Framlag Íslands í björgunarsjóð evrunnar hefði orðið minnst 100 milljarðar

Þessa dagana eru leiðtogar evruríkjanna í ESB að húrra eins konar neyðarlögum í gegnum þjóðþing sín um fjármögnun veðtryggingasjóðs (bail-out fund) til bjargar evrunni og hafa þau áform víða mætt mótspyrnu. Öll 17 evruríkin verða að staðfesta ákvörðunina. Í svipinn er þó lagasetningin strönduð hjá Slóvökum sem reyna að sleppa undan þessari þungu ábyrgð, en upphæðin mun nema nærri 220 þúsund kr. á hvern íbúa þar í landi.

Stefnt er á að heildarupphæð sjóðsins (EFSF) verði 440 milljarðar evra. Eistland er annað dæmi um evruríki þar sem sjóðsframlagið hefur mætt harðri andstöðu. Það var þó að lokum samþykkt eftir harðar umræður. Miðað við fólksfjölda í Eistlandi virðist upphæðin, sem hverju mannsbarni þar er ætlað að ábyrgjast, nema liðlega 200 þúsund krónum íslenskum.

Að sjálfsögðu eru Þjóðverjar með miklu hærri þjóðartekjur á mann en Eistar og Slóvakar og er þeim því ætlað að standa undir framlagi sem virðist nema rúmum 400.000 þúsund ísl. kr. á íbúa eða 211 milljörðum evra. Út frá þessum upplýsingum og miðað við hlutfallslega háar þjóðartekjur hér á landi, svo og fyrrnefnt framlag Þjóðverja, má ætla að ábyrgðarupphæðin sem félli á íslensku þjóðina, næmi milli þrjú og fjögur hundruð þúsund krónum á íbúa eða lauslega áætlað a.m.k. rúmlega hundrað milljörðum króna á landsmenn alla, ef Íslendingar væru nú í ESB og á evrusvæðinu.

Hafa ber í huga að fyrrnefnd sjóðsframlög evruríkja eru aðeins byrjunin, þar eð þau byggja á ákvörðunum sem teknar hafa verið á þessu sumri og hausti. Enn hærri ábyrgðir eru í býgerð, jafnvel ferföldun sjóðsins vegna yfirvofandi vanda á Spáni og Ítalíu. Harla ótryggt er þó að það verði samþykkt. Finnar reyndu ákaft að fá veðtryggingu fyrir endurgreiðslu síns framlags en létu að lokum undan þrýstingnum úr höfuðstöðvum ESB. Slóvakar reyna nú að fá það í gegn að framlag þeirra verði með einhverjum hætti sérmerkt („ring-fenced") en við litlar undirtektir. Lokafrágangur málsins hefur enn frestast.

Vandi evruþjóðanna er einmitt sá að svo átti að heita að sameiginlega myntin myndi færa þeim stöðugleika og lága vexti. En þegar á reynir kemur í ljós að gjaldmiðils­samstarfið er meingallað og ætlar að verða þeim býsna þungt í skauti. Það er því ekki að undra að áhugi á upptöku evru meðal þjóða sem hafa komið sér undan því að taka hana upp, svo sem Breta, Dana og Svía, sé í algeru lágmarki.

Ragnar Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Við erum nú þegar búin að greiða miljarða tugi ef ekki hundruð í kostnað og tap vegna EES samstarfsins síðustu þrjú ár sem er meira en sem nemur ávinningnum af því samstarfi.

Við framleiðum vörur sem þurfa engar sérstaka tollívilanir þar sem eftirspurnin í heiminum eftir þessum vörum er það mikil. Það er komin sá tími að við eigum að fara að reikna út hvar við stöndum í þessu EES samstarfi og það er bara orðin spurning um að við gerum einhliða samninga við sambandi á okkar forsendum enda er sambandið ófært um að skaffa helstu framleiðsluvörurnar okkar í eigin hagkerfum og skiptir þá engu hvort Noregur gangi inn eða ekki. 

Eggert Sigurbergsson, 2.10.2011 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband