Stækkunarstjóri ESB vongóður: Stóra trompið er enn eftir!
17.10.2011 | 16:27
Andstaða mikils meiri hluta Íslendinga við ESB-aðild veldur áhyggjum meðal æðstu valdamanna ESB sem velta því fyrir sér hvort verið sé að draga þá á asnaeyrunum. En eins og sjá má á ummælum stækkunarstjórans 14. okt. s.l. treystir hann á að stóra trompið sem ESB ræður yfir muni duga á Íslendinga eins og margar aðrar þjóðir: áróðursherferð er í undirbúningi með gríðarlegum fjáraustri sem á að duga til að heilaþvo landsmenn og gerbreyta viðhorfum þeirra til ESB-aðildar.
Fram hefur komið að auk stofnunar og reksturs upplýsingaskrifstofu, hyggst Evrópusambandið verja 213 milljón krónum til auglýsinga í viðbót við óþekktan fjölda kynningaferða fyrir áhrifafólk til Brussel í þeim yfirlýsta tilgangi að eyða bæði ranghugmyndum og ótta í garð sambandsins".
Í grein sem Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB ritaði í Morgunblaðið í seinustu viku segir hann m.a: ,,Stuðningur almennings við inngöngu í ESB er frumskilyrði. Ég fagna því aðgerðum ríkisstjórnar Íslands og Alþingis til að fræða fólk um Evrópusambandið og samningaferlið. Ég vona að með því megi eyða bæði ranghugmyndum og ótta í garð sambandsins. Upplýsingaskrifstofa ESB á Íslandi, sem opnuð verður í Reykjavík innan nokkurra vikna, mun einnig taka þátt í því starfi."
Í nýlegri ályktun framkvæmdastjórnar Heimssýnar er athygli vakin á því að lýðræði og sjálfstæði þjóðarinnar geti verið í hættu fái erlend stjórnvöld að reka hér pólitískan áróður eða kynningarstarfsemi. Þar segir:
Heimssýn vill benda á að þessar aðgerðir Evrópusambandsins eru augljós stuðningur við stefnu Samfylkingarinnar sem einn flokka hefur það á stefnuskránni að Ísland gangi í Evrópusambandið.
Þá vekur stjórnin athygli á lögum nr. 62 frá 1978 um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og útgáfu erlendra sendiráða á Íslandi. Markmið þeirra laga er einmitt að koma í veg fyrir óæskilega íhlutun erlendra aðila í íslenskri stjórnmálaumræðu.
Framkvæmdastjórn Heimssýnar hvetur Alþingi Íslendinga að taka til varna fyrir lýðræðið í landinu og koma í veg fyrir að erlent stjórnvald hafi áhrif á stjórnmálaumræðu í aðdraganda þjóðaratkvæðis um Evrópusambandsaðild."
Athugasemdir
Er þetta ekki tilraun til atkvæðakaupa?
Samkvæmt stjórnarskrá landsins er ekki heimilt að framselja fullveldið í einu eða neinu formi til erlendrar stofnunnar né landa. Um það snýst málið fyrst og fremst að mínu mati.
Tókst stjórnlagaráði að ryðja þeirri "hindrun" úr vegi? Ég hélt ekki. Stendur til að breyta þessu stjórarskrárákvæði með valdi?
Þetta er bein íhlutun um innanríkismál, sem er næsti bær við innrás.
Bíð þó spenntur eftir að sjá loforðin og múturnar. Hvað skyldu þeir fá fyrir 213 milljónir? 4 tommur í Dagaskránni og skjáauglýsingar í viku? Beats me.
Þetta hlýtur að vera meira. Rétt að vakta það.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.10.2011 kl. 18:57
Það er rétt, Jón Steinar! Auðvitað verður það miklu meira en þessar 213 millj. plús upplýsingaskrifstofan. Þetta er aðeins byrjunin!
Vinstrivaktin gegn ESB, 17.10.2011 kl. 23:45
Er ekki aðildarferlið sem virðist vera á fullu skriði,ólöglegt? Samþykkti Alþingi nokkuð nema umsókn?
Helga Kristjánsdóttir, 18.10.2011 kl. 00:53
Það er spurning hvort yfirvöld hér þurfi ekki að snara út 213 milljónum til andstæðinga til að gæta jöfnuðar. Annars er það hreint lögbrot og lýðræðisbrot að þiggja þessa peninga.
Það er skylda að gera báðum sjónarmiðum jafn hátt undir höfði svo ég hvet samtök andstæðinga til að krefjast sama framlags ella kæra þennan gerning.
Þetta liggur beint við.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.10.2011 kl. 02:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.