Óðurinn til frelsisins
16.4.2014 | 12:02
Hver á sér fegra föðurland
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?...Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.
Þannig kvað hin þingeyska skáldkona Unnur Benediktsdóttir Bjarklind eða Hulda eins og hún kallaði sig í Lýðveldishátíðarljóði 1944. Þessi einlægi óður til nýstofnaðs lýðveldis, til frjálsar þjóðar, er sígilt á vörum fólks er það kemur saman til baráttu eða fagnaðar og hyllir land sitt.
Enn er heil kynslóð Íslendinga á lífi sem man lýðveldisstofnunina , sem man baráttuna fyrir stækkun landhelginnar, sem man þorskastríðið og fagnaði fullum sigri að lokum.
Þessari kynslóð svíður þegar nú stígur á stokk hópur fólks, Íslendingar, forystumenn í atvinnulífi, verkalýðsbaráttu og stjórnmálum, jafnvel í menningarlífi þjóðarinnar og talar niður til fullveldisbaráttunnar og kallar landhelgisbaráttuna hagsmunastríð einstakra starfshópa. Þeir sem þar tala hæst virðast reiðubúnir að framselja það fullveldi sem forfeður okkar og formæður lögðu blóð, svita og tár í að endurheimta.
Á ýmsan hátt er orðræðan nú lík því sem var á síðari hluta Sturlungaaldar þegarmenn gáfu sig á vald Noregskonungs sem deildi og drottnaði, bar á íslenska höfðingjafé og titla til skiptis og atti þeim síðan saman. Þannig vógust Íslendingar á í rúma hálfa öld. Hið erlenda vald vissi hvað það vildi og tíminn vann með því. Þórður kakali sveik kónginn og galt fyrir það með lífi sínu. Svík þú aldrei ættland þitt í tryggðum, drekktu heldur, já drekktu þig heldur í hel" voru ein eftirmæla hans. En kóngurinn gat treyst Gissuri Þorvaldssyni sem að skipan konungs stóð yfir höfuðsvörðum Snorra Sturlusonar, Sturlu Sighvatssonar, föður hans og bræðrum sem og mörgum íslenskum höfðingjum þess tíma. Ísland gekk Noregskonungi á hönd árið 1262 án þess að konungur þyrfti nokkurn tíma að senda hingað her eða erlenda sendimenn.
Stytta Jóns Sigurðssonar á Austurvelli, tákn sjálfstæðisbaráttunnar
Halldór Kiljan Laxness flutti kyngimagnaða ræðu af svölum Alþingishússins 1.desember 1935 þar sem hann fjallaði um hina eilífu fullveldisbaráttu Íslendinga:
Ég held að það sé ekki til ein mynd sem skýrir öllu betur frelsisbaráttu íslendínga á síðastliðnum öldum en myndin af Jóni Sigurðssyni hér á Austurvelli. Það er eingin flókin heimspekileg skilgreiníng á óhlutkendu hugtaki, heldur mynd af manni sem líf hans var holdgun þjóðviljans íslenska, vilja íslensks almenníngs til að varpa af sér erlendri yfirdrotnun, oki og hlekkjum............
Laxnes rifjaði upp nokkur nöfn í frelsisbaráttunni:
Áður en vér höldum leingra, er oss skylt að bera oss einnig í munn nöfn annarra þeirra manna sem fremstir stóðu í baráttu liðinna alda fyrir frelsi voru, oss bera að nefna nafn Jóns Arasonar sem lagði höfuð sitt undir öxina í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands, og frá öldinni sem leið ber oss einnig að minnast bæði Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna, sem á öndverðum dögum Jóns Sigurðssonar beittu sér fyrir velferðarmálum þjóðarinnar og vöktu hana til baráttu".
Umboðsmenn kúgunarvaldsins"
Enn hélt skáldið áfram:
Fullveldi íslenska ríkisins, sem var viðurkent 1918, var rökréttur árángur af starfi allra þessara manna. En um leið og vér hugsum til þeirra allra með lotníngu og þakklæti erum vér einnig minnugir hins sögulega lögmáls, að erlendu kúgunarvaldi hefur aldrei tekist að halda þrælatakinu á neinni þjóð nema því aðeins að þetta útlenda kúgunarvald ætti sterka málsvara, leppa eða umboðsmenn innan þjóðarinnar sjálfrar. Þetta hefur svo til geingið hjá oss í sögu fortíðarinnar, einsog hjá öðrum þjóðum sem lotið hafa erlendu kúgunarvaldi, og það mun einnig svo til gánga í nútíð og framtíð: Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innnanlands. Þessir menn eiga sitt lángfeðgatal í sögu þjóðarinnar eingu síður en frelsishetjurnar. Nafn Gissurar Þorvaldssonar er þeirra nafn, ætt þeirra hans ætt.
Athugasemdir
Hættulegustu óvinir Íslands í dag eru íslenskir umboðsmenn sem gengið hafa innlenda peningavaldinu á hönd og reka erindi þess.
