Draumurinn um evruna er orðinn að martröð
14.5.2014 | 13:15
Á evrusvæðinu eru nú sautján ríki og í tíu þessara ríkja er nú yfir tíu prósent atvinnuleysi. Það er engin tilviljun að einmitt íbúarnir í þeim ríkjum sem féllu fyrir draumnum um traustan, sameiginlegan gjaldmiðil sem allan vanda átti að leysa, þurfi nú að búa við martröð atvinnuleysisvofunnar.
Þau ríki sem dýpst eru sokkin í atvinnuleysispytt evrusvæðisins eru Írland með tæplega 12% atvinnuleysi, Grikkland með tæp 27%, Spánn með rúm 25%, Frakkland með rúm 10%, Ítalía með tæp 13%, Kýpur með rúm 17%, Lettland með um 11,5%, Portúgal með rúm 15% og Slóvakía með um 14%.
Tölurnar eru miðaðar við marsmánuð s.l. Athyglisvert er að í flestum þessara ríkja hefur ástandið nánast ekkert lagast undanfarna mánuði, þótt vonir stæðu til að það væri að skána.
Viðbrögð forystumanna ESB við þessu ástandi hafa mjög verið á eina leið. Þeir hafa lengi aðeins séð eina lausn við öllum vanda og það er enn meiri samruni, enn meiri samþjöppun, enn meira framsal fullveldis til miðstýrðra stofnana ESB.
Evrusvæðið verði sambandsríki
Það er mín persónulega skoðun að evrusvæðið ætti að verða að Bandaríkjum Evrópu. Þetta sagði Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins, í ræðu sem hún flutti í lagadeild Cambridge-háskóla í Bretlandi fyrir skömmu. Sagði hún sterk rök hníga að því að koma á fjármálalegu bandalagi og að lokum pólitísku sambandi (poltical union).
Tilgangur Bandaríkja Evrópu ætti að vera að koma á stöðugleika á evrusvæðinu, sagði Reding.
En er það vilji ESB-sinna á Íslandi, þessara sem þykjast fyrst og fremst vilja kíkja í pakkann að landsmenn afsali sér fullveldinu og hverfa inn í nýtt sambandsríki Evrópu? - RA
Athugasemdir
Evrulöndin af Norðurlöndunum hafa haft ákaflega lélegan hagvöxt í samanburði við Ísland, Norðmenn og Bandaríkin. Hægt að smella á mynd til að fá hana stærri.
Eggert Sigurbergsson, 14.5.2014 kl. 18:04
Hérna er hægt að smella til að fá myndina stærri.
Eggert Sigurbergsson, 14.5.2014 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.