Evru-daður á Íslandi vekur furðu erlendra hagfræðinga
27.10.2011 | 15:26
Hafið þið ekkert fylgst með því sem er að gerast? Þessari beinskeyttu spurningu beindi Martin Wolf, að íslenskum ESB-aðildarsinnum á umræðufundi Íslandsbanka, s.l. miðvikudagskvöld, sbr. frétt mbl.is 26.10 kl. 21:41. Wolf er aðalhagfræðingur Financial Times í Bretlandi og af mörgum talinn áhrifamesti blaðamaður heims á sviði efnahagsmála.
Martin Wolf sagðist ekki sjá neitt að því að Íslendingar héldu fast í krónuna, ,,minnsta gjaldmiðil í heimi". Hún hafi reynst þeim ágætlega. Hann sagðist heldur ekki sjá kostina fyrir Íslendinga við aðild að Evrópusambandinu, þar myndu þeir ekki hafa nein áhrif og gætu þurft að afsala sér stjórn á mikilvægum auðlindum. ,,Ég verð að spyrja ykkur sem viljið þetta, hafið þið ekkert fylgst með því sem er að gerast núna í sambandinu?" spurði hann og uppskar hlátur.
Martin Wolf sagði menn ekki mega gleyma því að ef þeir tækju upp annan gjaldeyri yrðu þeir að hlíta því að gengið sveiflaðist ekki endilega eins og þeim hentaði. Samfélagið yrði að hafa geysimikinn sveigjanleika til að bera, þegar að kreppti heima fyrir.
Þessa dagana eru nokkrir heimskunnir hagfræðingar samankomnir á Ísland í tilefni af ráðstefnu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hörpu í dag. Auk Martins Wolf hefur heimsókn Paul Krugmans, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, vakið sérstaka athygli.
Um það bil sem Krugman lagði af stað til Íslands benti hann á í föstum dálki sínum í bandaríska blaðinu New York Times að Íslendingar virtust hafa komið furðuvel út úr bankahruninu og stæðu betur en margar þeirra þjóða sem urðu verst úti í hruninu. Aðalástæðan væri sú, að Íslendingar hefðu neitað að axla ábyrgð á þeim skuldum, sem bankamenn hlóðu upp. Einnig hefði gengi íslensku krónunnar lækkað mikið og þannig hefðu Íslendingar fengið forskot á þær þjóðir sem annaðhvort voru með evru eða tengdu gjaldmiðla sína við þá mynt. (Frétt mbl.is 22.10 kl. 18:05.)
Á fundinum í Hörpu í dag furðaði Krugman sig á fullyrðingu margra Íslendinga um að íslenska hagkerfið byggi yfir nægjanlegum sveigjanleika til þess að yfirstíga erfið efnahagsáföll án þess að gengi gjaldmiðilsins lækki. Það er að segja að hagkerfið hefði getað komist út úr bankahruninu 2008 með annaðhvort fastgengisstefnu eða með aðild að myntbandalagi en það hefði þýtt að endurreisn samkeppnishæfni útflutningsiðnaðarins hefði komið til eingöngu með lækkun launa og annars innlends framleiðslukostnaðar." (Frétt mbl.is í dag.)
Segja má að málflutningur Gylfa Arnbjörnssonar í ASÍ hafi skorið sig nokkuð úr í umræðum á ráðstefnunni. Allt hans tal snerist um nauðsyn þess að ganga í ESB og taka upp evru og komst fátt annað að í ræðu hans. Hann talaði stöðugt um við" og okkur" og átti þá við skoðanir þeirra tugþúsunda sem heyra undir Alþýðusambandið. En sé mið tekið af skoðanakönnunum má telja víst að meirihluti fólks í ASÍ-félögum telji hagsmunum Íslendinga betur borgið utan ESB, líkt og gildir bersýnilega um meiri hluti þjóðarinnar skv. könnunum.
Jón Daníelsson hagfræðingur taldi að ekki kæmi annar gjaldmiðill til greina en evra ef Íslendingar hættu við krónuna. Hins vegar sagði hann það algerlega ótímabært fyrir Íslendinga að taka nokkra ákvörðun í þá átt eins og sakir stæðu. Hyggilegra væri að bíða í nokkur ár og sjá hver þróunin yrði á evrusvæðinu.
Martin Wolf stjórnaði síðustu umræðulotunni og lokaorð hans voru að biðja Íslendinga að hugsa sig vel um áður en þeir tækju upp evru. Hann bætti við:
"If you join the euro, you join Germany!"
.Ekki tímabært að losa höftin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það hefur verið vitað lengi að Gylfi Arnbjörnsson yfirjólasveinn ASÍ Elítunnar á Íslandi talar ekki í umboði meirihluta íslenskrar alþýðu þegar hann, við hvert einasta tækifærii sem býðst, hefur uppi sönginn um dýrðir og listisemdir ESB og Evrunnar !
Þetta ESB og EVRU trúboð hans þarna í Hörpunni hefur beinlínis verið hlægilegt !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.