Vaxandi efasemdir í ESB um eigið ágæti

Það eina jákvæða við evrukreppuna er sú staðreynd að fólkið í aðildarríkjum ESB horfist loksins í augu við þann vanda sem evran hefur skapað og dregur í vaxandi mæli í efa ágæti þess að þjappa völdunum saman í kringum einn valdakjarna og eina mynt sem hentar illa við mismunandi aðstæður.

 

Þegar ákvörðun var tekin innan ESB um nýja sameiginlega mynt árið 1998 áskildu Bretar sér rétt til að doka við um stund sem aftur leiddi til þess að Danir gerðu slíkt hið sama. Síðan er liðinn hálfur annar áratugur og Bretar hafa aldrei verið fjær því en nú að taka upp evru. Í nýbirtri breskri úttekt á stöðu Breta innan ESB er á það bent að útflutningur frá Bretlandi hafi ekki aukist til ESB-landa umfram önnur lönd, og beinlínis er dregið í efa að ESB-þjóðir geti samið um betri viðskiptasamninga en þau ríki sem ekki eru í ESB. Þar er jafnframt opinskátt rætt um þann möguleika að Bretar kunni að yfirgefa ESB.

 

Í nýlegri könnun sem danska blaðið Politiken stóð fyrir 4. maí s.l. segja 46% Dana að umræður um ESB undanfarið hálft ár hafi aukið efasemdir þeirra um ESB, en einungis 4% segjast hafa fengið aukið álit á ESB.

 

Pólverjar gengu í ESB árið 2004 og áttu þá fljótlega að ganga inn í fordyri evrunnar, svonefnt ERM II, samkvæmt þeim inngönguskilyrðum sem þá voru sett. En þetta hafa Pólverjar enn ekki gert af ótta við að það muni rýra mjög samkeppnisstöðu Pólverja, auk þess sem mikill meirihluti landsmanna er því algerlega mótfallinn að taka upp evru.

 

Hér hefur verið rætt um þrjú ríki ESB sem eru næstu nágrannar Þjóðverja. En eins og kunnugt er ríkir enn meiri óánægja og vonbrigði með evruna og aðildina að ESB í ríkjunum á suðurjaðrinum, þ.e. í Grikklandi, á Ítalíu, Spáni og í Portúgal. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nýkominn að utan og dvaldi m.a. 10 vikur í Grikklandi. Talaði við ófáa háa og lága og minnist þess ekki að nokkur hafi mælt með því að yfirgefa EU eða taka upp drökmuna. Skoðanakannanir sýna einnig að nær allir Grikkir vilja áfram Evruna.

Hvað er því þessi RA (former minister, Mr. Arnalds, I suppose) eiginlega að fara í sínum skrifum. Er maðurinn vísvitandi að villa um fyrir fólki, eða er hann þetta fáfróður um stöðu mála í Evrópu?

Það sem plagar Grikki mest er atvinnuleysið. Íbúatalan er nær 12 milljónir, ef flóttamenn eru taldir með og nær engar auðlindir.

En skoðum launin eins og þau gerast lægst í Grikklandi. Til dæmis timakaup við landbúnaðarstörf eða við húsverk. Veit hvað ég er að tala um, því var með fólk í vinnu. Tímakaupið er þetta 7 -9 Evrur, eða  1120 - 1440 kr., miðað við gengið 160. Þætti vissulega ekki mikið á Íslandi, en hafa skal í huga að kaupmáttur einnrar Evru í Hellas er nálægt því að vera 50-100% meiri en kaupmáttur samsvarandi upphæðar í Ikr. á Íslandi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.5.2014 kl. 13:45

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það þarf stjórnarskrárbreytingu í Póllandi svo að þeir geti tekið upp evruna sem gjaldmiðil. Sú breyting krefst 2/3 hluta samþykki pólska þingsins. Það samþykki hefur ekki fengist.

Þetta stendur allt saman hérna. Auk þess þá uppfyllir Pólland ekki efnahagsleg skilyrðin fyrir því að taka upp evruna eins og stendur. 

Litháen stefnir hinsvegar á upptöku evrunnar þann 1-Janúar-2015. Eins og kemur fram hérna og hérna. Ég veit hinsvegar ekki hvort að Litháen uppfyllir efnahagsleg skilyrði fyrir upptöku evrunar eins og þau eru í dag. Það kemur í ljós núna í Júlí-2014 reikna ég með.

Jón Frímann Jónsson, 11.5.2014 kl. 17:16

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Einn ríkissjóður? ESB-ríkissjóðurinn? Einn fjármálaráðherra? Og það er hringborðs-spillingarklúbburinn?

Gjaldmiðlar eru ekki aðal vandamálið, heldur verðlaust verðbréfabrask ábyrgðarlausra og siðlausra valdamanna, ásamt ruglinglegri mótsagnar-lagaumgjörð og siðferðislegt heilbrigði í stjórnsýslu viðkomandi landa. Frjálst flæði fjármagns, verkafólks og fyrirtækja þvert á landamæri, krefst siðmenntaðrar og ábyrgrar embættis-stjórnsýslu, ásamt dómskerfi sem vinnur löglega og samkvæmt stjórnarskrá og réttlæti.

Þar vantar mikið upp á, í embættis/forstjórastöðunum á Íslandi, og langur vegur frá að það geti talist til siðmenntaðra ríkja.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.5.2014 kl. 17:54

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

...siðferðislegt óheilbrigði í stjórnsýslu...

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.5.2014 kl. 17:56

5 identicon

Nýkominn að utan, dvldi m.a. 11 vikur í Grikklandi, og það voru bara allir að tala um að yfirgefa evruna og taka upp drökmu.

Auðvitað er ESB spilaborg, bara spurning um tíma hvenær hún hrynur. Það gerist þegar Evrópubúar fá nóg af fjórmenningatrúðunum í Brussel sem öllu ráða. Öll ráðstjórnarkerfi hrynja á endanum, það gerist líka með ný-kratismann sem leikur lausum hala í Evrópu.

Hilmar (IP-tala skráð) 11.5.2014 kl. 21:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband