82% afla á Írlandsmiðum er veiddur af erlendum skipum

Það verður æ furðulegra eftir því sem tíminn líður að Össur utanríkisráðherra skuli komast upp með að halda því fram, að Ísland þurfi enga undanþágu frá sjávarútvegsreglum ESB, án þess að utanríkismálanefnd Alþingis kalli hann fyrir og krefjist skýringa, en ummæli Össurar ganga algerlega í berhögg við samningsmarkmiðin sem samþykki Alþingis við aðildarumsókn byggði á.

Össur hefur haldið því fram að reglan um"hlutfallslegan stöðugleika" (relative stabilitiy) tryggi hagsmuni Íslendinga. Hann og aðrir áhugamenn um ESB-aðild Íslands ættu að kynna sér hver verið hefur reynsla nágranna okkar Íra af sjávarútvegsreglum ESB í tímans rás.

Sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Covery, vakti máls á því fyrir skömmu að verðmæti sjávarafurða af fiskimiðum Íra væri árlega um það bil 1,2 milljarðar evra en Írar fengju einungis 18% aflans í sinn hlut eða rúmar 200 milljónir evra. Gróft reiknað má því segja að skip annarra ríkja taki fimm af hverjum sex fiskum á Írlandsmiðum og telur ráðherrann að stærsti hlutinn sé veiddur af frönskum skipum. Hann virðist þó gera sér litlar vonir um breytingar til batnaðar því að valdið til að stjórna veiðum á fiskimiðum Íra er alfarið hjá ESB. Hann sér því ekki annað ráð til úrbóta en að krefjast þess að hluta þess afla sem erlend skip veiða við Írlandsstrendur verði landað á Írlandi, helst allt að helmingi aflans.

Að sjálfsögðu fá Írar einnig nokkurn afla á fiskimiðum annarra aðildarríkja. Engu að síður telja þeir sig mjög afskipta við kvótaúthlutanir og rekja þá hörmungarsögu aftur til þess tíma er þeir gengu í fyrirrennara ESB, svonefnt Evrópubandalag.

Gerir Össur sér grein fyrir því að Íslendingar gætu með tíð og tíma komist í svipaða aðstöðu innan ESB og Írar? Að sjálfsögðu er engin trygging fólgin í reglunni um "hlutfallslegan stöðugleika" því að hún er einungis viðmiðunarregla sem meiri hluti ráðherraráðsins getur breytt hvenær sem henta þykir, rétt eins og nú eru uppi áform innan ESB að endurskoða"Sameiginlegu fiskveiðistefnuna" í heild sinni og taka m.a. upp framseljanlega kvóta.

Ákvarðanir um breytingar á fiskveiðistefnunni eru teknar í ráðherraráðinu, þar sem Íslendingar myndu fá langt innan við 1% atkvæða ef þeir gengju í ESB. Fiskveiðiríki ESB hafa eyðilagt fiskistofna sína, eins og alkunna er, með gengdarlausu brottkasti, ofveiði og miðstýrðri óstjórn. ESB hefur því brýna þörf fyrir að komast að gjöfulli fiskimiðum. Ábyrgð þeirra manna er mikil og þung sem stuðla að því að íslensk fiskimið verði sett undir erlenda stjórn.

Ragnar -Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Hirðfíflið Össur gerir sér ekki grein fyrir einu eða neinu,það verður að kippa þessu Hirðfífli til hliðar svo hann valdi ekki okkur meira tjóni en orðið er.....

Vilhjálmur Stefánsson, 21.7.2011 kl. 16:27

2 identicon

Össur og esb félagum er sama um Íslenska hagsmuni þeir vilja fórna þeim fyrir sýna eigin þ.e. góð störf á jötunni hjá evrópusambandinu þeir reyna á meðvitaðan hátt að blekkja almenning evrópusambandið ásælist auðlindir Íslands Össur og félagar vinna með þeim í að ná þeim markmiðum og hafa því í því sambandi þverbrotið landslög

Örn Ægir (IP-tala skráð) 21.7.2011 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband