Ný vefsíða um verklýðshreyfinguna og ESB hleypur af stokkunum

Vefsíðan ESB og almannahagur birtist í fyrsta sinn nú í vikulokin og mun „fjalla skipulega um nokkra þætti ESB sem ekki hafa fengið mikla umfjöllun ". Ritstjórinn Páll H. Hannesson er vel heima í innviðum ESB, ekki síst þeim sem snúa að samskiptum verkalýðsfélaga og ESB, enda var hann alþjóðafulltrúi BSRB í átta ár. Á síðunni verður fjallað um umsóknarferlið, fjallað um velferðarsamfélagið og ESB og hina fjölmörgu þætti sem snúa að almannahagsmunum.

Netfang síðunnar er http://esbogalmannahagur.blog.is/

Í gær endurbirti Vinstrivaktin grein Páls um harða gagnrýni evrópskrar verklýðshreyfingar á þá stefnu ESB að almenningur eigi að borga bönkunum fyrir þá kreppu sem þeir ollu. Nú birtum við ávarp ritstjórans 30. nóv. s.l. sem bar nafnið: „Út í djúpu laugina...":

„Það er ekki heiglum hent að kasta sér út í þann svelg umræðu um ESB sem nú, loksins, flýtur yfir alla bakka í íslenskum fjölmiðlum. Sú umræða líkist einna helst vorleysingum þar sem straumurinn ber með sér brak af ólíku tagi sem sumt marar í hálfu kafi og snýr ýmist fram eða aftur, eða skýst upp úr kafinu augnablik bara til þess að hverfa á ný í djúpið. Fyrir þá sem standa álengdar á bakkanum og fylgjast með, er erfitt að henda reiður á hvað er hvað og hvert samhengi hlutanna kann að vera.

Frá bakkanum séð glittir í straumnum í eitthvað sem heitir á Íslandi"evrópskt matarverð", þarna bólaði á hluta af umræðu um fiskveiðikerfi, lengra úti flýtur Jón Bjarnason fram hjá með Jóhönnu á bakinu, þar reis og sökk Kínverjinn Nubo og svo virðist vera í uppsiglingu heilmikill brotsjór evrunnar, sem áhöld eru um hvort hafi steytt á grísku skeri eða sé orðinn til af innri mótsögnum Evrópusambandsins sjálfs. Hvað leynist svo undir yfirborðinu er, eðli máls samkvæmt, hulið sjónum.

Og í hringiðunni miðri snýst Össur Skarphéðinsson á grein og líkist mest kettinum úr Lísu í Undralandi,- eina stundina ekkert nema brosið, þá næstu er hann horfinn. Þaðan vill hann vísa þjóðinni veginn í eitt eilífðar geggjað teboð samningaferlisins, þar sem tíminn stendur kyrr og gestir skiptast á hálfkveðnum vísum og óráðnum gátum. Hvort íslenska sendinefndin verði í hlutverki hinnar syfjuðu svefnmúsar sem veit ekki hvort hún er vakandi eða sofandi í súrrealistiskum draumi, - eða hvort hún á eftir að ganga á dyr eins og Lísa, hneyksluð á vitleysisganginum, á tíminn eftir að leiða í ljós. En þó Evrópusambandinu svipi um margt til sögunnar um Lísu í Undralandi og sé fullt af rökvillum, innri mótsetningum og þrautum af ýmsu tagi, að þá verður íslenska þjóðin að átta sig á hvert hún vill fara.

Lísa: "Getur þú vísað mér veginn?"

Kötturinn: "Hvert ertu að fara?"

Lísa: "Ég veit það ekki".

Kötturinn: "Þá skiptir ekki máli hvaða leið þú velur, allar leiðir liggja þangað" !!!

Og við vitum öll hvert kötturinn vill fara.

