Aðildarviðræðurnar sigldu í strand þegar á árinu 2011

Undanfarna daga hefur verið leitt í ljós að aðildarviðræðurnar sigldu  í strand þegar á árinu 2011. Það var þó ekki fyrr en ári síðar að þáverandi stjórn gerði hlé á viðræðum af ótta við fylgishrun í kosningunum vorið 2013.

 

Upplýst hefur verið að Steingrímur J. gerði sér sértaka ferð til Brussel í janúar 2012 til að reyna að herja út úr kommissörunum í Brussel svonefnda „rýniskýrslu“ sem átti að verða grundvöllur af hálfu ESB í samningum við þáverandi ríkisstjórn um sjávarútvegsmál.

 

Enda þótt öllum væri ljóst að skýrsla þessi var löngu tilbúin var Steingrími neitað um að fá hana afhenta. Ljóst þykir að efni hennar var þess eðlis að stækkunarstjóri ESB taldi óráðlegt (hugsanlega að höfðu samráði við Össur utanríkisráðherra) að skýrslan kæmi fyrir sjónir almennings skömmu fyrir kosningar 2013 af ótta við að í ljósi þeirra krafna, sem þar komu fram af hálfu ESB, yrðu öll áform um hugsanlegan aðildarsamning endanlega hrópað niður í kosningabaráttunni sem þá var rétt að hefjast.

 

Í viðtali á sjónvarpsstöðinni ÍNN 12. mars s.l. sagði Ágúst Þór Árnason, meðhöfundur að skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar að þeim hefði í raun lokið á árinu 2011 þegar framkvæmdastjórn ESB ákvað að kynna Íslendingum ekki niðurstöðu rýnivinnu sinnar um sjávarútvegsmál. Megi draga þá ályktun að svo mikið hafi borið í milli í afstöðu ESB annars vegar og þeirra takmarkana á umboði íslensku viðræðunefndarinnar sem fyrir lágu í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis að litið yrði á það sem viðræðuslit ef sjónarmið ESB yrðu kynnt.

 

Það er því löngu orðið tímabært að hætta formlega þessum skollaleik í kringum aðildarumsóknina, hvað sem líður gráti og gnístran tanna meðal þeirra, sem gert höfðu sér vonir um að Íslendingar væru rétt ókomnir inn í ESB.

 

Öllum er ljóst að á þessu kjörtímabili mun ekkert nýtt gerast í samskiptum Íslands og ESB varðandi hugsanlega aðild. Á hinn bóginn er það beinlínis stórskaðlegt í samskiptum okkar við nálæg ríki, eins og nýlega var bent á, að litið sé áfram á Ísland sem umsóknarland að nafninu til, þótt umsóknin sé í reynd dauð. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Rétt, var einmitt að skrifa um þetta hér: http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/entry/1365368/#comment3503130

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.3.2014 kl. 12:41

2 identicon

Ísland kaus lengst af fyrri kostinn sem smáríki stendur til boða. Að halla sér upp að voldugu nágrannaríki. Bandaríkin gegndu því hlutverki megnið af lýðveldistímanum. Þeir yfirgáfu þetta litla bandalagsríki sitt endanlega 2006 og tveimur árum síðar stóð Ísland uppi algerlega einangrað á alþjóðavettvangi, úthrópað sem blóraböggull í mesta efnahagshruni sögunnar.

Strax um sumarið 2009 tók ríkisstjórn Íslands það heillaskref að rjúfa þessa einangrun með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með því að velja þann kost sem nánast öll smáríki Evrópu hafa valið til að standa vörð um sína hagsmuni. Ný ríkisstjórn er nú að gera sitt besta til að rjúfa það ferli. Enn á ný skilar það sér í algerri einangrun Íslands á alþjóðavettvangi. Nú stendur okkur bara til boða að hrópa á torgum: „Þetta er svindl!“ Enginn mun hlusta. Hvað þurfum við að fórna miklu til að núverandi valdhafar átti sig á þeirri stöðu sem við erum í?

(Magnús Á Magnússon)

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 18.3.2014 kl. 13:05

3 Smámynd: Elle_

Helgi, varstu ekki búinn að skýra fyrir Magnúsi hvað það hafi verið mikið óheillaskref?  Og að við séum ekkert einangruð á alþjóðavettvangi?  Og að það sé líf fyrir utan Brusselyfirráð?

Elle_, 18.3.2014 kl. 20:29

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Helgi ....og hver ætli beri ábyrgð á því að Bandaríkjamenn fóru,Össur með fáheyrðum dónaskap m.a. við sendiherra BNA.Ekki bætti það þegar umræða Krata barst þeim,að herinn væri hér eingöngu vegna atvinnunnar sem þeir sköpuðu Íslendingum,ekki til að verja þjóðina. Okkur kemur best að vera fullkomlega sjálfráð,og erum allstaðar velkomin sem vinaþjóð. Þegar ríkisstjórnin hefur hrist af sér hávaðasama Krata ,getur hún farið að snúa sér að þeim ótal verkefnum sem bíða hennar.---Til þess erum við í góðri stöðu,með mannauð og auðlindir.

Helga Kristjánsdóttir, 19.3.2014 kl. 00:35

5 Smámynd: Elle_

Helga, ætli Helgi eða vinur hans rugli ekki  saman vernd Bandaríkjanna og fullveldisframsali til Brussel og algerum yfirráðum, eins og einum og sama hlutnum, nema sitt hvort ríkið?  Við vitum að Bandaríkjamenn fóru en hvað það kemur yfirtöku Brussel við, veit ég ekki. 

Elle_, 19.3.2014 kl. 00:44

6 Smámynd: Elle_

Og þó Bandaríkjamenn hafi farið úr landinu, erum við samt enn með varnarsamninginn.

Elle_, 19.3.2014 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband