Guðni Ágústsson: Hvað var Össur að gaufa í Brussel?
15.3.2014 | 11:50
Enginn íslenskur ráðherra fyrr eða síðar hefur verið jafn kokhraustur og félagi Össur Skarphéðinsson. Margar myndir og viðtöl eru mér ofarlega í minni frá utanríkisráðherratíð hans. Össur var brosandi og glaður og sigurviss á fundunum með þeim stóru í Brussel, hjá Stefáni Füle og félögum.
Össur sló gjarnan í neftóbakspontu sína og bauð í nefið á báða bóga og virtist oftast vera að sigra heiminn, með spekingslegum svip. Þó sáust sjónarhorn þar sem sett var ofan í við okkar mann, ekki síst um form viðræðnanna. Ég var orðinn dauðhræddur um að Össur með snilld sinni myndi innlima Ísland í ESB á einu augabragði.
Viðræðurnar sjálfar hófust 17. júní 2010 á þjóðhátíðar- og frelsisdegi Íslands. Árni Páll Árnason var sigurviss og sagði að samningur myndi liggja fyrir eigi síðar en 2012 og þá væri hægt að klára málið, bætti hann við, og undir það tóku margir stjórnarliðar og áköfustu ESB-sinnarnir. Þá var komið að þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stóra mál, einfalt já eða nei. Þetta eru auðvitað svik við ummæli og fyrirheit.
Nú væri eðlilegt að Össur Skarphéðinsson og samninganefndin skýrði frá því hvað gerðist í viðræðunum. Hvers vegna drógust þær á langinn? Hvað var Össur að gaufa í Brussel í þrjú ár? Einhvern tíma hefði hann sjálfur talað um reykfyllt bakherbergi og brigður á fyrirheitum. Hvað gerðist, Össur Skarphéðinsson?
Hver skrökvar? Engar undanþágur í kortunum
Í viðauka við skýrslu Hagfræðistofnunar segir Ágúst Þór Árnason við lagadeild Háskólans á Akureyri: Miðaði hægt í stærstu hagsmunamálum Íslendinga, landbúnaði og sjávarútvegi, jafnvel þótt rík áhersla hafi verið lögð á það af Íslands hálfu að viðræður um þessa kafla hæfust sem fyrst.
Ágúst segir síðan:
Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann, hann sigldi í strand áður en hann komst á það stig að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann og í kjölfarið að hefja viðræður um kaflann.
Svo segir Ágúst Þór þetta: Ástæðan var sú að Evrópusambandið vildi setja viðmið um opnun hans sem hefði verið óaðgengileg með öllu fyrir Ísland.
Ágúst segir að afleiðingarnar hefðu orðið eftirfarandi ef Össur og félagar hefðu fallist á kröfu ESB: Þau hefðu falið í sér að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu ESB áður en viðræður hæfust um kaflann.
Þökk sé þeim að ég ætla Jóni Bjarnasyni, Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni, á þetta gátu þeir ekki fallist, hafa sagt hingað og ekki lengra, eða hvað? Össur hins vegar var staðráðinn ESB-sinni, hann sagði í júlí 2009 þetta á Alþingi:
Varðandi þá umræðu sem farið hefur fram um sjávarútveg vil ég segja að ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, formanni Framsóknarflokksins og hæstv. fjármálaráðherra um að við munum ekki fá neinar varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni og ég held því hins vegar fram að við þurfum ekki slíkar undanþágur.
Svo mörg voru þau orð, Samfylkingin ætlaði í ESB hvað sem það kostaði, það ætluðu Vinstri-grænir ekki. Er þeim Steingrími og Ögmundi meira í hug nú að æsa til orrustu á Austurvelli og fylgja viðræðusinnum en skýra frá því að þeir stöðvuðu viðræðurnar af þessum sökum? Með þessa kröfu ESB var ekki hægt að halda lengra. Viðræðurnar voru strand. Ekki að undra að Peter Stano, hægri hönd stækkunarstjórans, hafi flutt nýrri ríkisstjórn skilaboð í júní 2013 með eftirfarandi orðum:
En það er ljóst að þetta getur ekki verið sett á ís að eilífu. Þess vegna þurfum við að fá viðbrögð frá íslenskum stjórnvöldum sem fyrst.
Köllum fram svör við þessari spurningu
Það áttu sem sé engar viðræður, hvað þá samningaviðræður, að eiga sér stað um sjávarútveginn! Hvað þá um landhelgina sem barist var fyrir á síðustu öld með blóði, svita og tárum, stærstu sigra í sögu Íslands? Nú bið ég Össur Skarphéðinsson og þá Steingrím J. Sigfússon og Ögmund Jónasson að skýra frá því hvort þessi úttekt Ágústs Þórs Árnasonar sé samkvæmt staðreyndum.
Þeir hinir tveir síðarnefndu stefndu flokki sínum út í viðræðurnar til að fá upp á borðið rökin og staðreyndirnar, sögðu þeir. Og báðir andvígir aðild að ESB. Jafnframt bið ég þá sem leiddu samningateymin, formanninn Stefán Hauk Jóhannesson og fyrrverandi forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra Íslands, Þorstein Pálsson, að svara þessari stóru spurningu einnig.
Guðni Ágústsson
Heimild: grein í Mbl. 12. mars s.l.
Samfylkingin heldur flokksstjórnarfund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það hefur komið fram meira að segja hjá Atla Gíslasyni að meiningin hjá Steingrími var einungis að komast í ríkissjórn, prinsippinn skiptu ekki máli.
http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/entry/1277418/
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 12:37
Og þetta var árið 2012. Gætið að því. Síðan er búið að þvæla þetta mál og teygja út og suður, til þess að þurfa ekki að segja sannleikann, svo fólk skilji.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 12:41
Þegar við strandaða umsókn bætist fláræði og kúvending frá sjálfbærni til rányrkju á makríl, hvernig í ósköpunum er þá hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að nú sé rétta svarið að kasta a.m.k. 200 milljónum kr í atkvæðagreiðslu um það að halda áfram tilraunum við að koma umsókninni af strandstað og í höfn ? Meirihluti landsmanna vill ekki fara inn í þennan siðspillta klúbb, sem skeytir hvorki um skömm né heiður, þegar skammtímahagsmunir eru annars vegar. Áframhaldandi tilraun til aðlögunar að þessu fyrirbrigði er þráhyggja og fíflagangur í senn. Afturköllun meingallaðrar umsóknar er eina vitræna svarið núna.
Bjarni Jónsson, 15.3.2014 kl. 13:23
Ég hló þegar ég las eftirfarandi frá formanni mesta öfgaflokks landsins og þó leitað væri langt út fyrir landsteinana: Öfgaöfl hafa tekið stjórnina í flokkunum Hann er enn einn að halda fram þeim ósannindum að stjórnarflokkarnir hafi lofað þjóðaratkvæði um heittelskaða mál samfylkingarmanna, málið sem þeir vildu alls ALLS ekki þjóðaratvkæði um. Þau gera sig að fíflum einu sinni enn.
Elle_, 15.3.2014 kl. 19:44
Ég veit ekki hvað er milli eyrnanna á forystu Samfylkingarinnar, en það er örugglega ekki heili.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 19:51
"Spot on" hjá Guðna. Það þarf að svæla út svörin við þessum spurningum til þess að þessi ESB umræða fari að komast upp á vitrænt stig.
Benedikt Helgason, 15.3.2014 kl. 20:08
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gefur jafnan sannleikanum og/eða heilbrigðri skynsemi langt nef, þegar hann tekur til máls. Í þetta sinn dengir hann yfir fólk dylgjum, hálfkveðnum vísum og þvættingi um áhrifagirni formanna stjórnarflokkanna og svik þeirra við stefnur flokka sinna. Þetta er afspyrnu heimskulegur málflutningur, því að það er afar auðvelt að reka þetta allt ofan í hann, en það gerist náttúrulega ekki á Samfylkingarfundi eða í viðtali við fréttastofu RÚV. Maðurinn hefur orðið sér svo rækilega til minnkunar, að enginn getur nokkru sinni verið þekktur fyrir að ræða við hann um stjórnarsamstarf. Samfylking og Björt framtíð eru að mála sig út í horn. Þessir flokkar eru eitruðu peðin í íslenzkum stjórnmálum.
Bjarni Jónsson, 15.3.2014 kl. 20:10
Já ég held það svei mér þá.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 20:19
Milli eyrnanna, e-hem, ætli þar renni ekki bara tært (eða ótært) brusselskt vatn?
Elle_, 15.3.2014 kl. 21:10
Haha góð
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 21:48
Eiginlega ætti að skylda alla flokksmenn þessa öfgaflokks að vera með áfastan eða álímdan lygamæli í vinnunni.
Elle_, 15.3.2014 kl. 22:02
Er ekki einfaldast að ljúka samningaviðræðum og hætta giskinu?
Tryggvi L. Skjaldarson, 16.3.2014 kl. 09:13
Tryggvi skýrlan hans Ágústar tekur allan vafa burt og það er ekki neitt gisk.
Ég persónulega vill nota peningana sem færu í að kíkja í ljótann pakka í eitthvað betra svo sem í Heilbrigðiskerfið eða styrkja skólakerfið.
Miðað við hvað viðræðurnar taka langan tíma af því að okkar markmið eru ekki í boði þá fara fleiri hundruð miljónir ef ekki x miljarðar í málþóf og þykjustuleik.
Ef á að kjósa um eitthvað er auðvitað lang best að kjósa eins og Bjarni segir hvort að eigi að slíta viðræðum = Já eða nei því ef að kæmi nei þá er málið bara á ís því þessi stjórn vill ekki vera með þá hræsni að vera í einhverjum aðildarviðræðum að ESB sem það hefur engann áhuga á að ganga í.
Mér finnst það virðingarvert hjá stjórnini að segja það beint.
Þorsteinn Hafþórsson (IP-tala skráð) 16.3.2014 kl. 10:38
Þarf ekki að byrja á því að svara því Tryggvi L. Skjaldarson, hvers vegna samningarviðræður eru stopp, áður en hægt er að halda þeim áfram?
Benedikt Helgason, 16.3.2014 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.