Jón Bjarna: ESB málið og borgarstjórnarkosningarnar

Oddvitar stærstu flokkanna þeir Halldór Halldórsson hjá Sjálfstæðisflokki og Dagur B. Eggertsson hjá Samfylkingu eru miklir ESB-sinnar. Hjá stjórn Sambands sveitarfélaga er Halldór formaður og Dagur varaformaður. Á þeim vettvangi beittu þeir sér fyrir sérstakri hvatningarsamþykkt til stuðnings ESB umsókninni.

 

Það er nokkuð óvenjulegt að sveitarfélögin blandi sér svo með beinum hætti í tiltekið landsmál sem var kosið um í síðustu Alþingiskosningum og klár niðurstaða fékkst í. Borgarstjórn Reykjavíkur fór nýlega beint inn í málið. Meirihluti hennar lýsti yfir stuðningi við umsóknina að ESB og skoraði á ríkisstjórnina að draga til baka ákvörðunina um afturköllun hennar.

 

Þar eru fremstir í flokki Dagur B. Eggertsson og Samfylkingin öll þar með talið „Litla samfylkingin“, Björt framtíð svo og fulltrúi Vinstri grænna, Sóley Tómasdóttir. En hörðustu ESB sinnunum þykir ekki nóg að gert og heimta sinn hægrisinnaða ESB flokk. Hafa þar hæst ýmsir sem höfðu áður talist til Sjálfstæðisflokksins. Þeim hinum sömu mun hafa komið það á óvart í nýrri skoðanakönnun, að þetta nýja framboð tæki fyrst og fremst fylgi frá ESB flokkunum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og jafnvel frá Vinstri grænum.

Athygli vekur að beinn stuðningur við slíkan flokk er einungis hjá um 20% kjósenda, sem er hliðstætt hlutfall og hefur undanfarin misseri lýst eindregnum stuðningi við inngöngu í ESB.

 

Alþingi verður að afturkalla ESB-umsóknina

 

Núverandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru kosnir í síðustu Alþingiskosningum út á stefnu og loforð um að hætta aðildarferlinu og afturkalla umsóknina. Að sjálfsögðu áttu þeir að efna það loforð strax að kosningum loknum. Í stað þess hefur málið væflast ótrúlega fyrir ríkisstjórninni í allan vetur og hún hefur boðið heim spjótslögum úr mörgum áttum. Það er hinsvegar lífsspursmál fyrir ríkisstjórnarflokkanna að klára þetta mál nú í vor. Annars munu þeir bæði tapa trúverðugleika og standa frammi fyrir enn meiri upplausn og innbyrðis svikabrigslum vegna þessa máls en Vinstrihreyfingin grænt framboð steypti sér í þegar forysta hennar brást kjósendum sínum.

 

Evrópusambandsumsóknin getur ekki haldið áfram óbreytt. Hún fór andvana af stað og varð bæði pólitískt og tæknilega endanlega stopp í nóv. 2011. Og þótt bæði Össur og Steingrímur reyndu að blása lífi í hana á árinu 2012 vissi ég sem fyrrverandi ráðherra að það var vonlaust. Það var í raun aldrei þingmeirihluti fyrir umsókninni og þeir fyrirvarar sem voru blessunarlega slegnir í greinargerð með samþykkt Alþingis í júlí 2009 voru skýrir. Yfir þá þröskulda yrði ekki stigið í neinu skrefi samningaviðræðna. Þess vegna var sjávarútvegskaflinn t.d. aldrei opnaður. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að „samningum“ eða aðildarferlinu verður ekki haldið áfram nema að Alþingi samþykki fyrst að fella niður alla fyrirvara sem það sjálft setti. Áframhald viðræðna krefst þess í raun að allir fyrirvarar Alþingis verði felldir niður.

 

Þegar fyrrverandi ríkisstjórn gerði hlé á aðildarviðræðunum 14. janúar 2013 var það vegna þess að ferlið sem slíkt sat fast. Menn geta gleymt þeim barnaskap sem sumir halda fram að hlé hafi verið gert af tillitssemi við Vinstri græna fyrir komandi kosningar. Samfylkingin sem hluti af hrunstjórninni hafði slitið stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í janúar 2009 vegna þess að hann hafnaði kröfunni um að sækja um aðild að ESB.

 

ESB umsóknin er eina mál Samfylkingarinnar og fyrir þann flokk reið á að ESB umsóknin væri á lífi í alþingiskosningum. Annars var flokkurinn málefnalaus eins og kom á daginn þegar Samfylkingin fékk aðeins um 12 % fylgi. Umræðan um nýjan hægri sinnaðan ESB flokk er því ekki hvað síst beint gegn Samfylkingunni sem að mati ESB sinna stóð ekki við kosningaloforð sitt frá 2009 um aðildarsamning við ESB. Hitt er svo sjálfstæð ákvörðun hvort á einhverjum tímapunkti verði samþykkt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er beint: vilt þú ganga í ESB eða ekki? Hins vegar er ekkert sem kallar á slíkt.

 

Við erum ekki á leið inn í Evrópusambandið. Við munum áfram treysta á fullveldi okkar til að byggja upp gagnkvæm tvíhliða samskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum.

 

Gleðilegt sumar!

 

Jón Bjarnason

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ef ríkisstjórninn gugnar þá er hún búinn það er ekkert öðruvísi. ESB málið var hennar tromp og atkvæðin streymdu inn vegna þess. Stundum treysti ég ekki Bjarna en hverjum er hægt að treysta í pólítíkinni síðan JB var rekin með ofbeldi. Segið svo að stjórarskráinn og lög um ráðherraábyrgð hafi ekki verið brotin þá ásamt Landráði af fyrstu gráðu. ''Grand treason''

Valdimar Samúelsson, 24.4.2014 kl. 12:39

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ja, er nokkru við þetta að bæta? Það sem Valdimar er að segja blasir við manni!!

Eyjólfur G Svavarsson, 24.4.2014 kl. 15:41

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hægt að taka undir þennan pistil að flestu leyti.  Ríkisstjórnin tók gott skref með því að óska hlutlægrar rannsóknar á umsóknarferlinu.  Skýrsla HHÍ leiddi ýmislegt nýtt í ljós fyrir almenning, t.d. að umsóknarferlið var sveipað blekkingarhjúpi og í raun hafði það steytt á skeri skilyrðanna, sem JB nefnir um sjávarútvegsmál.  Alþingi er nú með málið, og vonandi ber það gæfu til að samþykkja þingsályktunartillöguna um afturköllun hinnar gæfusnauðu umsóknar.  Stofnun nýrra stjórnmálaflokka á ekki að hafa nein áhrif á ákvörðunarferlið.  Samþykkt borgarstjórnar er langt fyrir utan umboð hennar.  Hún var ekki kosin til að taka afstöðu til aðildar Íslands að ESB.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 24.4.2014 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband