Að hugsa á heimsvísu og bregðast við á heimaslóð
21.4.2014 | 12:38
Umræða um heimsviðskipti er oft furðu gagnrýnilaus. Það er helst að vinstri menn og umhverfisverndarsinnar (oft fara þau lífsviðhorf saman) bendi á galla við að líta á viðskipti landa á milli sem blessun eina. Sú umræða getur líka farið út í öfgar, rétt eins og ,,heimsviðskiptafrelsisumræðan". Það má hins vegar benda á ákveðna veikleika í viðskiptum milli landa, bæði út frá mannréttindasjónarmiðum og eins út frá umhverfissjónarmiðum. Oft eru vörur fluttar um langan veg gersamlega að óþörfu, til dæmis matvara sem mjög auðvelt er að framleiða í hverju landi fyrir sig, stundum á jafn hagkvæman hátt og enn oftar á jafn hagkvæman hátt ef litið er til sparnaðar á orku sem fer í flutninga.
Hvað er það sem veldur að fólk vill frekar kaupa innfluttar vörur, hvort sem þær eru jafn góðar og varan sem framleitt er í heimalandinu eða sem hægt væri að framleiða í heimalandinu? Jú, yfirleitt er það til þess að fá lægra vöruverð en stundum til að fá vörur sem ekki eru fáanlegar á heimaslóð. Það að lágt vöruverð sé alltaf réttlætanlegt er hugsunarháttur sem hefur á seinustu árum sætt æ meiri gagnrýni. Einkum hefur verið litið til fjarlægra heimshluta þar sem fataframleiðsla heimsþekktra fyrirtækja hefur verið byggð á hreinu þrælahaldi, fataverksmiðjum sem greiða smánarlaun, ef einhver, þar sem aðbúnaður fólks, oft barna, eru ömurlegur og oft eru þetta líka dauðagildrur, eins og fréttir hafa sagt okkur. Önnur hlið á þessari vitunarvakningu eru svokallað ,,fair trade" þar sem margt fólk er fúst að greiða hærra verð fyrir vörur, til dæmis kaffi, sem flytja verður úr fjarlægum heimshlutum, ef það telur sig hafa vissu fyrir að framleiðandinni njóti góðs af en arðurinn fari ekki allur til milliliða. Af sama meiði að hluta er vaxandi áhugi fólks að versla beint við framleiðanda, svo sem bændur á heimaslóð, bæði til að þekkja uppruna vörunnar og geta rakið gæðin, en einnig til að skera niður kostnað sem fellur annars til milliliða.
Í umræðu um viðskipti innan Evrópusambandsins eru sams konar vangaveltur uppi. Það hefur því miður gerst að blómlegur búskapur á heimaslóð hefur lagst af vegna þess að stórfyrirtæki kjósa að framleiða matvöru með verksmiðjusniði og láglaunavinnuafli á einum stað og flytja síðan vöruna um langan veg með ómældum, neikvæðum umhverfisáhrifum.
Dýraverndarmál eru svo sannarlega ekki í lagi hjá öllum stórframleiðendum og þrátt fyrir afar umfangsmikið regluverk um hollustu matvæla er gríðarlega margt óheppilegt leyft sem er miður hollt, svosem óþarflega mikið magn skordýraeiturs og önnur efni við framleiðslu. Sömuleiðis vill það brenna við að þessir sömu stórframleiðendur nýta sér flókið styrkjakerfi ESB út í ystu æsar í krafti stærðar sinnar og fjölda lobby-ista sem þeir hafa í þjónustu sinni. Þetta er gagnrýnt víða í Evrópu en þessi gagnrýni virðist tapast í hafi á leiðinni hingað til Íslands. Það er í raun til háborinnar skammar ef lágt vöruverð fengið með gagnrýniverðum leiðum er í sumra augum mikilvægasta kjarabótin sem illa launaðar stéttir á Íslandi geta fengið. Þetta viðhorf bendir til þess að verklýðshreyfingin sé ekki að vinna vinnuna sína.
AB
Athugasemdir
Mjög athygliverðar pælingar. Við þyrftum til dæmis ekki að flytja inn grænmeti ef rafmagn væri selt til garðyrkjubænda á sama verði og til álvera. Og spara þannig ómældan gjaldeyrir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.4.2014 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.