Það sem koma skal? ESB tilnefnir forsætisráðherra Grikkja og Ítala
13.11.2011 | 08:45
Það er engin tilviljun að nýir forsætisráðherrar Grikkja og Ítala koma báðir úr innsta hring æðstu embættismanna ESB. Báðir eru þeir eins konar uppeldissynir ESB- forystunnar sem þrýsti ákaft á það leynt og ljóst að Brusselþjálfaðir menn tækju við leiðtogastörfum í báðum þessum ríkjum sem nú eru að kollsigla sig með evrunni, rétt eins og Írland, Portúgal og Spánn.
Ferill Papandreous á valdastóli var á enda um leið og hann stakk upp á því að gríska þjóðin fengi sjálf að ákveða örlög sín í þjóðaratkvæði um aðgerðir til bjargar Grikkjum. Þeir sleppa því ekki úr skuldafangelsi evrunnar í bráð þótt vafalaust hefði það verið skásta leiðin fyrir þá. Forystan í ESB sameinaðist um að hundskamma Papandreou sem þorði ekki annað en að hætta við þjóðaratkvæði.
Áfram dundu fyrirmælin frá ESB: Ekkert múður lengur! Lucas Papademos sem til skamms tíma gegndi embætti varaforseta Seðlabanka ESB (ECB) var tilnefndur til forystu í Grikklandi, maður sem sækir ekki umboð sitt til landa sinna enda aldrei verið kosinn til nokkurrar pólitískrar forystu þar í landi. En nú á þessi maður að tryggja að vilji ESB nái fram að ganga eins fljótt og auðið er.
Að sjálfsögðu geta menn samfagnað Ítölum að losna loks við vandræðagepilinn Berlusconi. En hrokinn í seðlabankastjóra ESB þegar hann fyrirskipaði Ítölum fyrir viku síðan hvað gera skyldi, fór fyrir brjóstið á mörgum, jafnt á Ítalíu sem utan hennar. Og nú er það sama að gerast á Ítalíu eins og í Grikklandi. Mario Monti sem tvívegis var kommissar í framkvæmdastjórn ESB á árunum 1995 til 2004 og fór með yfirstjórn markaðs- og samkeppnismála er hinn útvaldi til að stjórna Ítalíu og verður líklega settur í embætti þegar í komandi viku.
Þetta sýnir enn og aftur að aðildarríki ESB eru markvisst að þróast, að vísu í mörgum smáum og stórum skrefum en jafnt og þétt og með ótrúlegum hraða, í átt til þess að verða valdalítil fylki í risastóru sambandsríki þar sem þau verða að beygja sig undir vald og vilja alríkisstjórnarinnar í Brussel í hvert sinn sem kommisörunum þar á bæ þykir ástæða til íhlutunar.
ESB hefur nú eignast forseta og forsætisráðherra (sem nefndur er formaður framkvæmdastjórnar) svo og utanríkisráðherra og það hefur nú drottnunarvald yfir aðildarríkjunum í krafti löggjafarvalds og dómsvalds, skartar jafnvel eigin fána og eigin þjóðsöng. Kannski verður það einmitt regla fremur en undantekning í þessu verðandi stórríki Evrópu að framkvæmdastjórn ESB tilnefni forsætisráðherra aðildarríkjanna en þjóðþingin staðfesti tilnefninguna með mismikilli ánægju. Einkar lýðræðislegt, ekki satt?
Ákafir ESB-sinnar á Íslandi eru í mikilli afneitun þessa dagana tala um það í tíma og ótíma að málið snúist alls ekki um evruna. Merkel og Sarkozy áttu einmitt fund í gær þar sem þau ræddu þróunina á evrusvæðinu og segir í opinberri fréttatilkynningu frá þeim að leiðtogarnir hafi ítrekað þá afstöðu sína að verja evruna. Auðvitað snýst þetta mál fyrst og fremst um vandræðagripinn, evruna. - RA
Mikilvægt að Grikkir hafi hraðar hendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kæri Ragnar
Kærar þakkir yfir yfirgripsmikið og innihaldsríkt blogg.
Þú gerir ráð fyrir að Papandreou hafi hrökklast frá völdum, en mér datt í hug að e.t.v. hafi maðurinn sýnt af sér pólitíska snilli en fórnað sjálfum sér um leið. Forsenda þessarar skoðunar er auðvitað sú að "björgunarpakki" ESB til handa Grikkjum hafi verið það besta í stöðunni að mati hans og stjórnarandstöðuleiðtoganna, sem við getum kallað Sigmund og Bjarna til hægðarauka. Sigmundur og Bjarni börðust auðvitað gegn björgunarpakkanum. Ekki af því að að þeir væru á móti honum heldur vegna þess að þeir fiskuðu í gruggugu vatni eins og hægri sinnuð stjórnarandstaða gerir alltaf. Þjóðaratkvæðagreiðslan var síðasta ráð Papandreous til að fá stjórnarandstöðuna til að samþykkja pakkann. Það tókst! Er þetta ekki líklegri skýring en heimska og fleiri slík hugtök sem ég hef séð notuð um hann? Það er svo annað mál að það er ekki víst að björgunarpakkinn sé besti kosturinn í stöðunni fyrir gríska alþýðu þótt hann sé örugglega skásti kosturinn fyrir grískt auðvald og þýska og franska banka.
Kveðja, Guðvarður
Guðvarður Már Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 12:48
Þetta er það sem koma skal. Fagmenn í ríkisstjórnir til að stýra fjármálum þjóða. Það kann ekki góðri lukku að stýra að jarðfræðingar sjái um fjármál þjóðarinnar, ekki frekar en dýralæknar. Það hlýtur að koma að því að kjósendu sjái hvað það er galið að setha fjárlög í hendur ófaglærðs einstaklings sem ber enga ábyrgð á starfi sínu hvort eð er.
Það er með ólíkindum hvað þið eruð natnir við að mála skrattan á vegginn þegar kemur að skynsamlegri umsókn um fulla aðild að ESB í stað EES samningsins sem er í raun ESB aðild með takmörkuðum aðgangi að ákvörðunartökunni í Brussel.
Það er vissar staðreyndir um svona neikvæðan áróður. Hann heldur ekki til lengdar vegna þess að Íslendingar eru skynsöm þjóð og vill ekki hlusta til lengdar á neikvæða umfjöllun. Látum þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina skera úr um hvort við göngum inn í ESB, ekki "Vinstri vaktina gegn ESB".
Guðlaugur Hermannsson, 13.11.2011 kl. 13:35
uðvarður! Þetta er hárrétt hjá þér. Papandreou var kominn upp að vegg með málið. Það stóðu á honum spjótin úr öllum áttum. ESB-forystan hatar ekkert eins mikið og þjóðaratkvæði. Þess vegna endaði þetta svona. - RA
Guðlaugur! Það virðist hafa farið fram hjá þér að það er grundvallarmunur á EES-aðild og ESB-aðild, bæði að eðli og umfangi. EES-aðild nær ekki til fjölmargra mikilvægustu þátta ESB-aðildar, m.a. ekki til landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, samningsfrelsi, t.d. hvað varðar verslunar- og fiskveiðisamninga og stefnumótun í utanríkismálum. EES nær fyrst og fremst yfir innri markaðinn og samkeppnismál. Annar meginmunur er að samkvæmt EES samningnum öðluðust EFTA-ríkin neitunarvald. Beinu neitunarvaldi hefur aldrei verið beitt en við höfum aftur á móti iðulega sett fyrirvara og áskilið okkur að standa ekki að lagasetningu sem við höfum talið að ætti ekki við hér á landi. Ótalmargt annað mætti nefna. - RA
Vinstrivaktin gegn ESB, 13.11.2011 kl. 14:03
Hér er skrif mín um ESB aðildarumsóknina:
Kröfur um að nauðsynlegt sé að hætta við umsókn um inngöngu í ESB eru ólýðræðislegar og bein valdníðsla minnihluta kjósenda. Það er oft talað um að þetta séu ekki umsóknarferill sem við erum í heldur aðlögunarferill. Staðreyndin er í raun sú að við höfum verið í aðlögunarferli síðan við gengum inn í EES 1993.
Það er ekkert að ESB í dag sem ætti að létja okkur í umsóknarferlinu. Það er ekkert að ESB sem bandalag í sjálfu sér heldur er vandamálið í einstökum aðildarríkjum vegna slæglegrar efnahagstjórnunnar þeirra sjálfra. Þetta ástand leiðir til útgjaldaaukningu fyrir þau ríki sem hafa staðið sig betur efnahagslega.
Þegar við göngum í ESB með hagstæðan samning þá mun það verða til þess að treysta okkur í sessi og gera okkur kleyft að halda sjálfstæði okkar óskertu til langs tíma. Það mun leiða til stöðugra verðlags, lægri vexti, lægra matarverð og ekki síst lægri vexti á húsnæðislánum.
Hvað varðar fiskveiðistefnuna þá verður Ísland með sjálfstæðan sjávarútveg (ótengndum þeim Evrópska) með staðbundna stofna svo sem þorsk, ýsu, karfa, ufsa og annara staðbundna bolfiskstofna. Flökkustofnar svo sem loðna, síld, kolmuni og makríll verða áfram sameiginlegir stofnar Noregs, Færeyjar og ESB. Um þessa stofna verður áfram samið um veiðikvóta hvers og eins ríkis og þar með talinn ríki ESB sem eiga veiðiréttindi á þessum stofnum. Það gæti farið svo að við fengjum meiri kvóta í þessum stofnum með inngöngu í ESB vegna veiðireynslu okkar.
Það verður líklegast engin breyting á sjávarútvegi okkar frá því sem nú er innan EES.
Ástæðan fyrir því að ESB er með sameiginlega fiskveiðistefnu er vegna þess að öll ríki innan ESB eru með sameiginlega stofna í hafsvæðinu í kring um Evrópu. Norðmenn eru líka í þessari stöðu þó þeir séu utan ESB. Þeir verða að semja við ESB um bolfiskveiðistofna í Norðursjó. ESB veiðiflotinn fær að veiða innan lögsögu Noregs vegna sameignar á stofnunum. Þetta getur ekki komið fyrir í okkar samningum við ESB vegna þeirrar staðreyndar að við erum ekki í sameignarbúskap við ESB á staðbundnum fiskistofnunum.
Allt tal um að við munum missa yfirráð yfir staðbundnum fiskistofnum yfir til ESB er eins fáránlegt og að Bretar missi yfirráð sín yfir olíulindum sínum innan lögsögu þeirra, yfir til ESB sem síðan deildi út olíukvóta til hinna ríkjanna innan ESB.
Ég skora á samninganefndina að krefjast þess að yfirráð Íslendinga á staðbundnum stofnum í kringum landið verði áfram í höndum okkar óskipt. Þetta er grundvallaratriði í samningaviðræðunum og er allt annað valdníðsla af hálfu ESB ef þeir krefjast þess í samningaviðræðunum.
Varðandi landakaup erlendra aðila þá er hægt að setja fyrirvara í lög sem heimila erlendum aðilum að fjárfesta í hýbýlisfasteignum og jörðum með búsetuskilyrði. Þetta viðgengst í Danmörk og er samþykkt af ESB.
Að lokum þá er það eitt sem stendur upp úr í þessu öllu saman að við verðum gildir þáttakendur í stjórnun á ESB regluverkinu. Við getum komið okkar málum að í samvinnu við stjórnmálaflokka annara landa og til að mynda byggt upp öflugt samstarf með norðurlöndunum. Smæð norðurlanda verður ekki hindrun með samvinnu þeirra allra í þágu svæðisins sem við búum á.
Guðlaugur Hermannsson, 13.11.2011 kl. 14:27
"Þetta er það sem koma skal. Fagmenn í ríkisstjórnir til að stýra fjármálum þjóða. Það kann ekki góðri lukku að stýra að jarðfræðingar sjái um fjármál þjóðarinnar, ekki frekar en dýralæknar. Það hlýtur að koma að því að kjósendu sjái hvað það er galið að setha fjárlög í hendur ófaglærðs einstaklings sem ber enga ábyrgð á starfi sínu hvort eð er."
Er utanríkisráðherran ekki fiskifræðingur?
Rétthugsun (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 16:18
Guðlaugur Hermannsson vill leggja niður okkar vestræna lýðræði í núverandi mynd og fela það svokölluðum sérfræðingum og sérfræðingaráðum skipuðum af Ráðstjórninni í Brussel.
Semsagt leggja niður hefðbundið lýðræði og banna það að fólkið geti haft val og vald til þess að velja sér fulltrúa til þess að framfylgja óskum þess og vilja.
Þetta eru einmitt æðstu óskir ESB Ráðstjórnarinnar í Brussel að þeir einir hafi öll æðstu ráð og líf fólksins í sínum höndum.
Reyndar var slík tilraun reynd af annarri Ráðstjórn, einmitt með sérstökum sérfræðingaráðum og sérfræðinganefndum og meira að segja, Æðstu ráðum til að hafa vit fyrir og segja til um hvað væri óbreyttum "pöplinum" fyrir bestu. Þessi ráð voru reynd í 70 ár í Sovéttinu og endaði með hinum verstu hörmungum, heils samfélags.
Ef ESB Ráðstjórnin myndi geta hér á Íslandi með kúgunum og valdboði sinn ESB- sinnaðan forsætisráðherra eins og nú hefur gerst í nokkrum Evru landanna og virðist vera að verða þar viðtekin venja þá myndu þeir sjálfsagt skipa ESB dindilinn Eirík Bergmann og helstu aðstoðarmenn hans yrðu hinir alræmdu ESB- aftaníossar og mannvitsbrekkur þeir kumpánar, Jón Frímann Jónsson og Steini Briem.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 18:46
Það held ég að best væri að koma sér til fjarskanistan ef þessar manvitsbrekkur fá einhverju að ráða hér. Eiríkur Bergmann, Jón Frímann, og Steini Briem... Þá færi landið endanlega í drullusvað ruslahauga þjóðanna ef þeir fá einhverju ráðið...
Sem betur fer erum við flest með vit í kollinum sem kemur í veg fyrir svona martraðir ekki satt???
Með kveðju og von um áframhaldandi fullveldi Íslands
Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 14.11.2011 kl. 00:47
Ef vel á að vera "Rétthugsun" þá er það framtíðin að Alþingismenn/konur sinni sínum verkefnum sem eru að setja lög og reka þjóðfélag á pólitískan hátt.
Það er verk þingmanna að skipa ríkisstjórn og setja henni verkefnaskrá samkvæmt pólitískum stefnumálum. Það er síðan ráðherranna að reka framkvæmdarvaldið með faglegri þekkingu og fullri ábyrgð á verkefninu. Þetta er lýðræði í allri siini dýrð.
Gunnlaugur: Þú gleymdir að setja Amen í lok predikunarinnar.
ÓLAFUR: þú ert einsdæmi í mannvitsbrekkunni. Þú málar skrattann á vegginn. Það hefur verið reynt í meira en öld án árangurs. Fólk er hætt að taka mark á neikvæðum einstaklingum sem ekkert sjá nema dauðann og djöfullinn í allri sinni mynd. Farðu að lesa raunbókmenntir sem snúa að ruanveruleikanum um ESB en ekki kommunistiskan hræðsluáróður.
Guðlaugur Hermannsson, 14.11.2011 kl. 14:23
Já Guðlaugur Hermannsson, ég hef nú þegar stundað ýmislegt er snýr að raunbókmenntum. Allar þær bókmenntir hafa kennt mér eitt, þú átt kollgátuna þar. Jú að hugsa jákvætt, ég hugsa jákvætt og þar sé ég jákvæða góða tíma þar sem menn hætta öllu landráðarausi um að troða okkur nauðugum inní eitthvað bandalag sem er að hruni komið.
Það er mín jákvæða hugsun...
Hvað kommunískur hræðsluáróður varðar þá er kanski best að vísa því til föðurhúsanna (ESB-sinna). Bara svo ég verði ekki þunglyndur og óendanlega svartsýnn þá er kanski best að hafa þetta ekki lengra.
Með kveðju og von um áframhaldandi fullvalda Ísland.
kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 14.11.2011 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.