ESB þríklofið – í hvern hlutann eru Össur og Jóhanna að sækja?

Skiptir engu máli fyrir íslenska aðildarsinna í hvers konar ESB þeir vilja troða þjóð sinni? Inn skulu Íslendingar ganga hvernig sem aðstæðurnar eru! Sarkozy hótaði því í gær að ESB hefði aðeins sólarhring til að bjarga evrunni og þar með ESB. Samkomulag náðist þó ekki. Og hvað nú?

Bretar neituðu að fórna enn stærri hluta fullveldis síns en þegar er orðið og höfnuðu tillögu Frakka og Þjóðverja á leiðtogafundinum í nótt. Þeir höfnuðu stóraukinni miðstýringu en þó einkum að fyrirhugaður fjármálaskattur lenti á fjármálalífi Lundúna. Borgin er í raun fjármálamiðstöð ESB og ein sú mikilvægasta á jörðinni. Að morgni föstudags er því staðan að ýmsu leyti óljós en þó blasir við að í raun er ESB þríklofið:

1) Evruríkin sautján stefna að myndun nýs bandalags þar sem aðildarríki verða svipt réttinum til að ráða ein fjárlögum sínum og ríkisrekstri í því skyni að bjarga evrunni.

2) Nokkur ESB-ríki sem ekki hafa evru munu þó líklega fylgja með í þessu nýja bandalagi en neita engu að síður að taka upp evru. Meðal þessara ríkja má nefna Danmörku, Búlgaríu og Pólland, en fjármálaráðherra Pólverja sagði nýlega að það tæki mörg ár að greiða úr „djúpstæðum og kerfislægum vandamálum evrusvæðisins", og meðan sá vandi væri ekki leystur yrði ekki óhætt að taka upp evru. Leiðtogi pólsku stjórnarandstöðunnar sagði upptöku evru jafngilda „efnahagslegu sjálfsmorði". (Sjá nánar mbl.is 8. des.) Danska ríkistjórnin er þverklofin í afstöðu sinni og þar er ákaft krafist þjóðaratkvæðis um fyrirhugaðar breytingar. (Sjá frétt 9. des.)

3) Þriðja hópinn mynda Bretar, sem neita að taka upp evru og munu jafnframt standa utan við „ríkisfjármálabandalagið". Nokkur aðildarríki, sem ekki eru heldur með evru, voru ekki tilbúin að taka afstöðu í nótt, þ.á.m. eru Ungverjar, Tékkar og Svíar. Ljóst er að í Svíþjóð getur orðið mikill ágreiningur um hvaða stefnu beri að taka, en þó dettur þar fáum í hug að taka upp evru og tæp 90 % landsmanna eru andvíg því samkvæmt skoðanakönnunum. - RA
mbl.is Tilraun til samkomulags 27 ríkja fjarar út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að sjálfsögðu stefnum við að upptöku evru. Aðeins með evru fáum við nauðsynlegan stöðugleika.

Evran gerir íslensk fyrirtæki samkeppnishæf við erlend fyrirtæki. Mörg atvinnutækifæri verða til með auknum útflutningi. Gjaldeyristekjur vegna aukins útflutnings á mörgum sviðum koma sér vel til að greiða niður háar erlendar skuldir.

Það er því mikil blekking að halda því fram að ESB-aðild fylgi aukið atvinnuleysi. Helstu rökin fyrir þeirri fullyrðingu er mikið atvinnuleysi á Spáni.

Það eru ekki gild rök enda er atvinnuleysi í mörgum ESB-löndum miklu minna en á Íslandi. Þar á meðal eru Luxumbourg og Malta sem eru einu löndin sem eru af svipaðri stærðargráðu og Ísland að því er fólksfjölda varðar.

Evrunni fylgja einnig miklu lægri vextir og miklu minni verðbólga. Verðtrygging lána verður því óþörf. Greiðslubyrði íslenskra íbúðarlána er nærri 70% meiri en meðltal ESB-landa. Hér er því um gífurlegt hagsmunamál að ræða fyrir almenning.

Stöðugleikinn sem fylgir evru kemur í veg fyrir að lán hækki skyndilega upp úr öllu valdi (án þess að laun hækki).

Greiðslubyrði lána verður því ekki bara miklu léttari. Með evru verður það liðin tíð að menn kaupi íbúð með 30% eigið fé til þess eins að uppgötva stuttu seinna að eigið fé er allt uppurið og íbúðin veðsett langt upp fyrir markaðsverð.

Krónan krefst gjaldeyrishafta. Það er sjálfsblekking ef ekki heimska að ímynda sér að hægt verði að setja hana aftur á flot.

Til að sjá þetta þarf ekki annað en að gera sér grein fyrir að stórir vogunarsjóðir eiga auðvelt með að keyra gengi krónunnar niður úr öllu valdi til þess eins að græða á henni.

Gjaldeyrishöft til lengdar hafa óhjákvæmilega í för með sér mikla skerðingu lífskjara enda hafa þau tilhnreigingu til að versna eftir því sem fleiri sjá við þeim.

Gjaldeyrishöft til frambúðar þýða úrsögn úr EES. Atvinnu- og námsmöguleikar erlendis skerðast. Jafnvel gæti farið svo að ferðamannagjaldeyrir verði af mjög skornum skammti eins og við höfum reynsluna af langt fram á seinni helming síðustu aldar.

Evra eða annar gjaldmiðill án bakhjarls í seðlabanka væri feigðarflan. ESB er því eina leiðin til að fá nothæfan gjaldmiðil á öruggan hátt. Auk þess er mikill fengur í ESB-aðild að öðru leyti.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 9.12.2011 kl. 16:00

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mínir heimildarmenn í Austurríki telja það af og frá að Austurríkismenn styði framsal til Evrópusambansins með sitt fullveldi.  Ég held að þessar áætlanir eigi eftir að springa í andlit þeirra fulltrúa sem samþykktu þetta glapræði.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.12.2011 kl. 23:56

3 identicon

Ásthildur, Austurríki er einmitt eitt þeirra landa sem vegnað hefur mjög vel í ESB.

Þar er atvinnuleysi td miklu minna en á Íslandi. Þessar nýju aðhaldaðgerðir munu ekkert snerta lönd sem vegnar vel, að öðru leyti en að þau þurfa ekki lengur að hafa sömu áhyggjur af að önnur ESB-lönd skaði sambandið með spillingu og órásíu.

Þetta er því fjarri því að vera fullveldisafsal.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 10:40

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ekki vilja austurrískur almenningur góðkenna það, þeir eru orðnir dauðþreyttir á að vera sífellt að borga sukk annara þjóða.  Þeir sem ég hef talað við vara okkur alvarlega við að ganga í sambandið, þeir segja hreint út að við höfum ekkert þangað að gera.  Reyndar eru allir mínir vinir í Austurríki vinir og stuðningsmenn íslendinga og vilja okkur allt það besta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.12.2011 kl. 11:10

5 identicon

Í athugasemd minni nr 1 hélt ég því fram að greiðslubyrði íslenskra húsnæðislána væri nærri 70% hærri en meðaltal ESB-landa.

Þá miðaði ég við gögn sem hafa birst um að Íslendingar greiddu íbúðarverðið 2 1/2 sinnum meðan íbúar ESB-landa greiddu það aðeins 1 1/2 sinnum vegna lántöku.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur hjá ASÍ, var hins vegar með nýjar tölur varðandi þennan mun í Speglinum í gær. Þar nefndi hann tölur sem sýndu að greiðslubyrði íbúðarlána væri meira en tvöfalt meiri hér en í ESB-löndum.

En munar Íslendinga nokkuð um að greiða íbúðina meira en tvöfalt miðað við aðrar þjóðir? Greinilega ekki ef þeir vilja ekki ganga í ESB og taka upp evru.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 11:11

6 identicon

Ásthildur, það er einhver misskilningur hjá Austurríkismönnum ef þeir halda að þeir séu sífellt að borga sukk annarra þjóða.

Aðeins er um að ræða lán frá ESB sem eru háð ströngum skilyrðum þar á meðal um afskriftir banka á stórum hluta skulda viðkomandi þjóða. Skilyrðin eiga að tryggja að lánin verði endurgreidd.

Auk þess munu þessar fyrirhuguðu aðhaldsaðgerðir torvelda mjög eða koma í veg fyrir slíkt sukk í framtíðinni. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 11:22

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ættir ef til vill að segja þeim það, að skattarnir þeirra hafi hækkað bara af því bara en ekki af því að þeir þurfi að leggja meira til ESB.  Þeir eru nefnilega sannfærðir um að svo sé. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.12.2011 kl. 11:36

8 identicon

Það þarf ekkert að segja Austurríkismönnum að kreppan veldur óhjákvæmilega skattahækkunum ef endar eiga að ná saman.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 18:23

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert semsagt algjörlega blindur og heyrnarlaus Ásmundur á hvað er að gerast.  Rétt eins og Jóhanna og Össur.  En þetta mun allt koma vel í ljós fljótlega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.12.2011 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband