Djúpmið Þorsteins Pálssonar
27.4.2014 | 12:02
Þorsteinn Pálsson pistlahöfundur á Fréttablaðinu skrifar reglulega í Fréttablaðið um ágæti þess að Ísland gangi í ESB og tekur þar æði oft djúpt í árinni þó ekki sé á nein djúpmið róið. Í síðasta pistli lofar hann mjög þá umræðu sem verið hefur undanfarna mánuði fyrir það hvað hún hafi verið miklu dýpri og merkilegri en umræðan næstu ár þar á undan - sem hann segir að hafi einkennst hafi af hræðsluáróðri!
Þessu næst kemur umfjöllun um sjávarútveg og þá miklu möguleika sem þar kunna að leynast með inngöngu í ESB. Einkanlega telur Þorsteinn að sambandið gæti orðið heilladrjúgt Íslendingum í samningum um alþjóðlega deilistofna. ...gæti verið sterkara að hafa sambandið allt að baki Íslandi, til dæmis gegn Norðmönnum og Rússum? Þetta þarf að skoða betur."
Hér eins og oft áður í pistlum Þorsteins tæpt á stóru máli með hreinum blekkingum. Staðreyndin er að einstakar þjóðir eiga ekki aðild að deilistofnum sinnar fyrrverandi lögsögu - sú aðild er öll í hendi ESB og það er ekki einu sinni tryggt að Íslandi innan ESB væri alltaf hagur í þeim ávinningum sem ESB tækist að semja um fyrir hönd aðildarríkja sinna. Kannski teldist umræddur deilistöfn innan íslenskra 200 mílna fornhelg eign annarra þjóða.
Ástæðan er hin kostulega regla sambandsins um hlutfallslegan stöðugleika" sem gerir einmitt alls ekki ráð fyrir að fiskistofnar færi sig eða breytingar verði í náttúrunni eins og orðið hefur t.d. með aukinni makrílgöngu við Ísland. Þjóð sem á sína efnalegu velferð undir náttúrunni er harla illa sett undir skrifræðislögum sem gera ráð fyrir að ekkert breytist í náttúrulegri fiskgengd. Saga Íslands er saga breytinga í náttúrunni, ekki stöðugleika. Reglan um "hlutfallslegan stöðugleika" er óhagstæð íslenskum hagsmunum.
En í stað þess að ræða þetta mál víkur pistlahöfundur næst að því hversu ágætt það geti verið fyrir Íslendinga að heimila erlendum útvegsfyrirtækjum að kaupa upp íslenskan sjávarútveg eins og frjálshyggjan hér á landi hefur lengi barist fyrir.
Staðreyndir varðandi stöðu Íslands í sjávarútvegsmálum eru margstaðfestar í skýrslum nú síðast þeirri sem ESB sinnar hömpuðu mjög og gefin var út af Alþjóðamálastofnun HÍ. ESB andstæðingar gagnrýndu margir sama pappír og töldu 'ef og ske og kannski' kafla hennar vafasama fræðimennsku.
En burtséð frá þeirri deilu er athyglisvert að skýrsluhöfundar ganga ekkert að því gruflandi að með inngöngu afsala Íslendingar sér yfirráðum yfir íslenskri landhelgi allt að 12 mílum! Með samningum og undanþágum gætum við haldið 12 mílunum. En það er þó ekki víst og hvenær sem er getur ESB tekið aftur það sem gefið er í samningum, eins og skýrsluhöfundar staðfesta:
Ef Ísland gengi í ESB og fengi engar varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni yrði niðurstaðan í megindráttum sú að hægt væri að koma í veg fyrir að fiskveiðiskip annarra aðildarríkja ESB hefðu aðgang að hafsvæðum innan 12 sjómílna markanna. Meginreglan um hlutfallslegan stöðugleika kæmi að mestu leyti í veg fyrir að önnur aðildarríki fengju úthlutað aflaheimildum í íslenskri lögsögu. Eftir að ráðherraráðið hefur ákveðið heildarafla úthlutar Ísland aflaheimildum eftir eigin kerfi. Aftur á móti verður að benda á að sjávarútvegsstefna ESB er byggð á afleiddri löggjöf. Því er formlega séð hægt að breyta henni svo lengi sem breytingarnar eiga sér stoð í stofnsáttmálum sambandsins."
Á meðan grugga ESB sinnar í grunnslóð og þar gildir svikalaust að þeir gusa mest sem grynnst vaða./-b.
Athugasemdir
Það sem Þorsteini Pálssyni og öðrum ESB-sinum yfirsést, kannski viljandi, er að ESB elítan gæti vel hugsað sér að nota íslenska landhelgi og deilistofna í skiptimynt fyrir sitthvað annað t.d. frá Norðmönnum og/eða Rússum s.s. olíu og gas.
Tómas Ibsen Halldórsson, 28.4.2014 kl. 10:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.