Hænsnakjöt og brokkólí
25.4.2014 | 11:35
Þeir sem halda að Evrópusambandið gangi út á það að fátækt fólk geti keypt ódýrt hænsnakjöt og brokkólí ættu að skoða valdabaráttuna og hrossakaupin sem nú gerst harðari með degi hverjum í Brussel. Kosningar eru i nánd og athygli vekur að helstu forkólfar allra flokka sem í harmóníu tala um hágæði Evrópusambandsins geta varla fundið sér neitt til að vera ósammála um - enda markmiðið aðeins eitt: sameinuð Evrópa.
Hitt vegur þyngra og um það er ekki kosið, en það er valdaplottið og -skákin sem fer fram bakatil. Hver á að fá hvaða sneið af þessari tertu sem öll er á hæðina? Um þau embætti - embættin sem öllu ráða - er ekki kosið af sauðsvörtum almúga, atvinnulausum og þrekuðum á Spáni, Grikklandi, Portúgal eða Ítalíu. Eða hvar sem vera vill. Nei, aldeilis ekki - lýðnum kemur það ekki við hver ræður og mega menn hópast á alla Austurvelli gjörvallrar álfunnar þess vegna og kalla eftir réttlæti.
Sem betur fer er allt útlit fyrir að frambjóðendur andstæðir Evrópusambandinu komi vel út úr komandi kosningum - í Evrópu er fólk nefnilega að vakna til vitundar um að bandalagið hefur ekki fært fjöldanum öllum, hinni breiðu fylkingu hins venjulega vinnandi manns, neitt nema hörmungar og óréttlæti. Enda hleður sambandið undir fjármagnseigendur, stórkapítal heimsins, bandalög arðræningja og kúgara. Það er merkilegt að fólk sem telur okkur andstæðinga aðildar einangraða afturhaldsseggi skuli ekki hafa tekið eftir því hvernig línurnar liggja ytra í þessum málum, hvernig straumvötnin renna. Og þó - það er ekki nema von, menn eru of uppteknir af því að skoða verð á hænsnakjöti og brokkólí á Spáni og stofna flokka út úr öðrum - annað kemst ekki að hjá fólki sem situr á súputeningi og heldur sig horfa þaðan vítt.
- gb.
http://www.bbc.com/news/world-europe-27114440
Athugasemdir
Já eins og hunangsbóndinn í Eisenstadt austurríki, sem mátti ekki selja sína eigin framleiðslu á hunangsheilsutöflum, hann var skikkaður til að kaupa slíkt af stórfyrirtækjum í Þýskalandi, fjöldaframleitt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.4.2014 kl. 13:35
Endilega köstum fullveldinu fyrir heimtufrekjurnar svo við getum kannski troðið í okkur ódýrari hænsnalöppum endrum og sinnum. En hvað með ódýru íslensku mjólkina og hlægilega ódýru íslensku kartöflurnar sem enginn kartöflubóndi getur hugsanlega lifað af að rækta og selja? Ætli fólkið í landsölunni geti útskýrt það?
Elle_, 25.4.2014 kl. 18:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.