Unnur Benediktsdóttir og Halldór Laxnes hefðu aldrei gengið kúgunarvaldi LÍÚ, heildsala og júraklíkunnar á hönd og rekið erendi þess. Aldrei!
Það gera hinsvegar afturhaldssamir aular eins og Jón Bjarnson, sem virðist lifa allmikið í fortíðinni. Og þennan jólasvein gerði Vg að ráðherra!
"Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi",
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til,
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þitt létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkur bíður blómleg ey
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, -
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.
Unnur.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.4.2014 kl. 13:39
Hættulegustu óvinir Íslands er fólk sem vill afsala sér sjálfstæði landsins fyrir einhverskonar þrælkun við ESB, Hulda og Halldór Kiljan hefður litið nákvæmlega þannig á það fólk sem vill svíkja sjálfstæðið fyrir einhverskonar inngöngu í batterí sem gerðu okkur að þrælum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.4.2014 kl. 20:49
Allt rangt og sögufölsun frá a-ö.
Í fyrsta lagi var Ísland ekki ríki í nútímaskilningi 1262 og þegar af þeim sökum er allt þjóðrembingstal því viðvíkjandi irrelevant.
Í annan stað er svokölluð ,,þjóðfrelsisbarátta" eða sjálfstæðisbarátta íslendinga á 19. öld haugalyfi og sögufölsun.
Það sem gerðist var að miklar nýtiskuhugmyndir komu frá Danmörku og Evrópu um frelsi almennings og danir ætluðu að taka á eítunni hérna uppi.
Þá sá elítan og stórbændur sér leik á borði og lúskra á almenningi með þjóðrembingssvipu.
Svokölluð ,,þjóðfrelsisbarátta" gekk út á að elítan og stórbændur fengju að halda stöðu sinni og forréttindum og kúga almenning. Kúga almenning sem þeir fyrirlitu rétt eins og í dag.
Þ.a.l. var augljóslega aldrei nein þjóðfrelsis- eða sjálfstæðisbarátta í gangi. Það er nú skrítin þjóðfrelsisbarátta sem byggir á að fámenn yfirstétt kúgi almúgan og haldi nánast í þrældómi.
Vistaband hélst hér uppi í fásinni undir óganarstjórn innlendrar elítu til a.m.k 1903. 1903 fæddist almenningur sem þrælar elítunnar og framsjalla. Eða væri etv. fínna að segja fæddust í ófrelsi? Mundi það kannski síður særa fínar þjóðrembingstaugar þjóðrembinga og vikapilta elítunnar? Maður spyr sig.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.4.2014 kl. 21:57
Jón Bjarnason er frelsishetja,honum verður ævinlega þakkað hvað hann spyrnti duglega á móti landssöluliðinu. Læt þar við sitja að sinni.
Helga Kristjánsdóttir, 17.4.2014 kl. 01:43
Jón Bjarnason ætti að skammast sín fyrir að draga nöfn snillinganna Halldórs Laxness og Unnar Benediktsdóttur inn í lágkúru- og heimskulega umræðu Heimssýnar plebbanna um stöðu Ísland í samfélagi þjóða.
Halldór og Unnur voru víðsýnir og menntaðir heimsborgarar, „highly intelligent“ og sannir patriotar. Engir fáfróðir hillbillar, fullir af vænisýki og innantómri þjóðrembu eins og Jón Bjarnason og hans kumpánar.
Bíddu, bíddu, bláa ský!
bjarta morguntraf.
Vindsvalur þér vængi gaf,
vorgolan hlý
hægt þér lyftir hnjúkum af,
himinborna ský!
Meðan sólin svaf
sat ég út við haf;
hafið stundi hægt og þungt
hamraborgum í,
brjóst mitt ungt þá bifðist þungt,
blælétta ský!
Fljúgðu heim,
heim yfir hrannageim,
lítinn bæ
langt frá sæ
laugaðu í dögg og blæ,
sumardögg og svalablæ.
Móðir mín þar sefur,
morgunljósið vefur
enni hennar, brjóst og brár,
blítt og rótt hún sefur,
hún sem þúsund hefur
hlotið tregasár,
allt þó öðrum gefur:
ástarbros og tár,
líf og gleði,
ljúfu geði,
krafta og æviár.
Meðan tárið tefur
tært á rósarkinn
láttu blakta um ljórann inn
ljósa sumarfeldinn þinn;
henni segðu harminn minn.
Löngun mína
láttu skína
líkt og geisla um gluggann inn.
Ennþá man ég æsku mína,
engu blómi skal ég týna!
ennþá finn ég ástarmjúka
arma strjúka
enni mitt sem blíðvindi
af bládýpi rynni,
öll þau hjartans hlýindi
hef ég geymd í minni.
„Leiðist mér langdegi“
líf mitt þreytir óyndi
síðan ég kvaddi Sóldali
síðasta sinni,
„segðu það minni,
segðu það móður minni.“
Hulda.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.4.2014 kl. 07:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.