Atvinnuleysi af völdum evrunnar er vaxandi vandamál
8.5.2014 | 11:46
Víða á evrusvæðinu segja menn að evran sé of sterk. Aðrir segja að hún sé of veik, a.m.k. fyrir Þjóðverja. Getur það verið rökrétt? Jú, skýringin er einfaldlega sú að sama gengi hentar ekki öllum, ekki frekar en að sama stærð af fötum passar ekki á alla.
Grikkir, Portúgalar, Spánverjar og Ítalir hafa lengi kvartað yfir því að gengi evrunnar sé alltof sterkt. Þess vegna veikist samkeppnisstaða þeirra á erlendum mörkuðum og atvinnuleysi magnast. Á hátíðisdegi verkalýðsins, fyrsta maí s.l. mótmæltu verkamenn á Ítalíu gífurlegu atvinnuleysi sem væri afleiðing af tilkomu evrunnar, en þar í landi er nú atvinnuleysið tæplega 13 prósent. Vandinn er einkum mestur í jaðarríkjum evrusvæðisins. Mikill viðskiptahalli leiðir til skuldasöfnunar sem síðan er reynt að mæta með niðurskurði í opinberri þjónustu sem aftur veldur enn meiri samdrætti og auknu atvinnuleysi.
Á Ítalíu verða nú þær raddir háværari að Ítalía neyðist til að yfirgefa evrusvæðið. Frambjóðendur þar í komandi kosningum beina nú spjótum sínum í auknum mæli að evrunni og miðstjórnarvaldi ESB í Brussel. Jafnvel í Frakklandi sem ótvírætt er annað voldugasta kjarnaríki ESB er nú kvartað hástöfum yfir því að gengi evrunnar sé of sterkt, sbr. nýlegar yfirlýsingar forsætisráðherra Frakka.
Aðrir benda á þveröfuga lausn á þessum vanda. Þeir benda á að orsök vandans felist í gríðarsterkri samkeppnisaðstöðu Þjóðverja í samanburði við önnur evruríki. Einfaldast sé að Þjóðverjar segi sig frá evrunni og taki upp þýskt mark á nýjan leik. Það muni leiðrétta ójafnvægið á evrusvæðinu.
Ísland yrði ótvírætt jaðarríki á evrusvæðinu, ef við gengjum í ESB og tækjum upp evru. Flest bendir til þess að það myndi henta okkur Íslendingum verr en nokkru öðru Evrópuríki að búa við sama gjaldmiðil og sömu gengissveiflur og Þjóðverjar. - RA
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.