stjórn skipti þeir ávallt þessum embættum með sér. En þó gerðist það við myndun núverandi stjórnar að VG lét sér nægja þriðja valdamesta ráðuneytið, þ.e. fjármálaráðuneytið. Nú bætist það við ofan á allt annað að Samfylkingin fær einnig þetta ráðuneyti í sinn hlut. Sjálfstæðismenn þóttu löngum yfirgangssamir í stjórnarsamvinnu við framsóknarmenn og var þá forysta framsóknar gagnrýnd fyrir undirlægjuhátt, en framsókn lét þó aldrei bjóða sér neitt í námunda við það sem VG gerir nú.
Staða beggja stjórnarflokkanna hefur verið með afbrigðum veik undanfarna mánuði samkvæmt skoðanakönnunum, jafnvel svo veikburða að Össur utanríkisráðherra hikar ekki við að tilkynna þjóðinni að Jóhanna muni brátt hverfa úr forystu. Sjálfur á Össur sinn stóra þátt í því að veikja þessa stjórn með einstaklega misheppnuðu samningabrölti við ESB sem mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur andstyggð á og frábiður sér, þótt stundum sé unnt með leiðandi spurningum að fá jákvæð viðbrögð frá fólki þegar spurt er hvort viðkomandi vilji þó ekki að minnsta kosti fá að kíkja í pakkann og greiða svo atkvæði um ESB.
Kjarni málsins er auðvitað sá að ákvörðunin um ESB-aðildarumsókn, sem smyglað var í gegnum Alþingi á fölskum forsendum gegn skýrum vilja þjóðarinnar, er hægt og bítandi að eyðileggja þessa ríkisstjórn og þær vonir sem við hana voru bundnar, eins og best sé á þeim miklu hremmingum sem dunið hafa yfir VG á liðnu ári.
Athugasemdir
Frá mínum bæjardyrum var burtför Árna Páls og Jóns lúmskulega þaulhugsuð skipti milli Jóhönnu og Steingríms. Enda lúmska og óheiðarleiki ein höfuð vinnuaðferð þeirra beggja. Nú á nefnilega að þóknast Brusselliðinu með 2 flugum í 1 höggi: Fáránleika´viðræðunum´ + ICESAVE.
Vinnubrögðin sem forystan/Steingrímur notaði við boðun fundarins, alltof seint, eru týpísk vinnubrögð þeirra sem valta yfir lýðræðið og virða það að vettugi. Það var viljandi gert svo ´erfiðir villikettir´stæðu ekki í vegi fyrir planinu. Það var ekkert nýtt komandi frá Jóhönnu og co.
VG ætti að virða ólýðræðislegan og ranglátan brottrekstur Jóns að vettugi. Það á að setja Jón aftur inn í ríkisstjórnina. Næst reka stórskaðlegan og svikulan Steingrím úr flokknum með skömm. Honum getur ekki verið lengur stætt í flokknum og síst í forystu og þó löngu fyrr hefði verið.
Við vitum að Jóhanna verður ekki þarna mikið lengur með skemmdarverk.
Elle_, 1.1.2012 kl. 15:21
Sammála ykkur báðum. Svik og prettir verður yfirskrift þessarar ríkisstjórnar, og sennilega líka VERULEIKAFIRRING. Ég er venjulega frekar friðsöm manneskja en í mér svellur blóðið vegna þessa fólks, og ég á þá ósk heitasta að þau hunskist burt sem allra fyrst.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.1.2012 kl. 17:24
Friðsamt fólk er í bókstaflegri merkingu ræst út í skæruhernað gegn þessu stórhættulega liði. Og ég skil alls ekki hví VG rak ekki ´STALÍNISTANN´ úr forystu strax við fyrstu ICESAVE-SVIKIN. Hann laug í alþingi 3. júni, 09 að enginn samningur væri í gangi, bara þreifingar, og kom samt með fullbúinn stórkostlega flókinn og ríkishættulegan samning 2 dögum seinna, 5. júní, 09.
Elle_, 1.1.2012 kl. 18:23
Nú mun "lausn" icesave deilunnar verða opin bók fyrir ESB. Sá ráðherra sem hafði kjark til að taka stöðu með þjóðnni í því máli, að vísu ekki fyrr en eftir að þjóðin hafði veitt stjórnvöldum rautt spjald í tvennum kosningum, hefur nú verið úthýst úr ríkisstjórn. Við því máli tekur Steingrímur, sá sem hefur harðast barist fyrir því að þjóðin taki á sig þennan klafa. Hann á harma að hefna gagnvart þjóðinni.
Þá hefur forsetinn gefið út að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi starfa og muni yfirgefa embættið í sumar.
Því þarf ESB ríkisstjórn Íslands einungis að tefja málið fram á sumar. Það mun verða gert með því að dómstól ESA mun verða skipað að hægja verulega á því ferli sem þar er komið í gang, samið verður um að Ísland taki á sig alla ábyrgð og kostnað vegna icesave, einnig allan kostnað af okurvöxtum Breta og Hollendinga. Síðan verður beðið þar til nýr forseti hefur tekið við, að því loknu verður málið keyrt með ofbeldi gegnum Alþingi og nýr forseti látinn undirrita lögin. Þjóðin mun ekkert geta gert!
Í beinu framhaldi af þessu verður svo gengið frá aðildarsamningi við ESB, þar sem öllu verður fórnað. Málamyndarkosning meðal þjóðarinnar mun svo fara fram og lögin síðan staðfest án tilits til nðurstöðu hennar!
Okkar eina von er að aðild verður ekki samþykkt nema með breytingu á stjórnarskrá. En þegar að þeim tímapunkti kemur mun skaðinn verða skeður og tjón þjóðarinnar orðið óbætanlegt!!
Gunnar Heiðarsson, 1.1.2012 kl. 19:32
@ Gunnar Heiðarsson.
Mér finnst þú nú full svartsýnn á nýja árinu. Ég held að enginn ríkisstjórn þori eða hafi umboð til þess að reyna einhverja samningaleið frekar í þessu ICESAVE máli. Það að þjóðin hafi hafnað ICESAVE nauðar samningum tvisvar í þjóðaratkvæði, að vísu fyrir atbeina okkar öfluga forseta, gerir það að verkum að það verður ekki reynt. Alveg sama hvernig málið fer fyrir þessum EFTA dómsstóli, sem reyndar er enginn "Stóri Dómuir" þá mun það alltaf fara miklu mun betur heldur en ef þjóðin hefði látið þessa nauðung yfir sig ganga.
Athugum það að það er langur vegur þar til EFTA dómsstóllinn mun kveða upp sinn úrskurð og margt getur gerst þangað til, t.d. að málinu verði vísað frá dómi af ýmsum ástæðum, s.s. þeim að innistæðueigendur hafi fengið lágmarks upphæðina greidda úr þrotabúi Gamla Landsbankans og svo frv. Einnig gætum við vel unnið málið.
En þó við töpuðum því þá fylgir því enginn greiðsluskylda og Dómurinn getur ekki gert okkur refsingu eða ákvarðað vexti. Til þess yrðu kröfueigendur að fara með málið fyrir íslenska dómsstóla. En afhverju skyldu þesir kröfueigendur sem reyndar hafa allir fyrir löngu fengið lágmarkstrygginguna greidda af Hollenska og Breska Ríkinu, þvert gegn lögum og reglum, ætla að taka þá áhættu og leggja í þann kostnað að ætla að fara að reka rándýrt og tímafrekt mál fyrir íslenskum dómsstólum, þar sem langsamlega líklegast væri að þeir töpuðu því máli. Íslenskir dómsstólar dæma nefnilega eftir íslenskum lögum og dómararnir eru íslenskir.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 2.1.2012 kl. 10:20
Ríkisstjórnin hékk á bláþræði fyrir síðustu uppstokkun.
Eftir þá uppstokkun er hún sjálf og einráð búin að klippa á síðasta þáttinn í líftaug þessarar ríkisstjórnar.
Ég tek undir þau orð að friðsamlegasta fólk er búið að missa þolinmæðina og trúna á þessa stjórn. Og þegar friðsamlegasta fólk er kominn á þann stað er ekki von á vinnufrið til fleiri óhæfuverka íslenskra fjármagnseigenda og bankaráns-auðjöfra þessa lands og annarra, í gegnum þessa kjarklausa mútuþega-ríkisstjórn ESB-klíkunnar.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.1.2012 kl. 10:25
Gunnlaugur, EFTA-dómstóllinn dæmir hvort Íslandi beri að greiða skuldina en kveður ekki á um lánskjörin.
Ef dómur fellur okkur í óhag borgar sig að semja um kjörin ef sömu vaxtakjör og greiðskuskilmálar bjóðast og í Buchheit-samningnum. Það verður að teljast útilokað að fá dæmda lægri vexti. Markaðsvextir eru miklu hærri.
Nú þegar öllum ætti að vera ljóst að best hefði verið að samþykkja samninginn er bara að vona að neiið eigi ekki eftir að kosta okkur allt of mikið.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 09:32
EFTA dómstóllinn hefur ekki lögsögu í málinu. Getur ekki dæmt okkur neinar skaðabætur. Við semjum ekki um fjárkúgun.
Elle_, 3.1.2012 kl. 15:44
3.1.2012 | 16:50 |
Heiðursfélagi hættur í VG
Elle_, 3.1.2012 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.