Það er ætlun höfundar þessarar síðu að gera tilraun til að greiða ögn úr flækjunni og fjalla skipulega um nokkra þætti ESB sem ekki hafa fengið mikla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum eða bloggheimum. Það kemur ekki í veg fyrir að ýmsar ábendingar og athugasemdir verða látnar fljúga um þau mál sem efst kunna að vera á baugi á hverjum degi í fjölmiðlunum og umræðunni almennt. En meira um það í næsta bloggi."

Jafnframt má benda á fróðlegt viðtal við Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem birtist á síðunni esbogalmannahagur.blog.is  s.l. föstudag 2. nóv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vefsíður hlaupa ekki af stokkunum. Þeim er hleypt af stokkunum.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 14:20

2 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Ásmundur! Þú ert duglegur að gera athugasemdir þótt þær séu að vísu misjafnar af gæðum og reyndar flestar úr lausu lofti gripnar. Í gær fettirðu fingur út í fyrirsögnina þar sem sagt var að evrópsk verklýðshreyfing hefði gert hróp að ESB. En eins og sjá mátti af textanum var það hárrétt. Forystumaður evrópskrar verklýðshreyfingarinnar hrópaði: Hingað og ekki lengra! Hann var augljóslega að gagnrýna ESB sem ber ábyrgð á heimskulegu regluverki sem aðildarríkin verða að sætta sig við hvort sem þeim líkar betur eða verr. Hvort þú kallar yfirlýsinguna hróp, árás eða gagnrýni eða eitthvað allt annað er síðan aukaatriði.

Og enn ertu mættur með aukaatriði! Þú vilt mótmæla því að nokkuð geti "hlaupið af stokkunum". Vinstrivaktin veit ekki, Ásmundur, hvort þú kallar þig málfræðing, en við verðum að hryggja þig með því að enn hefurðu rangt fyrir þér. Ef þú flettir upp í orðabók Menningarsjóðs, bls. 973 (útg. 1983) muntu sjá að hvort tveggja er sagt í íslensku máli: "að hleypa einhverju af stokkunum" eða "eitthvað hleypur af stokkunum"; orðtakið er að sjálfsögðu upphaflega komið úr skipasmíð landsmanna. 

En haltu samt endilega áfram að gera athugasemdir við pistlana okkar meðan þú hefur krafta til! Og aldrei að vita nema einn daginn finnirðu eitthvað hjá okkur sem betur mætti fara.

Vinstrivaktin gegn ESB, 4.12.2011 kl. 19:58

3 identicon

Google gefur upp 9 niðurstöður fyrir "hlaupa af stokkunum" en 51.800 niðurstöður fyrir "hleypa af stokkunum".

Það segir okkur að fyrir hvert skipti sem "hlaupa af stokkunum" er notað er "hleypa af stokkunum" notað hátt í sex þúsund sinnum.

Það hlýtur því að teljast mikil sérviska að nota þetta orðalag sérstaklega í þessu samhengi. Vefsíður hafa nefnilega ekki frjálsan vilja og hlaupa því ekki neitt.

Annars finnst mér Vinstrivaktin vera óþarflega viðkvæm fyrir gagnrýni sérstaklega þegar hún (gagnrýnin) hittir í mark.

Ásmundur Harðarsonah (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 21:49

4 identicon

"Hann var augljóslega að gagnrýna ESB sem ber ábyrgð á heimskulegu regluverki sem aðildarríkin verða að sætta sig við hvort sem þeim líkar betur eða verr. "

Bera aðildarríkin ekki ábyrgð á regluverki ESB?

Þetta var ég að spyrja um í gær. Hvaða hluta ESB er verið að gagnrýna. Svo hittið þið á vaktinni í mark í kvöld með þessari yfirlýsingu. ESB setur regluverk án íhlutunar aðildarríkja eða þá lýðræðislega kjörinna fulltrúa landanna hvort sem það er í heimaríkjunum sjálfum eða fulltrúanna á Evrópuþinginu.

Þurfa ekki allar aðildaþjóðirnar að samþykkja kommisarana?

Stefán (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband