Evran er undirrótin að óförum Grikkja

ESB-sinnar reyna mjög að telja fólki trú um að ófarir Grikkja komi evrunni ekkert við. Varla er þó um það deilt að undirrótin að vanda grísku þjóðarinnar er gengdarlaus skuldasöfnun. En hvernig urðu skuldirnar til? Bjarni Jónsson, verkfræðingur, svarar þeirri spurningu með skýrum hætti á Evrópuvaktinni 27. sept. s.l:

„Eftir upptöku evrunnar varð allt í einu mikið framboð á ódýru lánsfé í Grikklandi, sem leiddi til lánafyllirís, þenslu í hagkerfinu og verðbólgu, sem stjórnvöld réðu ekkert við, enda gengu þau á undan með takmarkalitlu sukki í meðferð opinbers fjár undir forystu jafnaðarmanna (nema hverra ?). Nú nema skuldir gríska ríkisins um 170 % af VLF og fara enn vaxandi, og almenningur er líka mjög skuldsettur. Ástæðan fyrir þessum lágu vöxtum, sem ollu stórskaðlegri bólu í Grikklandi, var ládeyða í þýzka hagkerfinu eftir þenslu endursameiningarinnar. ECB, Seðlabanki ESB, horfði til þungamiðjunnar við vaxtaákvarðanir, en jaðarríkin léku lausum hala með voveiflegum afleiðingum. Hver ber sök í þessu máli ? Er ekki ábyrgð Seðlabanka Evrópu nokkur á óförum Grikkja? Það er hrikalegt að horfa upp á Grikki núna verða fórnarlamb misheppnaðrar hugsjónar um Evrópu undir einni stjórn.

Brüssel hefur nú fyrirskipað miklar sparnaðaraðgerðir í Grikklandi, sem leitt hafa til sársaukafulls samdráttar hagkerfisins um 14% á 3 árum, sem er nánast einsdæmi um kreppuumfang; þó svipað og í Argentínu eftir hrunið, þegar þeir höfðu tengt mynt sína beint við bandaríkjadal um skeið. Jafnframt var Grikkjum fyrirskipað að selja ríkiseignir, þ.m.t. heilu eyjarnar. Eru þetta miskunnarlaus skilyrði ESB-foringjanna fyrir nýjum lánum, sem aðeins lengja í hengingaról Grikkja. Fyrir samfylkingarráðherrana er evruland samt fyrirheitna landið. Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur. Hjálpi oss allir heilagir !

Grískur almenningur er æfur yfir þessari óréttlátu meðferð höfðingjanna í Berlín, París og Brüssel, á sér og fór í allsherjarverkfall og í fjölmennar mótmælagöngur á götum borga og bæja Grikklands. Allt er á suðupunkti og fleiri verkföll boðuð, því að fólk, sem enga ábyrgð ber gagnvart grísku þjóðinni, er nú tekið að véla um örlög hennar. Þetta veldur djúpstæðri ólgu í vöggu lýðræðisins. Það er vel skiljanlegt. Reglur lýðræðis eru fótum troðnar af skriffinnum Brüssel.

Þetta er einmitt meginástæða óvinsælda ESB. Það dregur stórlega úr lýðræðinu, sem almenningur í aðildarlöndunum þó býr við, því að íþyngjandi aðgerðir fyrir almenning eru ákvarðaðar af stjórnendum í Brüssel, sem hafa ekki verið kjörnir af almenningi og þurfa aldrei að standa honum reikningsskap gjörða sinna.

Íslendingar hljóta að finna til samstöðu með Grikkjum á þessum örlagatímum, enda er fjármálaveldið, sem að baki ESB stendur, að kreista hvern blóðdropa út úr Grikkjum til að minnka eigin skell, sem þó er óhjákvæmilegur. Eru þetta einhverjar ljótustu aðfarir, sem sézt hafa í Evrópu um langa hríð og hljóta að enda með ósköpum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Evran er ekki undirrótin, heldur heldur er það ríkisrekstur með tapi, ár eftir ár.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 1.10.2011 kl. 16:33

2 identicon

Ólafur þá væntanlega á sama hátt er Íslenska krónan ekki vandamálið fyrir okkur heldur peningamálastjórnunin. 

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 1.10.2011 kl. 16:51

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Auðvitað er skuldsetning Gríska ríkisins skaðvaldur, en upptaka evrunnar var vendipunktur. Þá bauðst lánsfé í ómældu og óraunhæfum vöxtum og menn féllu í freistni.

Það er ekki nýtt að Grikkir sýni ekki festu og ábyrgð í fjármálum. Oft hafa þeir skapað vanda en alltaf náð að klóra sig út úr honum. En ekki núna. Ástæðan er að þeir eiga ekki lengur eigin gjaldmiðil.

Í 25 aldir með drökmuna komust þeir í gegnum ýmis áföll. En 10 ár með evruna og þeir eru gjaldþrota. Það er ekki tilviljun.

Haraldur Hansson, 1.10.2011 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband