Draumurinn um evru er tálsýn
23.4.2014 | 11:47
Evran er sú tálbeita í áróðri ESB-sinna sem mest er veifað. Sá áróður hefur margar hliðar. Í gær bentum við á að evran er spennitreyja sem er við það að bresta. Í dag víkjum við að þeirri augljósu blekkingu að við getum losnað úr fjármagnshöftum með inngöngu í ESB og upptöku evru.
Hörður Ægisson fjallar um þetta mál með skýrum rökum í Mbl. 10. apr. s.l. Hann bendir á að skýrsla Alþjóðamálstofnunar sýnir fram á að afnám fjármagnshafta og aðild að ESB og upptaka evru eru tveir aðskildir hlutir. Ísland getur ekki orðið hluti af ERM II-samstarfinu, formlegu aðlögunarferli að upptöku evrunnar, fyrr en höftin hafa verið afnumin. Þar er engin aðstoð í boði af hálfu Evrópska seðlabankans - nema það sé pólitískur vilji fyrir því að ríkið taki risalán í evrum til að hleypa út erlendum krónueigendum.
Í skýrslunni er fullyrt að Ísland ætti að geta tekið upp evru á aðeins 2-3 árum eftir að gengið er inn í ERM-II ferlið. Ekki er hins vegar gerð nein tilraun til þess að útskýra þann lærdóm sem evruríkin hafa dregið eftir fjármálakreppuna. Þá kom í ljós að mörgum evruríkjum var hleypt inn í ERM-II á fölskum forsendum. Engar líkur eru á að Íslandi yrði veitt heimild til að ganga inn í ERM-II á sama tíma og landið glímir við djúpstæða greiðslujafnaðarkreppu.
Fengi Ísland inngöngu í ERM-II þá er jafnframt ljóst að Seðlabanki Íslands þyrfti að bera hitann og þungann af því að verja gengi krónunnar innan 2,25% vikmarka gagnvart evru - að minnsta kosti í tvö ár. Slíkt yrði hægara sagt en gert og útheimtir talsvert handafl í formi gjaldeyrisforða. Skuldsettur forði Seðlabankans kæmi þar að litlu gagni.
Upptaka evru við núverandi aðstæður á Íslandi er tálsýn - og beinir sjónum okkar frá óleystum vandamálum heima fyrir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.