Hjörleifur: Við verðum að standa á eigin fótum jafnt inn á við sem út á við

Þjóðaratkvæði um það að áfram sé haldið viðræðum við ESB um aðild, sem bæði ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis eru algerlega andvíg, er óframkvæmanleg og gengur ekki upp miðað við það kerfi sem við byggjum okkar stjórnskipun á.

 

Í ítarlegri og rökfastri umsögn Hjörleifs Guttormssonar til utanríkismálanefndar Alþingis sem við höfum áður vitnað til hér á Vinstrivaktinni fjallar Hjörleifur m.a. um þann áróður sem nú er uppi að efnt verði til þjóðaratkvæðis um áframhald eða slit aðildarviðræðna. Við birtum hér 8. og 9. kafla umsagnar Hjörleifs svo og 11. og 12. kafla, en 10. kafli birtist hér 15. apríl s.l. og 5. kaflinn um evruna birtist 22. apríl s.l:

 

8. Hugmyndir um þjóðaratkvæði á veikum grunni

 

„Allt frá því að EES-samningurinn var gerður 1993 hafa öðru hverju komið fram kröfur innan þings og utan um þjóðaratkvæði til að skera úr um niðurstöðu mála, þá oftast stutt söfnunum undirskrifta um slíka kröfu. Með netvæðingu hefur söfnun undirskrifta frá almenningi orðið langtum auðveldari viðfangs en áður var. Í stjórnarskrá Íslands, 26. grein, er heimild fyrir forseta Íslands að synja lagafrumvarpi staðfestingar, „og fær það engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar í almennri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“ Sú var staðan varðandi lagafrumvarpið um EES-samninginn, sem þáverandi forseti staðfesti þrátt fyrir fjölda áskorana um synjun. Núverandi forseti hefur þrívegis neitað að staðfesta lagafrumvarp frá Alþingi, 2004 fjölmiðlafrumvarp sem þá var dregið til baka og 2010 og 2011 frumvörp um Icesafe, og varð synjunin tilefni þjóðaratkvæðagreiðslna og voru umrædd lög ógilt af meirihluta þjóðarinnar í bæði skiptin. ‒ Eftir lýðveldisstofnun 1944 hefur aldrei verið efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu enda enga leiðsögn þar að lútandi að finna í íslensku réttarkerfi. Hugmyndir um að beita þjóðaratkvæðagreiðslum í meira mæli en hingað til hafa hins vegar verið ræddar talsvert í seinni tíð, m.a. í umræðum um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnmálamenn hafa gefið undir fótinn með slíkar hugmyndir síðustu árin, bæði tengt áformuðum breytingum á stjórnarskrá og til að róa eða setja niður deilur í eigin flokkum.

 

9. ESB-aðildarumsóknin og hugmyndir um ráðgefandi þjóðaratkvæði

 

Eins og áður greinir hafnaði fyrrverandi ríkisstjórn því sumarið 2009 að bera ákvörðun um að sækja um aðild að ESB undir þjóðina fyrirfram. Samþykkt Alþingis um aðild 16. júlí 2009 var hins vegar tengd því skilyrði að „að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“  Um það síðarnefnda hefur ekki ríkt ágreiningur milli flokka á Alþingi, kæmist málið á annað borð svo langt að aðildarsamningur lægi fyrir.

            Krafan sem stjórnarandstaðan á Alþingi hefur nú sett fram um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort slíta beri aðildarviðræðum eða draga aðildarumsókn til baka er af allt öðrum toga og á sér engin fordæmi í okkar stjórnskipan. Um þann þátt sagði Björg Thorarensen, lagaprófessor og fv. varaformaður viðræðunefndar íslenskra stjórnvalda við ESB, m.a. eftirfarandi í viðræðuþættinum „Í vikulokin“ 1. mars sl.:

 

„Ég vil kannski víkja að þessari umræðu sem hefur orðið hér sem er svolítið óvenjuleg og ég þekki engin dæmi um frá öðrum ríkjum, það er þessi krafa að þjóðin gefi Alþingi og ríkisstjórn fyrirmæli með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mjög óheppilegt fyrirkomulag og í rauninni gengur það ekki upp miðað við það kerfi sem við byggjum okkar stjórnskipun á. Við ætlumst til þess að flokkar bjóði fram og hafi sín stefnumál og fólk geti tekið sína afstöðu pólitískt út frá stefnu flokkanna en ekki með því að gefa þingmönnum og ríkisstjórn fyrirmæli í einstaka málum, þótt það sé einhver þjóðarvilji eða mikill stuðningur.

Hún er allavega ekki góð sú hugmynd sem nú liggur fyrir að koma málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel það raunar óframkvæmanlegt að ríkisstjórn færi eftir niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að hafa samningaviðræður við ríkjasamband sem það er algjörlega á móti. ... Það [þingið] náttúrulega getur ekki vísað því til næsta kjörtímabils. Það  er tvískinningur í þessari þingsályktunartillögu [utanríkisráðherra] að gefa einhvers konar vilyrði fyrir því að þetta gerist ekki nema með þjóðaratkvæðagreiðslu, það verði ekki hafnar aftur viðræður. Það finnst mér fullkomlega innantómt og nokkurs konar sýndarmennska.

Þingmenn eru kjörnir til þess vissulega að standa fyrir ýmsum stefnumálum og þeir gefa ýmis loforð um hvað þeir ætli að gera, en aðalatriðið er að þeir fylgja sinni sannfæringu í því sem þeir taka sér fyrir hendur í þinginu og greiða atkvæði sem samræmist best þeirra sannfæringu. Fyrirmæli frá þjóðinni geta ekki breytt því. Hins vegar væri réttast, og öll lýðræðisríki þau sem hafa lengst náð í þróun beins lýðræðis, þau hafa það fyrirkomulag að þingið vinni einhver málefni og ljúki einhverju lagafrumvarpi t.d., og svo sé það borið undir samþykki þjóðarinnar eftir á, það sé skilyrði að þjóðin þurfi beinlínis að samþykkja það.“

 

Ég er sammála ofangreindri afstöðu Bjargar Thorarensen og tel að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla til að hafa áhrif á mál sem þetta, þar sem ríkisstjórn hefur þegar gert upp hug sinn og styðst að því er virðist við öruggan þingmeirihluta „gengur ekki upp miðað við það kerfi sem við byggjum okkar stjórnskipun á.

 

11. Styrkja þarf stoðir lýðveldisins

 

Efnahagshrunið 2008, sem engan veginn hefur enn verið unnið úr til hlítar, sem og umsóknarferlið um aðild að ESB í kjölfarið, ætti að hafa kennt okkur Íslendingum lexíu, fyrst og fremst þá að við verðum að geta staðið á eigin fótum, jafnt inn á við sem út á við. Til að tryggja að svo geti orðið þarf ekki síst að treysta stoðir lýðveldisins, m.a. með stjórnarskrá sem breið samstaða sé um þannig að leikreglurnar séu sem skýrastar og með því að efla þýðingarmestu stoðir stjórnkerfisins, svo sem Alþingi, Stjórnarráð og Seðlabanka. Upplýsingastreymi innan samfélagsins þarf að vera opið, þannig að almenningur hafi sem bestar forsendur til að meta stöðu mála og vera virkur þátttakandi í ákvörðunum á ýmsum undirbúningsstigum. Góðir fjölmiðlar, ekki síst óhlutdrægt og öflugt Ríkisútvarp, eru jafnframt mikilvægir þættir í samfélagsvefnum.

 

12. Góð tengsl í stað aðildar að Evrópusambandinu

 

Smáþjóð eins og Íslendingar sem byggja afkomu sína mikið á utanríkisviðskiptum þurfa að rækta góð tengsl sem víðast, þar á meðal við Evrópusambandið. Núverandi samskipti Íslands við ESB í gegnum þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði eru, eins og varað var við á sínum tíma, langt frá því að vera gallalaus og reyndust m.a. afdrifrík í aðdraganda efnahagshrunsins 2008. Í Noregi er vaxandi gagnrýni á EES-samninginn, ekki síst af hálfu norsku verkalýðshreyfingarinnar. Eðlilegt er að kannaðar séu ásættanlegar leiðir til endurskoðunar á þessum samningsskuldbindingum þannig að ekki sé gengið gegn fullveldisrétti okkar eins og nú eru brögð að. Afar langt er hins vegar frá þeim kvöðum sem tengjast EES og yfir í aðild að Evrópusambandinu, andstætt því sem oft er haldið fram af aðildarsinnum.

 

Fram undan er á heimsvísu glíma við mikla umhverfis- og samfélagsröskun vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Íslendingar eiga stórt hafsvæði innan sinnar efnahagslögsögu og þurfa að vera við því búnir á eigin forsendum að takast á við sérstæðar umhverfisbreytingar á norðurslóðum. Við aðild að Evrópusambandinu yrði þetta stóra svæði utan 12 mílna sameiginlegt ESB-haf.

 

Til framtíðar litið er sá kostur sem við eigum bestan ótvírætt fólginn í því að varðveita sjálfstæði okkar óskert og leita samstarfs jafnt við nágrannaþjóðir og viðskiptaheildir beggja vegna Atlantshafs og í fjarlægari heimshlutum.“   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er kjarnyrt umsögn um þingsályktunartillögu, sem nú virðist, illu heilli, vera að daga uppi í þinginu.  Eins og prófessor Björg bendir á, er þjóðaratkvæðagreiðsla um afturköllun umsóknar eða "áframhald viðræðna" algerlega út í loftið samkvæmt íslenzkum stjórnskipunarrétti.  Ákafir íslenzkir aðdáendur ESB ættu miklu fremur að ganga í skrokk á þeim Össuri og Þorsteini og kryfja þá sagna um, hvers vegna viðræðurnar steyttu á skeri árið 2011, en þá stöðvuðust þær í raun veru vegna varðstöðu Alþingis um lögsöguna.  Þeir, sem ákafastir eru nú í að innlima Ísland í ríkjasambandið, leika sér með fjöregg þjóðarinnar.  Þeir eru hins vegar engir bógar til að axla ábyrgðina, þegar afleiðingar fullveldisafsals koma í ljós. 

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 3.5.2014 kl. 14:07

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nei! Eins og jafnan áður hittir þú naglann á höfuðið Bjarni,þeir eru engir bógar til að axla ábyrgð. þá niðurstöðu má auðveldlega merkja af ósvífnum aðgerðum þeirra í fjölmiðlum “viðtölum”,sem eiga ekki sinn lika,auk alls sem matreitt er sem glamor-fréttir innlimunarsinna, sem ganga hneysklanlega gegn vilja þeirra sem kaus þessa stjórn með yfirburðum. Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 3.5.2014 kl. 21:33

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú getur rétt ímyndað þér, Helga, hvort eitthvert hald verði í þeim, sem nú þrá heitast aðild, þegar útgjöld ríkissjóðs til ESB fara að nema hálfum rekstrarkostnaði Landspítalans; þegar fyrirtækin taka að kvarta undan skriffinnskukröfum frá Brüssel;þegar erlendir togarar taka að veiða í íslenzkri lögsögu upp að 12 sjómílum samkvæmt úrskurði Evrópudómsólsins, og þeir fara að borga bændum fyrir að framleiða ekki neitt til að skapa svigrúm fyrir framleiðslu risabúa í Evrópu með því óheilnæmi, sem slíkri iðnaðarframleiðslu fylgir. 

Þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum á Íslandi, en gasprararnir, sem vilja Ísland inn með illu eða góðu, verða komnir á spena ESB, sem selur víst vel og allt skattfrítt í þokkabót. 

Bjarni Jónsson, 4.5.2014 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband