Það var nú lítið mál að fá hjá þeim skítadreifarann
11.4.2014 | 11:20
Þegar ég frétti að það væri danskur maður yfir félagsbúinu hérna neðar í dalnum þá ákvað ég eða réttra sagt konan mín að láta á það reyna hvort ég gæti fengið að láni hjá þeim skítadreifara. Og ég lét ekki sitja við ráðagerðirnar einar heldur brá mér af bæ og talaði við Sören, en svo heitir sá danski. Hann tók mér vel og sagði guðvelkomið að lána mér dreifarann seinna. Hann sagði líka, hann Sören, að ég væri sniðugur að koma akkúrat núna því hann færi að hætta og þá kæmi í hans stað maður frá Frakklandi og aldrei að vita hvernig svoleiðis menn myndu bregðast við bón um skítadreifara. Eins hitti ég mann sem ég man ekki hvað heitir, á fóðurganginum, og hann sagði að það væri vel um okkur talað þarna niðurfrá þótt við byggjum á þessu örreitiskoti og við þessar hörmungaslægjur hér efra.
Ég hraðaði mér heim og sagði henni Sigríði minni frá þessu og hún varð svo glöð að hún bakaði pönnukökur og þeytti rjóma. Síðan fór ég út á tröppur og horfði norður túnið og hugsaði til þess hve dásamlegt það yrði að dreifa skít á þetta allt með nýmóðins skítadreifara.
Viku seinna fór ég aftur niður eftir og þá var sá franski mættur en Sören farinn heim. En ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af mannaskiptunum. Jean, sá franski, sagði meira en guðvelkomið að ég fengi dreifarann seinna og ég gæti jafnvel fengið slatta af skít með honum, nóg væri af skítnum hjá þeim þar neðra og hann bætti því við að hann hefði skilning á okkar hlutskipti og viðvarandi skítleysi. Ég hitti líka mjaltakonu sem ég veit svo sem ekki hvað heitir á fóðurganginum og hún sagði að það væri síst verra að vera þarna eftir að sá franski tók við og hún bætti því við (eftir að ég hafði spurt hana) að Jean talaði svo ljómandi vel um okkur í efra. Það þótti mér ljúft að heyra.
Ég hraðaði mér heim og sagði henni Sigríði minni frá þessu og hún varð svo glöð að hún straujaði af mér spariskyrtuna og sendi mig aftur niður eftir í betri fötunum. Það varð dálítið hissa að sjá mig strax aftur en talaði ósköp vel um mig og okkur öll í efra og mér skildist að ég myndi geta fengið skítadreifarann þá og þegar. Eins spurði Jean mig út í bæjarlækinn og hældi skyrtunni og þjónustubrögðunum hennar Sigríðar minnar sem hann sendi kassa af lakkrískonfekti.
Sigríður varð svo glöð með konfektið að hún gaf í skyn að hún myndi hleypa mér upp á sig en það varð minna úr því en á horfðist því Jean og bókarinn á félagsbúinu komu svo að segja í rassgatið á mér í hlað og vildu fá að líta á bæjarlækinn. Ég sýndi þeim lækinn og þeir gáfu Sigríði perubrjóstsykur og lofuðu mér skítadreifaranum á næstu dögum.
Enn fór ég niður eftir og enn hitti ég Jean. Hann sýndi mér ýmislegt mekkanó sem hann ætlar að setja upp við bæjarlækinn og búa til rafmagn og hann sagði mér að við Sigríður gætum vel komið til greina sem rafstöðvarstjórar en auðvitað þyrfti að auglýsa starfið, ekki bara í héraðsfréttablaðinu heldur um land allt. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvert hann var að fara og spurði um skítadreifarann. Hann brosti og sagði að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af honum, hann kæmi.
Sigríður var ekki eins glöð þegar ég kom til baka og þegar ég fór, því hún hafði brotið upp úr tönn og kenndi perubrjóstsykrinum um. Það kallaði á ferð til tannlæknis og útgjöld. Mér er illa tannlækna en þó enn verr við útgjöld. Þegar við komum til baka voru þeir byrjaðir að virkja bæjarlækinn. Sigríður skammaði mig fyrir að leyfa þetta en þegar ég sagði henni sem satt var að ég hefði ekkert leyft þetta sjatnaði í henni geðvonskan. Maðurinn sem var yfir virkjanagerðinni sagði okkur að það væri talað alveg einstaklega vel um okkur neðra og að þar væri altalað að við ættum að fá skítadreifarann að láni. Hann sagðist líka hafa heyrt því fleygt að við myndum fá hann með slatta af skít.
Það kom nokkuð flatt upp á mig þegar Jean hringdi rétt í þessu og sagði að þeir væru að koma með skítadreifarann til mín. Hann sagði að mér væri guðvelkomið að hafa hann í dag klukkan er reyndar að verða sex og eins mætti ég hafa hann yfir morgundaginn en ég yrði að skila honum annað kvöld. Ég benti honum á að maður stæði nú kannski ekki í skítadreifingu á aðfangadagskvöld og á jóladaginn en þá hvessti hann sig í símann og sagði að hann setti reglurnar um það hvenær hann lánaði sinn prívat skítadreifara. Ég varð auðvitað að viðurkenna rétt hans til þess. Hann sagði mér að Þjóðverjarnir sem sjá um virkjunina í bæjarlæknum hjá okkur eða þeim, eða ... já þeir ættu að taka skítadreifarann niður úr þegar þeir kæmu í mat til hans á jóladagskvöldið og hann bætti því við að þessi þýsku hjón sem þeir réðu til að sjá um rafstöðina töluðu afskaplega vel um okkur Sigríði.
Hann kom hingað með dreifarann maðurinn sem ég hitti einu sinni á fóðurganginum niður frá. Hann sagði að það væri mikill skilningur á okkar stöðu og sagði að Jean væri okkur alveg einstaklega velviljaður. Hann tók það sérstaklega fram að það væri mikil lukka með rafmagnið úr bæjarlæknum og það hefði gert gæfumuninn þegar þeir bættu við tvöhundraðþúsund hænum í eggjaframleiðsluna. Hann færði okkur jólagjöf frá Jean, það var Slönguspil og Lúdó í vönduðum kassa. Við Sigríður ætlum að láta okkur hafa það að dreifa skít í kvöld og eitthvað fram eftir jólanóttu, það er hvort eð rafmangslaust hjá okkur núna, rétt eina ferðina.
- gb.
Athugasemdir
Hahaha skemmtileg túlkun.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.4.2014 kl. 12:52
Það varð hlutskipti Íslendinga í 640 ár að leita með stjórnvaldsmál til höfuðbólsins í Noregi og síðar í Danmörku. Mér segir svo hugur um, að Sigríður muni ekki lengi baka pönnukökur og þeyta rjóma eftir að ráðslags búrókrata í Berlaymont og höfðingja í Berlín, París, London og víðar tæki að gæta á Íslandi og í lögsögunni umhverfis landið.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 11.4.2014 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.