„Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“

Umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu var lögð inn fyrir tæpum tveimur árum. Umsóknin markaði engin þáttaskil í endurreisn þjóðarbúsins eins og forsætisráðherra fór mikinn í að halda fram á þeim tíma. Margt hefur hins vegar drifið á daga íslensku þjóðarinnar síðan. Icesave-samningum hefur verið hafnað án þess að ragnarök yrðu, krónan hefur styrkst þó í skjóli gjaldeyrishafta sé og verðbólga er með lægsta móti um árabil.

 

Niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-samninginn nú í apríl er varla hægt að túlka öðruvísi en að meðal þjóðarinnar sé mikil andstaða við ESB aðild. Þrátt fyrir það hefur enginn stjórnmálaflokkur tekið afdráttarlaust af skarið um að stöðva beri yfirstandandi „aðlögunarferli". Þetta eru mikil vonbrigði fyrir alla einlæga andstæðinga ESB-aðildar Íslands, ekki síst í ljósi þess að hluti þeirra þingmanna sem atkvæði greiddu með aðildarumsókn voru og eru í raun á móti ESB aðild. Mikill tími og kraftar bæði vinna og fjármunir, fara í þetta viðfangsefni á meðan nóg önnur verkefni er við að fást í þjóðfélaginu.

 

Í ályktun alþingis er að finna ýmis skilyrði og kröfur sem halda skal fram í viðræðunum. Á næstu vikum munu birtast skýrslur ESB um afrakstur rýnivinnu einstakra samningskafla. Í október mun síðan koma út ítarleg skýrsla um stöðu ferlisins í heild sem lögð verður fyrir Evrópuþingið. Hér mun gefast kjörið tækifæri til að setja upp prófjöfnuð um stöðu málsins. Bera saman kröfur og afstöðu okkar þings og þjóðar við greiningu ESB. Afstaða ESB til banns við innflutningi á lifandi dýrum hefur þegar komið fram og fleira mun eflaust skýrast í ferlinu.

 

Frá sjónarhóli ESB er augljóst að mörg ljón eru í veginum áður en Ísland getur orðið aðili að sambandinu. Eitt af skilyrðum þess að ESB taki upp viðræður við ný lönd um aðild er að almennt standi vilji til þess meðal þjóðarinnar. Þetta verður tæpast sagt að standist hér á landi. Fyrir alla sem vilja sjá það er ljóst að ESB hefur sjálft áhuga á aðild Íslands - þrátt fyrir að við þversköllumst eins og kotkallar við að borga meintar skuldir okkar, það er ekki laust við að snærisþjófurinn frá Rein komi hér upp í hugann. Svarið liggur á sama hátt í augum uppi. Eru það fiskimiðin? Tæplega, fiskveiðar skipta litlu máli í hagkerfi ESB. Skemmst er að minnast orða forseta Slóveníu um sérstöðu Íslands sem fiskveiðiþjóðar, sem féllu í opinberri heimsókn hans hér á landi nýverið. Er það rafmagnið sem virkja má úr fossum okkar? Tæplega, öll raforka framleidd á Íslandi er aðeins örfá prósent af heildarorkunotkun í Bretlandi, sem væri nærtækasti kaupandinn. Nei, ESB vantar eitt upp á til að verða alvöru stórveldi, aðgang og áhrif á norðurslóðum og siglingaleiðinni sem opnast þar á næstu árum til Asíu. Þar liggja gríðarlegir hagsmunir, bæði efnahagslegir og pólitískir fyrir ESB. Íslenska hagkerfið er eins og krækiber í hagkerfi ESB og í enda dags mun ESB taka upp tékkheftið og reynast reiðubúið til að kaupa þennan aðgang nokkru verði. Fyrir Íslendinga er því spurningin um að vera sjálfstæð þjóð sem talar eigin röddu á alþjóðavettvangi eða framselja umboð sitt til áhrifa þar til ESB.

 

Erna Bjarnadóttir

hagfræðingur Bændasamtaka Íslands

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband