Afturköllun umsóknarinnar var lofað

Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra skrifar

Meðan Ísland hefur stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu hefur viðræðum á grundvelli umsóknarinnar ekki verið hætt.Bæði utanríkisráðherra og stækkunarstjóri Evrópusambandsins hafa staðfestað þó svokallað „hlé" hafi verið gert á viðræðunum hafi Ísland áfram stöðu umsóknarríkis. Það framtak Gunnars Braga að leysa upp samninganefndirnar var gott en betur má ef duga skal.Spurning er hvort utanríkisráðherra  hefði ekki  betur fækkað utanlandsferðum og  fylgt í stað eftir tillögu sinni um afturköllun umsóknarinnar að ESB á Alþingi eins og  hann hafði talað  fyrir.

Staðreyndin er sú að þegar skrifað var undir umsóknina  fyrir Íslands hönd var jafnframt samþykkt að undirgangast lög og vinnureglur sambandsins í umsóknar- og aðlögunarvinnunni. Umsóknarríki tekur á sig ákveðnar skuldbindingar og ESB öðlast rétt til  afskipta af innanríkismálum hér á landi. Stækkunardeild ESB hefur t.d. áfram rétt til að reka hér umfangsmikið áróðurs- og kynningastarf. Evrópustofa og Sendiráðsskrifstofa ESB getur áfram veitt hingað fjármunum í áróðursverkefni, kynningu  og boðsferðir langt umfram það sem heimilt er með starfi sendiráða.

Áróðursskrifstofur ESB reknar áfram

Þrátt fyrir að einstök lönd Evrópusambandsins reki hér eigin sendiráð er Evrópusambandið sjálft með stórt sendiráð með umfangsmikla starfsemi og afskipti af innanríkismálumsem öðrum sendiráðum væri ekki heimilt á grundvelli Vínarsáttmálans um skyldur erlendra diplómata.

Það að ríkisstjórnin hefur ekki afturkallað formlega umsóknina um aðild þýðir að  Ísland heldur áfram stöðu umsóknarríkis og umsóknarferlinu hefur ekki verið hætt eins og lofað var.

Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær voru  stjórnarþingmenn fátalaðir um ESB-umsóknina, eitt stærsta kosningamál síðustu alþingiskosninga.

Hinsvegar máttu ESB- sinnarnir í stjórnarandstöðunni vart vatni halda yfir gleði sinni yfir því að umsóknin að ESB væri í fullu gildi, mallaði áfram og gæti fyrirvaralítið farið á fulla ferð á ný.

ESB- flokkarnir með tapað mál

Formenn beggja Samfylkingarflokkanna , Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson, fögnuðu því að hafa getað komið í veg fyrir að aðildarviðræðum við ESB væri slitið. Þeir töldu sig heldur betur hafa dregið tennurnar úr forystumönnum ríkisstjórnarinnar í ESB-málum.

Afturköllun ESB-umsóknarinnar var hinsvegar ekki stöðvuð af stjórnarandstöðunni eins og þeir halda fram. Ríkisstjórnin er með drjúgan þingmeirihluta og gat verið löngu búin að beita sér fyrir samþykkt tillögunnar ef hún vildi svo.Við sem viljum ganga hreint til verks og afturkalla umsóknina erum með unna stöðu sem átti að fylgja eftir. Meira að segja undirskriftasöfnun ESB-sinna var skrípaleikur þar sem „Óskar Nafnleyndar" var í aðalhlutverki.

Sumarþing og ljúka málinu

Ég er áfram þeirrar skoðunar að kalla eigi saman sumarþing til að ljúka ESB-málinu fyrir haustið. Ekki trúi ég því að stjórnarflokkarnir hafi guggnað, en trúverðugleiki þeirra hefur beðið hnekki .  Hitt er þeim slæmur kostur að geyma málið til hausts og þurfa þá að endurflytja tillöguna. Þá byrjar sama ballið upp á nýtt og menn vita  þá í hvað haustið fer.

(Áður birt í Morgunblaðinu í dag, 20. maí 2014) 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband