Algengur misskilningur

Þeir sem ekki vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið fá oft að heyra rök á borð við þau að flestar þjóðir í Evrópu séu innan ESB og uni hag sínu vel þar. Rangt! Í flestum ESB löndum er andstaða við aðildina, sums staðar mikil, og þar sem rammast kveður að henni er jafnvel talað um hvernig megi segja sig úr ESB og er umræðan í Bretlandi undanfarin misseri gleggsta dæmið um það.

En þótt við setjum afstöðu Breta til sambandsins til hliðar í þessum pistli, þá er vert að skoða umræðuna í nokkrum hinna landanna og um hvað umræðan þar snýst. Þess ber einnig að geta að umræðan um að bakka út úr ESB og ganga í EFTA, með eða án EES aðildar, hefur nokkuð verið til umræðu, ekki síst meðal þjóðanna sem áður voru í EFTA en gengu svo í ESB.

Þeir sem gagnrýna ESB innan ESB-landanna eru ekki endilega vongóðir um að landið þeirra gangi úr ESB. Andstaðan á flokkspólitískum grunni er þannig að flokkarnir lengst til hægri og lengst til vinstri eru almennt á móti ESB aðild en á mjög ólíkum forsendum. Röksemdir vinstri flokkanna snúast einkum um skort á lýðræði, áherslu á ESB einka- og markaðsvæðingu og sterka stöðu kapítalísku stórfyrirtækjanna innan ESB á kostnað lýðræðis og áhrifa almennings.

Atvinnuleysi og lífskjaraskerðing undanfarinna ára og þáttur ESB og evrunnar í þeirri þróun eru önnur atriði sem vinstri menn gagnrýna. Lífskjaraskerðingin í Grikklandi í kjölfar kreppunnar þar er vel þekkt og þótt Portúgal fái klapp á bakið fyrir að hafa skorið ríkisútgjöld blóðugt niður kemur það klapp ekki frá almenningi sem þurft hefur að þola lífskjaraskerðingu. Almenningur í þessum löndum er ekkert að deyja úr hrifningu yfir lífskjörum sínum.

Og áhuginn á nánari samþættingu innan Evrópu og upptöku evru í öllum ESB-ríkjunum er í járnum í mörgum ESB-ríkjum, sums staðar er andstaðan mikil. Þau ríki sem ekki hafa tekið upp evruna eru enn mjög mótfallinn auknum samruna í efnahagsmálum og upptöku en í allmörgum Evruríkjum er einnig umtalsverð andstaða, svo sem í Tékklandi, Litháen, Kýpur og Póllandi. Síðast en ekki síst þá er þorri almennings innan ESB andvígur frekari stækkun ESB, 52 % á móti en aðeins 37 % hlynnt. Allt þetta kemur fram í Eurobarometer frá því í nóvember.

En hvað er það sem veldur almenningi í Evrópu mestum áhyggjum? Hækkandi verðlag er svar lang stærsta hópsins eða 40%, 20% nefna atvinnuleysið en einnig eru það ríkisfjármál, skattheimta, efnahagsstaða heimilanna, heilbrigðis- og tryggingamál, menntakerfið og eftirlaunamál sem valda fólki áhyggjum í ESB. Sú glansmynd sem gjarnan er dregin upp af ESB og að innganga í sambandið muni leysa öll lífskjaramál er ekki sú mynd sem blasir við almenningi í þessum löndum og það ættu vinstrimenn ekki síst að hafa í huga þegar verið er að fegra lífið í ESB.

AÓB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

ÞEIR FÁ MÚTUR SEM VINNA AÐ ÞESSU-   iTALIR ERU EKKI SÁTTIR - ER EINHVER SÁTTUR ?

Erla Magna Alexandersdóttir, 14.4.2014 kl. 20:49

2 identicon

"Andstaðan á flokkspólitískum grunni er þannig að flokkarnir lengst til hægri og lengst til vinstri eru almennt á móti ESB aðild en á mjög ólíkum forsendum."

En í þessum pistli gleymist að nefna aðalástæður fyrir andstöðu hægri- og miðflokka gegn sambandinu, þ.e. missir sjálfsákvörðunar á eigin málum og auðlindum, auk bruðls og skriffinnsku, en þær ástæður vega alveg jafnþungt og ástæður vinstrimanna. Þannig að í raun er ekkert jákvætt hægt að segja um ESB.

Meðal þessara andstæðinga hefur ESB oft verið kallað "sósíalístísk þjóðfélagstilraun" og ekki að ástæðulausu, enda eru allir sósíaldemókratar (= sósíalistar í S-Evrópu, Labour í UK) hlynntir ESB. Þetta hangir saman við andstyggð þeirra á þjóðríkjum, sem þeir álíta vera í andstöðu við internationalismann. Þetta segja þeir ekki beint, en öll þeirra umræða byggist á þessu. Þegar Árni Páll og aðrir ESB-sinnar á þingi segja: "Ísland mun ekki missa fullveldið við aðild, heldur deila því með öðrum" þá er það sama og segja: "Ísland mun halda sjálfstæði sínu, en samt alls ekki". Það er ekki mögulegt fyrir neitt ríki að deila fullveldi sínu með öðru ríki. Því að þá er um innlimun að ræða og fullveldið þar með rokið út í veður og vind.

Pétur D. (IP-tala skráð) 14.4.2014 kl. 22:30

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Mikið rétt og vel sagt.

Valdimar Samúelsson, 15.4.2014 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband