Síbreytileiki hafsins virðist ekki til í kokkabókum Evrópusambandsins

Frá því að makríllinn hóf göngu sína í stórum stíl inn á Íslandsmið hafa ráðamenn ESB hamrað á því ár eftir ár að Íslendingar eigi ekki og megi ekki veiða makríl. Hvers vegna ekki? Jú, formúlan sem skriffinnarnir í Brussel byggja á er einfaldlega á þann veg að þjóð á ekki rétt til að veiða fiskitegund sem sjómenn hennar hafa ekki áður veitt. Þá breytir engu þótt viðkomandi fiskur hópist í þykkum torfum inn í lífríkið við strendur viðkomandi lands og fylli miðin, jafnvel firði og flóa og höggvi stórt skarð í fæðuöflun hefðbundinna stofna. Sá fiskur er friðhelgur að dómi ESB þegar skip viðkomandi strandríkis eiga í hlut.

 

Eins og margir þekkja eru skriffinnar ESB frægir að endemum fyrir að setja reglur um alla mögulega og ómögulega hluti án þess að taka nokkurt tillit til mismunandi aðstæðna í aðildarríkjunum, líkt og móðir sem ákveður af hagkvæmniástæðum að ein stærð af fötum henti fyrir alla króana.

 

Ráðamönnum í ESB hefur oft verið bent á að við hlýnun sjávar sæki fiskur norðar en áður var og það eigi einmitt við um ýmsar fiskitegundir sem sækja inn á Íslandsmið en gerðu það ekki áður. Þær syndi einfaldlega þangað sem best þeim hentar hverju sinni og láti sig engu skipta hvað lesa megi í lögbókum ESB. Á móti kemur svo hitt að eitthvað af fiski syndi út úr lögsögu Íslendinga, einkum norður í höf eða vestur til Grænlands.

 

Í sumar var oft svo krökkt af makríl í sjónum undan Sæbrautinni í Reykjavík að fólk sem á horfði úr nálægum háhýsum sá jafnvel ástæðu til að hringja í fréttastofu RÚV og segja frá því hvernig sjórinn bókstaflega kraumaði af fiski upp í landsteina. Það lá sem sagt við að makríllinn gengi á land. En embættismennirnir í Brussel berja höfðinu við sína steina og mega ekki heyra á annað minnst en að Íslendingar stöðvi allar veiðar á makríl. Lengi vel fengust þeir jafnvel ekki til að ræða þessi mál við okkur eða bjóða okkur á ríkjaráðstefnur þar sem makrílveiði í Norður Atlantshafi var til umræðu. Það er víst reyndar eitthvað að breytast þessa dagana.

 

Að sjálfsögðu er hér um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir efnahagslíf Íslendinga. Sjávarútvegsráðherra  leyfði veiðar á 150 þúsund tonnum af makríl og nú í sumar hafa skip af öllum stærðum og gerðum verið við makrílveiðar allt frá stórum frystitogurum sem veiða í troll og niður í litlar trillur sem veiða á öngul. Um 90% aflans fer til vinnslu og manneldis en 10% til bræðslu og útflutningsverðmæti á vertíðinni er áætlað 25-30 milljarðar króna. Í fyrra veiddust 122 þúsund tonn.

 

Lesendur mega þó ekki halda að þessi deila okkar við ESB um makrílinn sé einangrað tilvik. Þetta hefur áður gerst. Það nákvæmlega sama var upp á teningnum þegar veiðar hófust á kolmunna hér við land. Síbreytileiki hafsins virðist ekki vera til í kokkabókum ESB. Hvalveiðar á Íslandsmiðum eru einnig bannorð hjá ESB þótt hvalastofnar hér við land séu ekki taldir í útrýmingarhættu.

 

Deilan um makrílinn myndi að sjálfsögðu leysast auðveldlega ef Íslendingar færu að ráðum Össurar og Samfylkingarinnar og gengju í ESB. Þá yrðu landsmenn formlega sviptir forræði yfir 200 mílna lögsögu sinni. Fiskimiðin við landið yrðu hluti af sameiginlegu Evrópusambandshafi og Íslendingar hefðu ekki lengur sjálfstæðan rétt til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki. Því verður þó seint trúað að landsmenn verði sáttir við þá niðurstöðu.

 

Ragnar Arnalds  

(Birtist í Morgunblaðinu 1. september)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þessu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.9.2011 kl. 00:29

2 identicon

Einkennilegt að þessi breytileiki er helfur ekki til í kokkabókum skriffinnanna í Ósló og eru þeir þó ekki í ESB. Kæmi mér ekki heldur neitt á óvart að það myndi standa í íslenskum skriffinnum ef "íslenskur" þorskur tæki upp á því að svamla inn á annarara þjóða mið ...

Pétur (IP-tala skráð) 2.9.2011 kl. 08:21

3 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Pétur! Íslenskur þorskur hefur einmitt stundum gengið á annarra þjóða mið. Hann gengur oft inn á Grænlandsmið og er óspart veiddur af grænlenskum sjómönnum. En engum á Íslandi hefur dottið í hug að banna Grænlendingum að veiða hann. Vissulega hafa Norðmenn stundum fett fingur út í veiðar okkar á loðnu sem þeir þóttust eiga. En það var mest í nösununum á útgerðarmönnum þeirra. Hjá ESB er það sjálft regluverkið sem þeir þykjast vera að verja, reglan um "hlutfallslegan stöðugleika" og það eru sjálfir kommissararnir sem hóta öllu illu.

Vinstrivaktin gegn ESB, 2.9.2011 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband