Össur sekkur dýpra í kviksyndi umræðunnar
4.7.2011 | 18:19
Össur ver sig í viðtali við Morgunblaðið vegna gagnrýni sem fram hefur komið á þau ummæli hans Ísland þyrfti ekki undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu. Í viðtali nú segist utanríkisráðherra alltaf hafa gert greinarmun á sérlausnum og varanlegum undanþágum. Hann hafi frá upphafi talað fyrir því að Íslendingar leituðu eftir sérlausn hvað sjávarútvegsstefnu varðaði, og meðal annars vísað til sérlausnar Finna varðandi norðlægan landbúnað.
Eins og oft gerist í kviksyndi þá sökkva menn dýpra við hvert nýtt skref. Það að viðurkenna að varanlegar undanþágur séu ekki inni í myndinni er eiginlega verra en að segja að við getum starfað innan sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB. Að utanríkisráðherra tali með þessum hætti um helstu hagsmuni þjóðarinnar er mjög alvarlegt enda hafa ummæli hans sem ráðherra þjóðréttarlegt gildi í samskiptum okkar við ESB.
Það er einnig fráleitt að halda því fram að íslenskum hagsmunum sé best borgið með reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Sjórinn er síkvik auðlind þar sem stofnar koma og fara sem endurspeglast í því að Ísland á nærri 40% af fiskveiðihagsmunum sínum í flökkustofnum. Ef reglan um hlutfallslegan stöðugleika á að gilda öðlast Evrópuríkin smám saman vaxandi rétt til veiða í íslenskri lögsögu eftir því sem sjór hér hlýnar og okkar gömlu kaldsjávarstofnar leita annað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.