Jóhanna hefur uppi tylliástæður til að losa sig við Jón Bjarnason
29.11.2011 | 12:22
Jóhanna þrýstir nú mjög á VG að skipta út Jóni Bjarnasyni fyrir einhvern sem sé leiðitamari í ESB-málinu og notar að yfirvarpi meintan ágreining um málsmeðferð kvótafrumvarpa. Sök Jóns er þó sú ein að reyna að sætta stríðandi fylkingar í stjórnarflokkunum en þar er hver höndin uppi á móti annarri í þessu máli.
Forysta Samfylkingarinnar hefur lengi rætt það í sinn hóp hvernig losna megi við Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni. Ástæðuna þekkja allir: hann er andvígur aðild að ESB, eins og raunar flestir sem starfa í atvinnugreinum sem heyra undir ráðuneyti Jóns, landbúnaði og sjávarútvegi, enda alþekkt að einmitt í þeim greinum yrði mestu fórnað við ESB-aðild.
Lengi var unnið að því að hrekja Jón út úr ríkisstjórninni í tengslum við endurskipulagningu stjórnarráðsins. En það mál hefur dregist á langinn og nú er þolinmæði Samfylkingarmanna gagnvart Jóni á þrotum og þeir hafa ákveðið að ráðast að honum með því að finna eitthvað það sem unnt væri að gagnrýna hann fyrir.
Og hvað dró Jóhanna og lið hennar upp úr skúffunni? Ákveðið var að klekkja á Jóni með því að vísa til vandræðagangs stjórnarflokkanna í kringum kvótamál sjávarútvegsins. Jóhanna réðist síðan hvað eftir annað opinberlega á Jón Bjarnason í fjölmiðlum, sem er afar fátítt að forsætisráðherra leyfi sér gagnvart ráðherrum sínum. Glæpur Jóns átti að vera fólgin í því að hafa birt á netinu ýmsa punkta starfshóps um hugsanlega lausn kvótamálsins.
Jafnframt var sterklega gefið í skyn að Jón hefði með þessum upplýsingum sett fram einhvers konar úrslitakosti. Og ríkissjónvarpið og Fréttablaðið tóku óspart þátt í þessu leikriti Samfylkingarinnar eins og vænta mátti. Þannig var sagt af þáttastjórnenda Kastljóss í gærkvöldi að Jón hefði varpað sprengju" þegar ráðherrann var einfaldlega að gefa hagsmunaaðilum og þjóðinni allri tækifæri til að kynna sér hvaða hugmyndir voru uppi um lausn málsins í starfshópi sem vann að málinu fyrir ráðuneytið.
Fyrirfram hefði mátt halda að fjölmiðlar, flokkar og þingmenn fögnuðu vinnubrögðum af þessu tagi enda eru þau tvímælalaust í góðu samræmi við nútímalegar hugmyndir um gegnsæja stjórnsýslu. En þess í stað er nú reynt að refsa Jóni fyrir þessa upplýsingagjöf með því að reka hann úr embætti! Er einhver sem ekki sér í gegnum þetta sjónarspil? Tylliástæðan er svo fáránleg og smávaxin að það getur enginn tekið mark á henni. Í henni felst það eitt af hálfu Samfylkingarmanna að koma höggi á pólitískan andstæðing og fá einhvern annan í hans stað sem gæti orðið leiðitamari í ESB-málinu.
Allir sem til þekkja vita að innan beggja stjórnarflokkanna eru mjög skiptar skoðanir um kvótamálin, og raunar á það við um alla flokka. En ágreiningurinn er ekki minnstur í Samfylkingunni. Ólína Þorvarðardóttir hefur allt aðrar skoðanir á þessum málum en t.d. Kristján Möller eða Róbert Marshall. Skoðanir þingmanna eru almennt mjög misjafnar, t.d. á fyrningu aflaheimilda og framsali, upphæð og ráðstöfun veiðigjalds, ráðstöfun veiðiheimilda til byggðakvóta o.s.frv.
Á s.l. vori lagði Jón Bjarnason fram tvö frumvörp í þinginu um þessi mál, annað viðamikið, hitt í einfaldari búningi. Þingið afgreiddi styttri útgáfuna en vildi ekki afgreiða stóra frumvarpið. Þegar frumvarpið kom úr nefnd skrifaði einungis einn þingmaður, formaður nefndarinnar, undir nefndarálit ríkisstjórnarflokkanna! Sennilega er þetta einsdæmi í þingsögunni. En ástæðan var einfaldlega sú að í meiri hlutanum reyndist engin raunveruleg samstaða um málið þótt frumvarpið væri afgreitt úr nefndinni.
Vandræðagangur stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum er hreint ekki Jóni Bjarnasyni að kenna. Þar er verið að hengja bakara fyrir smið. Og fráleitast af öllu er að halda því fram að þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki átt aðkomu að þessu máli undanfarin ár. Nefnd á nefnd ofan hefur fjallað um stefnumörkun í kvótamálinu og í þeim hafa starfað fjölmargir þingmenn stjórnarflokkanna.
Það er svo enn einn þátturinn í þessu dæmalausa leikriti Jóhönnu Sigurðardóttur að reynt er að láta líta út eins og sjávarútvegsmálin hafi verið tekin úr höndum Jóns Bjarnasonar og færð í hendur Guðbjarti Hannessyni og Katrínu Jakobsdóttur. Að sjálfsögðu er það bull og vitleysa og básúnað í fjölmiðlum til þess eins að reyna að niðurlægja sjávarútvegsráðherrann. Forsætisráðherrann hefur ekkert vald til að taka mál úr höndum fagráðherra og færa þau öðrum sem að sjálfsögðu geta engar ákvarðanir tekið um málaflokk sem ekki heyrir undir þá. Slíkt er heimskutal.
Hitt hefur ótal sinnum gerst að myndaðar hafi verið ráðherranefndir til að setja niður deilur milli ríkisstjórnarflokka um tiltekin mál. Þau Guðbjartur og Katrín hafa þegar fundað með Jóni og er ekkert nema gott um það að segja. Í fáum málum er meiri þörf á að ráðherrarnir beri saman bækur sínar en einmitt í kvótamálinu. Það gera þeir vafalaust í bróðerni, enda er þar ágætisfólk á ferð, og lætur gífuryrði Jóhönnu og félaga hennar sem vind um eyru þjóta.
Ragnar Arnalds
Athugasemdir
Það er orðið með ólíkindum hvernig þessi manneskja hagar sér. En mér finnst líka ljótt að sjá hvernig Steingrímur spilar með í að niðurlæjga ráðherrann í stað þess að bakka hann upp. Er hann virkilega tilbúin til að fjarlægja eina manninn í ríkisstjórninni sem virkilega stendur og fellur með sínum kosningaloforðum?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2011 kl. 14:06
Heiðarleg vinnubrögð Jóns, hindra leið hetjuparsins á ,meintan, stjörnumprýddan blátoppinn. Það verða fleiri hindranir,því get ég lofað.
Helga Kristjánsdóttir, 29.11.2011 kl. 18:58
Framganga fjölmiðla í þessu máli er ekkert annað en sorgleg. Nóg reyndist af gapinmynntum blaðasnápum í aðdraganda hrunsins, sem sleiktu nánast rassinn á aðlinum, sem setti hér allt til fjandans. Sleikjiþörfin virðist engu minni eftir hrun. Það eina sem hefur breyst á flestum miðlum er einungis það, að nú er sleikt úr öðrum skorum. Tilgangur árása Jóhönnu á Jón Bjarnason, er svo augljós, að jafnvel Jóhönnu eða öðru SF fólki tekst ekki að klóra yfir það með neinu móti. Trúverðuleiki fyrirfinnst ekki, hvorki hjá fjölmiðlum og enn síður hjá stjórnvöldum. Þó ég sé ekki sammála öllu sem frá Jóni BJarnasyni kemur, virði ég hann mikils fyrir að standa fastur á sínu.
Halldór Egill Guðnason, 29.11.2011 kl. 20:32
Jón Bjarnason er ömurlegasti stjórnmálamaður seinni ára á Íslandi. Að við skulum sitja uppi með ráðherra sem styður ekki ríkisstjórnina nema hann fái að sitja í henni sjálfur er með endemum. Hafa stjórnmálamenn einkarétt á að beita aðra kúgunum án þess að þurfa að svara til saka.? Þvílík siðblinda!
Þar að auki telur Jón sig ekki þurfa að fylgja stefnumálum ríkistjórnarinnar sem hann þó samþykkti. Ef hann hefði ekki samþykkt stefnuna væri hann ekki ráðherra. Það er lágmarkskrafkrafa að allir ráherrar sinni skyldu sinni og vinni af heilindum að stefnumálum ríkisstjórnarinnar
Eitt helsta verkefnið sem Jóni var falið var þátttaka í ESB-umsóknarferlinu. Þessa skyldu sína hefur hann vanrækt blygðunarlaust. Maður sem fer svo létt með að ganga á bak orða sinna og misnota vald sitt á ekkert erindi á þing hvað þá ríkisstjórn.
Í einu mikilvægasta hagsmunamáli Íslendinga heldur Jón þingmönnum eigin flokks óupplýstum. Þeir hafa ekki hugmynd um að hann er að vinna að málinu með stjórnarandstæðingum og málefnalega þvert á markmið ríkisstjórnarinnar. Hann birtir svo niðurstöðuna á netinu án sanmráðs við rikisstjórnina eða þingmenn stjórnarflokkanna. Þvílíkur loddari!
Það er eitthvað mikið að í íslenskri pólitík ef Jón Bjarnason heldur áfram sem ráðherra eftir öll sín afglöp. Í raun ætti hann fyrir löngu að vera farinn frá með skömm. Jón er andstæðingur ESB-aðildar Íslands. En hann samþykkti ásamt öðrum úr VG að þjóðin ætti að fá að kjósa um aðild.
Ég er ekki að gagnrýna afturhald, þröngsýni, útúrboruhátt og útlendingafóbíu Jóns. Það væri persónuleg árás. Hann má hafa þessar skoðanir enda eru þær trúlega ósjálfráðar. En hann getur ekki verið í ríkisstjórn og unnið þar gegn stefnumálum hennar. Burt með Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni og það strax.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 29.11.2011 kl. 21:19
"Að við skulum sitja uppi með ráðherra sem styður ekki ríkisstjórnina nema hann fái að sitja í henni sjálfur er með endemum. Hafa stjórnmálamenn einkarétt á að beita aðra kúgunum án þess að þurfa að svara til saka.? Þvílík siðblinda!"
Þú hittir naglann eins vel á höfuðið og kostur er Ásmundur. Orðsnilld þín felst þó aðallega í því, að með þessum orðum lýsir þú á óaðfinnanlegan hátt forystumönnum þessarar ríkisstjórnar. Ef þetta er ekki að fara 360 gráður í örstuttum pistli, þá veit ég ekki hvað.
Halldór Egill Guðnason, 29.11.2011 kl. 22:06
Jón Bjarnason lýsti opinberlega yfir andstöðu sinni við ESB-aðild um leið og hann tók við ráðherraembætti. Hann greiddi síðan atkvæði gegn aðildarumsókninni ásamt fjórum öðrum þingmönnum VG. Allt er þetta skjalfest. Hann hefur hvorki gengið á bak orða sinna né misnotað vald sitt. Hann lýsti líka yfir andstöðu við ESB-aðild fyrir kosningar, fékk frábæra kosningu meðal annars út á þá stefnu - og hefur staðið við orð sín.
Þessar staðreyndir sýna svart á hvítu hvað lítið er að marka málflutning Ásmundar Harðarsonar sem heldur hinu gagnstæða fram hér að ofan í athugasemdum. Hvort stafar það af fáfræði eða ósvífni?
Vinstrivaktin gegn ESB, 29.11.2011 kl. 23:43
Hvílíkt varð ég hissa að lesa lýsingar Ásmundar á Jóni Bjarnasyni. Hann lýsti Jóni nákvæmlega eins og hann væri að skrifa um Jóhönnu og nánast allan auman flokk hennar. Og Steingrím og hans vinnumenn.
Jón Bjarnason VILDI akkúrat að við fengjum að kjósa um hvort sótt yrði um í helsið hans Ásmundar og Jóhönnu. Jóhanna og co. FELLDU það. Ekki Jón. Jón sagði alltaf að hann væri andvígur umsókninni og stóð alltaf gegn þessu rugli.
Verði Jóni vikið með lygasögum, mun stjórnin falla. Það verður ekki líft lengur fyrir Jóhönnu og Steingrím og nógu er það slæmt nú.
Elle_, 30.11.2011 kl. 01:10
Áttu erfitt með lesskilninginn? Ég gagnrýni Jón ekki fyrir að vera á móti ESB enda eru flest Vinstri græn það.
Vinstri græn samþykktu hins vegar að sækja um ESB-aðild til að gefa þjóðinni kost á að kjósa um aðild.
ESB-umsókn var svo eitt aðalatriðið í málaefnasamningum á milli Samfylkingar og Vinstri grænna. Stjórnin hefði alfrei verið mynduð án þessa ákvæðis.
Sem ráðherra ber Jóni skilyrðislaust að framfylgja málefnasamningum. Skárra væri það, hann sem er með mikilvægustu málin á sinni könnu.
Hann hefur hins vegar blyðgðunarlaust reynt að vinna gegn ESB-aðild, tefja ferlið ef ekki hreinlega stoppa það.
Eru Vinstri græn almennt á svo siðferðilega lágu plani að þeim þykir það í góðu lagi að gera samninga til að komast í rikisstjórn til þess eins að fara svo ekki eftir þeim?
Mér sýnist reyndar að meirihluti þingmanna Vg vilji ekki stunda svik af þessu tagi en þeir eru ótrúlega margir sem finnst það ekki bara sjálfsagt heldur hrósa sér af því.
Af ofangreindu er ljóst að Jóni Bjarnasyni ber tafarlaust að víkja enda þekkjast ekki svona vinnubrögð í öðrum löndum eftir því sem fróðir menn halda fram.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 01:11
Jón Bjarnason stóð ekki gegn tillögunni um að þjóðin skyldi ráða þessari fáránlegu vitleysu. Það var Jóhanna og co. og nokkrir aðrir úr VG.
Elle_, 30.11.2011 kl. 01:23
Nú krefst ég þess einu sinni enn að ´fá að kjósa´ um hvort við göngum í Bandaríkin, Færeyjar, Kanada, Nýja-Sjáland eða Rússland. Þið Evrópulið standið ekki gegn þessari lýðræðislegu kröfu minni sem ríkisborgari. Þið fenguð ykkar rugl í gegn nógu lengi og nú er komið að okkar vilja.
Elle_, 30.11.2011 kl. 01:28
Elle, eins og ég hef sagt áður þá er lesskilningur þinn ekki upp á marga fiska.
Ertu að halda því fram að ráðherra þurfi ekki að fylga málefnasamningi ríkisstjórnarinnar? Jafnvel ekki einu sinni þeim ákvæðum sem heyra undir ráðuneyti hans? Til hvers er málefnasamningurinn ef ekki þarf að fara eftir honum?
ESB-alildarumsókn er í málefnsamningi ríkisstjórnarinnar. Ef Jón vill ekki sinna því verkefni er honum nauðugur sá kostur að víkja.
Skv málefnaamningum er ekki gert ráð fyrir að það sé kosið um hvort hefja eigi aðildarviðræður.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 01:33
Ásmundur, heldurðu að þú sért fær um og hæfur að dæma okkar lesskilning? Dæma Jón Bjarnason? Nei. Hæfur um einu sinni að ræða Jóhönnuflokkinn og fáráðsumsóknina? Nei.
Þú ert farinn að skálda upp sögur um Jón Bjarnason sem aldrei hefur vikið gegn vitleysunni og segir hann standa í veginum. Þú ert farinn að sverta Jón Magnússon líka.
Þú notar rök eins og ´hann var talinn´ og ´það hefur verið sagt´ sem hefur ekki nokkra þýðingu. Þú snýrð hlutum á hvolf.
Elle_, 30.11.2011 kl. 01:47
Elle, það má vera að lesskilningur þinn sé skárri en hann lítur út fyrir að vera.
Það getur verið að þú sért aðeins af ásettu ráði að svara út í hött til að drepa málum á dreif. Ég hef ekki haft í frammi neinar lygasögur um Jón Bjarnason. Þú svarar heldur ekki neinum spurningum.
Ég endurtek því: Ertu að halda fram að ráðherra þurfi ekki að fylga málefnasamningi ríkisstjórnarinnar, jafnvel ekki þeim ákvæðum sem heyra undir ráðuneyti hans?
Til hvers er málefnasamningur ef einstökum ráðherrum er frjálst að virða að vettugi þau ákvæði sem heyra undir þá ? Hverju svararðu að hvergi í hinum vestræna heimi kemst ráðherra upp með slík vinnubrögð.
Haltu þig nú við efnið.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 08:25
Sammála þér Elli þetta mætti vera reiðilestur um Jóhönnu leyndarráðherra, sem gerir allt í laumi. Svo yfir sést þessum hælbítum að þetta var ekki frumvarp sem Jón setti fram heldur vel unnin tillaga af skipuðu ráði utan þingsins. Hann var að vinna vinnuna sína, það má auðvita deila um þessa tillögu, en hún er ekki fullbúið frumvarp eins og áður sagði heldur tillögur. Ég held að það verði allt vitlaust ef Jón verður látinn fara á þessum fölsku forsendum, bæði heyrist mér að grasrótin í flokknum sé æf, og ætl Steingrímur og hans geltitrín standi nú ekki berrössuð á þeim vettvangi? Svo er hinum almenna borgara landsins þar á meðal mér algjörlega ofboðið yfir þessum einræðistilræðum Jóhönnu, það er orðið svo megn stækjan á stjórnarheimilinu að ég held að það verði haldinn þjóðhátíð þegar hún loks hrökklast frá völdum ásamt sínu að mestu ömurlega liði.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.11.2011 kl. 10:15
Ásmundur, hvergi í hinum vestræna heim kæmust Jóhanna og Steingrímur og nokkrir meðhlauparar upp með slíka klæki og lygar í stjórnmálum.
Jón Bjarnason kemur beint fram eins og hann er klæddur hinsvegar, en þú skrifar eins og þú ruglir honum saman við þau.
Og hvað sem Jóhönnu-Steingríms-sáttmálanum líður og sem þú endalaust vísar í er Jóni skylt að fara eftir sinni sannfæringu. Ekki þeirra og ekki þinnar. Haltu þig nú sjálfur við efnið. Þau 2 þarna eru búin í stjórnmálum.
Elle_, 30.11.2011 kl. 19:03
Svo sannarlega Elle þau tvö eru svo sannarlega gjörsamlega búin að vera, hversu lengi sem þeim tekst að hanga á völdunum breytir engu um það.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.11.2011 kl. 19:14
Elle, það er rétt að Jón á að fara eftir eigin sannfæringu. Sem ráðherra á hann hins vegar að fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar.
Ef Jón getur ekki samræmt eigin sannfæringu við stefnu ríkissijórnarinnar hefur hann ekkert annað val en að segja af sér. Hann hefði reyndar aldrei átt að verða ráðherra.
Annars gef ég lítið fyrir sannfæringu Jóns Bjarnasonar. Hann fór fyrst í framboð fyrir Vinstri græna 1999 nokkrum dögum eftir að hann beið ósigur í prófkjöri Samfylkingarinnar.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.