Umboðslausir ESB sinnar

Nokkur hundruð umsagnir hafa nú borist utanríkismálanefnd vegna tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn að ESB til baka. Það er ekki nema gott um það að segja að einstaklingar komi þannig að lýðræðislegri umræðu um stefnu Alþingis þó nokkurs misskilings virðist á stundum gæta þar sem fólk sendir órökstudda skoðun sína: 

Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar um að draga til baka umsókn um veru landsins í ESB er mikið óráð. Það er alrangt að það sé fyrirfram gefið hvað kemur út úr tillögunum og ef núverandi ríkisstjórn treystir sér ekki til að vinna að málinu af heilindum er ekkert sem mælir gegn því að leggja málið á ís.

Hér og í miklu fleiri umsögnum lýsir viðkomandi skoðun sinni og mætti ætla að umsagnir til þingsins væru þá einhverskonar atkvæðagreiðsla eða samin með atkvæðaskýringar þingmanna að fyrirmynd. En það eru fleiri hliðar á umsögnum þessum. 

Allmörg félög álykta um málið fyrir hönd félagsmanna sinna án þess að hafa í reynd til þess nokkurt umboð. Málið hefur jafnvel ekki verið tekið upp á fundum enda langt utan þess sem viðkemur hlutverki viðkomandi félags. Hafi farið fram umræða t.d. stéttarfélaga um nauðsyn þess að félag beiti sér í þessu tiltekna máli er vitaskuld ekkert við því að segja að félagið og framámenn þess geri það. En þegar einstakir formenn eða fámennar stjórnir senda frá sér ályktanir án undanfarandi umræðu er um algerlega marklausan gerning að ræða.  

Gott dæmi um slíkt er ályktun stjórnar Rithöfundasambandsins sem skorar á Alþingi að hafna umræddri tillögu þar sem hún gangi gegn kosningaloforðum núverandi stjórnarflokka. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir og fleiri en einn af félögum í RSÍ hafa opinberlega rökstutt að flokkarnir standi þá aðeins við boðaða stefnu sína og loforð að þeir samþykki tillöguna. Það kemur ekki fram hversu margir af nefndum stjórnarmönnum kusu umrædda stjórnarflokka. Þá er vandséð að rithöfundar gangi í rithöfundasamband til þess að berjast með eða móti aðild að ESB. Til þess eru önnur félög.

Jón Bjarnason fv. ráðherra skrifar á heimasíðu sinni um umsögn formanns BHM sem skrifuð í nafni allra félagsmanna þó svo að ekkert í stefnu eða markmiðum BHM gefi tilefni til að samtökin taki afstöðu í svo viðkvæmu máli. Jón segir m.a. 

Þegar litið er yfir ályktanir einstakra félaga og stjórnar BHM lúta þær fyrst fremst  að menntun, starfskilyrðum og kjaramálum félagsmanna einstakra fagstéttarfélaga.

Þess vegna kemur verulega á óvart að formaður BHM sendi inn umsögn  í nafni samtakanna um þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknarinnar að ESB sem nú liggur fyrir Alþingi. Ekki síður vekur það furðu að í umsögninni án rökstuðnings er hvatt til áframhaldandi aðlögunarferils að ESB og afturköllun umsóknarinnar mótmælt.  Umsóknin að ESB var komin á endastöð og verður ekki haldið áfram nema að gefnir verði eftir fyrirvarar sem Alþingi setti. Það þýðir í raun ný umsókn um aðild að ESB án skilyrða.

Á heimasíðum BHM eða einstakra aðildarfélaga þess  get ég hvergi séð að  minnst sé  á ályktun eða afstöðu til umsóknarinnar að Evrópusambandinu. Umsögn formanns BHM  í nafni samtakanna til stuðnings ESB umsókninni er því með hreinum ólíkindum. 

 -b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband