Baráttukveðjur 1. maí

Í dag, fyrsta maí, á baráttudegi verkalýðsins sendir  Vinstri vaktin gegn inngöngu í ESB öllu verkafólki á Íslandi  til sjós og lands svo og landsmönnum öllum hvatningar- og  árnaðaróskir.  Við sendum jafnframt  baráttukveðjur til verkafólks  í  Grikklandi, vöggu lýðræðis í heiminum, en það  lýtur nú miðstýrðar hagstjórnar Evrópusambandsins: Yfir 60% af ungu fólki milli 18 og 25 ára eru atvinnulaust. Alþjóða Rauðikrossinn skilgreinir Grikkland  sem „ Sosialt katastrofeområde" (félagslegt hamfarasvæði), fyrsta Vestur- Evrópuland ið eftir seinni heimsstyrjöldina.  Við sendum einnig samúðar- en jafnframt baráttukveðjur til spænsku þjóðarinnar, þeirrar  portúgölsku, og ítölsku þar sem  hagstjórnarpólitík Evrópusamabandsins krefst harkalegs niðurskurðar velferðarþjónustu og atvinnuleysi meðal ungs fólks er í kringum 50%.

Rislítil verkalýðsforysta

Sennilega hefur ris forystu landssamtaka verkalýðsfélaga , Alþýðusambands Íslands, aldrei verið lægra  en  nú. Stuðningur samtakanna við  áframhaldandi innlimunarviðræður og inngöngu í Evrópusambandið er hreint með ólíkindum.  Það er frumréttur hvers mann að geta lagt fram vinnu sína, krafta og hugvit í  þágu samfélagsins og þannig séð fyrri þörfum sínum og sinna. Þessum frumburðarrétti  telur forysta Alþýðusambandsins sjálfsagt að fórna og krefst  inngöngu í ESB.

Umsókn um aðild að ESB fór af stað á grunni kosningasvika vorið 2009 og var frá upphafi  umboðslaus bæði af hálfu þjóðar og þings.  Þó bar Alþingi gæfu til þess að setja fyrirvara og skorður fyrir  samningaferlið af Íslands hálfu. Þar voru settir tilteknir  þröskuldar fyrir varinn rétt Íslendinga sem ekki mætti á neinu stigi gefa eftir í samningaferlinu  án fyrirfram aðkomu Alþingis.

Nú hefur steytt á þessum á þessum þröskuldum og ekki verður lengra gengið nema að gefið sé eftir forræði yfir fiskimiðunum, að gefinn sé eftir réttur okkar til að stunda hér landbúnað og haga hér búsetu og matvælaframleiðslu á þann hátt sem þjóðinni sjálfri er hagkvæmast.

Ýmis fleiri atriði má nefna sem steytir á  við samþykkt Alþingis og kallar á fullveldisframsal sem þjóðin hefur aldrei gefið heimild fyrir. Það er því fullljóst að ekki verður lengra gengið í samningum við ESB nema þessir fyrirvarar verði gefnir eftir og sótt um án skilyrða.

 Það hefur hinsvegar hvorki þjóðin né Alþingi heimilað. Umsóknin er því stopp, bæði tæknilega og pólitískt.

Þjóðaratkvæði um framhald umsóknarinnar þýðir í raun að  allir fyrirvarar Alþingis séu slegnir af og sótt um án skilyrða. Það er hinsvegar krafa forystu ASÍ sem vill áframhaldandi innlimunarviðræður sem þýðir í raun eftirgjöf á öllum þeim fyrirvörum sem Alþingi hefur sett.

Var Landhelgisbaráttan  unnin fyrir gýg?

Hinn 31. ágúst 1972 flutti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra útvarpsávarp til þjóðarinnar. Hann vísaði til einróma samþykktar Alþingis og „að baki hennar stendur þjóðin öll".

 Útfærsla landhelginnar „byggist á þeirri sannfæringu, að réttur okkar til náttúruauðlinda landsgrunnsins sé í eðli sínu sá sami og til landsins sjálfs..." og hann lauk ávarpi sínu: „ Það er stór dagur á morgun. Þá stækkar Ísland. Þess dags mun minnst meðan Íslandssaga er skráð."

 Þá var Snorri Jónsson en ekki Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ

Þetta var allt fyrir tíma Samfylkingarinnar, Viðskiptaþings, Evrópustofu og Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ. Hinsvegar var Snorri Jónsson þá forseti ASÍ sem beitti sér fyrir fjölmennasta útifundi til þess tíma í Reykjavík hinn 22. maí 1973.  Yfir 30 þúsund manns mættu á Lækjartorg og lýstu yfir fullum stuðningi við útfærslu landhelginnar og mótmæltu „ innrás breska sjóhersins í íslenska fiskveiðilandhelgi".

Hver hefði séð núverandi forystu ASÍ beita sér fyrir slíkum fundi? Þess í stað ganga menn þar fremst í flokki sem heimta inngöngu í Evrópusambandið með tilheyrandi framsali á yfirráðum fiskimiðanna til Brüssel. Ég man ekki einu sinni eftir að hryðjuverkalögum Breta á Ísland 2008 hafi verið mótmælt í þeim ranni.

 Íslendingar létu ekki deigan síga

Matthías Bjarnason varð sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Matthías var kjarkmaður mikill og fylginn sér. Hinn 15. júlí 1975 skrifaði hann undir reglugerð um að fiskveiðilögsaga Íslendinga skyldi færð út í 200 sjómílur. Algjör þjóðarsamstaða var um útfærsluna. Í ræðu sem Matthías hélt þá segir m.a.:

„Með gildistöku hinnar nýju reglugerðar er allt hafsvæðið út í 200 sjómílur frá grunnlínu allt í kringum landið lýst lögsögusvæði Íslands. Frá þeim tíma er því öll veiði erlendra skipa innan 200 mílna markanna óheimil samkvæmt íslenskum lögum nema til komi sérstök heimild veitt af íslenskum stjórnvöldum".

Lífbelti þjóðarinnar

Varðveitum lífbeltin tvö" sagði Kristján Eldjárn forseti í nýársávarpi 1972, gróðurinn til landsins og fiskimiðin fyrir ströndinni.

Það kostaði blóð, svita og tár að ná fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. En þjóðin stóð sameinuð í baráttunni.

Þeir sem nú vilja halda áfram aðlögunarsamningum, innlimunarferlinu í ESB, „kíkja í pakkann", vita að það verður ekki gert nema fyrst séu gefnir eftir fyrirvarar Alþingis frá 2009, m.a. vegna sjávarútvegsins.

Þeir sem stóðu í landhelgisbaráttunni og lögðu  líf sitt undir í stríði við stór og fullkomin erlend herskip hefðu aldrei trúað því þá að aðeins 40 árum seinna risi upp hávær hópur, jafnvel  heill stjórnmálaflokkur, forystumenn í atvinnulífi og verkalýðshreyfingu, sem litu á fullveldisbaráttuna sem hagsmunastríð fyrir einstakar atvinnugreinar sem þeir væru reiðubúnir að fórna.

Stefna forystu ASI í Evrópusambands málum gengur því í berhögg við hagsmuni og vilja íslensks verkafólks, íslensku þjóðarinnar.

Svar ESB hefur alltaf verið ljóst

„Ríki geta ekki staðið fyrir utan sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gangi þau í sambandið" sagði  Thomas Hagleitner  fulltrúi stækkunardeildar Evrópusambandsins á þingmannfundi í Hörpunni nýlega. Og það er ekki í fyrsta sinni sem fulltrúar ESB árétta þá kröfu sína.

Þeir sem nú kalla eftir áframhaldandi samningum og heimta um það þjóðaratkvæðagreiðslu eiga  að hafa kjark til  að segja beint:  við erum reiðbúin að fórna forræði okkar á auðlindunum, við viljum bara fá að ganga í Evrópusambandið og undir það ertu beðinn að skrifa.

Fullveldi þjóðarinnar æðra öllu

Þessi ríkisstjórn sem nú situr og meirihlutinn sem hún styðst við var kosin  til að hætta aðildarviðræðunum og að Alþingi  afturkalli umsóknina. Við það ber henni að standa.

Sú forysta verkafólks sem talar fyrir framsali fiskimiðanna, sem talar fyrir upptöku hagstjórnar Evrópusambandsins, sem kallar  á atvinnuleysi yfir íbúa fjölda ríkja sambandsins  er ekki forysta sem starfar fyrir hagsmuni  hinna vinnandi stétta. Sem betur fer er fjöldi verkalýðsfélaga og meginþorri almennings í landinu sem  stendur með sjálfstæði þjóðarinnar og hafnar  hagstjórnar og atvinnustefnu Evrópusambandsins.

Með baráttukveðjum, Jón Bjarnason

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband