Bananahugtök heimsvaldasinna
19.3.2014 | 11:51
Nokkur hópur manna hefur undanfarið stillt sér upp framan við Alþingishúsið og gamla fangelsið við Lækjargötu með banana í hendinni. Sumir ota honum fram eins og byssu, aðrir gera snúa þessum gómsætu aldinum í hringi. Skilaboð þessa háværa minnihlutahóps er að hér sé bananalýðveldi.
Hugtakið bananalýðveldi mun eiga uppruna sinn í Honduras en er í dag notað næsta frjálslega um öll lönd þar sem ekki er fylgt bandarískum eða evrópskum stöðlum um stjórnarfar. Ég hef sjálfur ferðast töluvert um hinn svokallaða þriðja heim og hinar vestrænu skilgreiningar á stjórnarfari þeirra landa virka oftar en ekki á mig sem rasismi og heimska. Bananahugtakið er hér notað af ellifúnum svekktum nýlenduríkjum til þess að tala niður hinn nýfrjálsa heim.
Þar með er ég ekki að mæla ofbeldisfullum stjórnarháttum eða misrétti af neinu tagi bót. En hlutverk hvers og eins jarðarbúa er þar að taka til í sínum ranni. Almenn löggæslustörf hinna rétthugsandi og vestrænu" í menningarheimum sem við höfum takmarkaðan skilning á - slíkur lögguleikur er nær alltaf til bölvunar.
Sérstök bananalönd fyrir utan Honduras eru til dæmis Úganda þar sem ég fékk um árið steikta og soðna banana í hvert mál - en aldini þetta er afar staðgóður matur. Bananaskrýtlan niður á Austurvelli gengur út á að telja þá sem hér stjórna, þau Gunnar Braga, Hönnu Birnu, Sigmund, Bjarna og öll hin álíka vitlaus eða spillt eða vond og hvað... stjórnarherra í Honduras eða Úganda. Þetta er vitaskuld rasismi og dónaskapur af verstu sort, ekki gagnvart ráðherrum hér heldur íbúum hinna suðlægu landa þar sem vaxa jú bananar.
Sagan sýnir okkur að þrátt fyrir brokkgenga stjórnarhætti víða í hinum fyrrum nýlendum Evrópumanna er í heildina betur á málum haldið nú en var meðan löndum þessum var stýrt af erlendum agentum gráðugra nýlenduvelda. Það sama á svo sannarlega við um Ísland sem var um aldir nýlenda Dana og þá fátækast allra landa í Evrópu.
En skoðum aðeins tilurð þessa hugtaks, hvað varð til að bananar voru tengdir stjórnmálum. Jú, bandarískur stórkapítalismi, sem birtist í fyrirtækjunum United Fruit og Standard Fruit, hafði kverkatak á stjórnvöldum í Honduras og beitti sér með ósæmilegum hætti við stjórn landsins. Ekki í þágu lands og þjóðar heldur í eigin þágu.
Hvað vill bananafólkið á Austurvelli,- jú að erlendur kapítalsimi og handbendi hans í Brusselvaldinu fari með völd á Íslandi en ekki lýðræðislega kjörin stjórnvöld.
Merkilegt hvað þetta smellur eins og flís við rass! /-b.
Athugasemdir
Hér er einhver misskilningur á ferðinni. Það sem við á austurvelli höfum farið fram á er að farið verða eftir þeim fyrirheitum sem gefin voru fyrir kosningar og þjóðin fái að greiða atkvæðu um aðild. Sjálfur er ég ekkert viss um að ég segi já og er algjörlega reiðubúinn að fylgja vilja meirihluta þjóðarinnar.Það er nefnilega allt eins verið að verja rétt til að segja Nei og Já
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 19.3.2014 kl. 21:57
Páll, ríkisstjórnarflokkarnir ættu að standa við gefin loforð, og þeirra loforð var ekkert ESB, það skiptir engu máli þó að ESB aðildarsinnar hafi náð að draga upp eitt viðtal við Bjarna þar sem hann talar um atkvæðagreiðslu og 2 önnur viðtöl þar sem þekktir ESB aðildarsinnar innan xD segjast ætla að halda hana, stefna flokkanna var skýr ásamt landsfundar samþykktum, þið getið hamast eins og þið viljið við að reyna búa til ykkar eigin loforð og troða upp á flokkana en það breytir því ekki að þetta var ekki þeirra loforð.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 20.3.2014 kl. 00:12
Tek undir með mínum ágæta félaga Halldóri Björgvin hér.
Og vel endar hann, oistillinn hans "b". En hver er sá "b" ?
Jón Valur Jensson, 20.3.2014 kl. 01:34
Ég gengst við þessum staf Jón Valur.
Bjarni Harðarson, 20.3.2014 kl. 08:45
Já, góður maður þar á ferð. :)
Jón Valur Jensson, 20.3.2014 kl. 09:06
Halldór,
Ef stefna flokkana var ekkert ESB, hvers vegna að lofa atkvæðagreiðlsu?
Jean Rémi Chareyre, 20.3.2014 kl. 18:21
FLOKKARNIR lofuðu þessu ekki þó einn og einn ESB-sinni innan flokkanna hafi kannski gert það. Og skiptir það engu máli. Farið að hætta þessum lygum. Mig langar að vísa í orð verkfræðingsins Bjarna Jónssonar sem skrifar oft comment í Vinstrivaktinni: Það eru ótrúlegir einfeldningar, sem enn trúa því, að innganga í ESB geti átt sér stað á forsendum Íslendinga og að allt verði nánast óbreytt varðandi fiskveiðistjórnun og eignarhald á sjávarútveginum.
Elle_, 20.3.2014 kl. 22:00
Já, þetta eru nefnilega svo góð rök hjá þessum Bjarna: "allir sem eru ekki sammála mér eru einfeldningar"
Þetta segir margt um hugsunarháttinn hjá Vinstrivaktinni...
Jean Rémi Chareyre, 21.3.2014 kl. 19:16
Vinstrivaktin kemur málinu ekki við.
Elle_, 22.3.2014 kl. 00:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.