Getur ríkisstjórn gert samning sem hún hyggst svo berjast á móti?

Dettur fólki í hug að ábyrg stjórnvöld undirriti samning um ESB aðild við hátíðlega athöfn í Brussel og láti klingja í kampavínsglösunum, en lýsi því svo strax yfir að þau ætli að berjast gegn því sem þau voru að undirrita? Þessa spurningu lagði forsætisráðherra fyrir fundarmenn á Viðskiptaþingi.

 

Sagt hefur verið mjög lauslega í fjölmiðlum frá ummælum Sigmundar Davíðs á Viðskiptaþingi og þá einkum fjallað um gagnrýni sem hann beindi að Seðlabankanum. En ummæli hans um ESB-umsóknina voru þó miklu athyglisverðari og varpa einkar skýru ljósi á stöðu þess máls hjá núverandi ríkisstjórn. Hér er sá kafli ræðunnar birtur í heild sinni:

 

„Ísland er ekki á leið í Evrópusambandið. Í landinu er ríkisstjórn sem er einhuga um að hag landsins sé best borgið utan sambandsins, eins og fjölmörg dæmi undanfarinna ára sanna. Umræðan um Evrópusambandið og Evrópusambandsaðild hefur hins vegar verið nokkuð sérkennileg á Íslandi undanfarin ár, svo ekki sé meira sagt.

 

Hér hefur orðið lífsseig sú sérstæða hugmynd að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að kanna hvað er í boði. Breytir þá engu hversu oft og afgerandi Evrópusambandið sjálft reynir að leiðrétta þetta og benda á að ljóst sé hvað er í boði og það sem er í boði sé ekki umsemjanlegt.

 

Varla dettur íslenskum atvinnurekendum það til hugar að það sé æskileg eða yfir höfuð framkvæmanleg utanríkisstefna fyrir Ísland að ríkisstjórn sem er alfarið andvíg aðild að ESB standi í viðræðum við sambandið með það að markmiði að koma landinu þar inn?

 

Undirriti jafnvel samning um aðild Íslands að ESB við hátíðlega athöfn í Brussel og láti klingja í kampavínsglösunum, en lýsi því svo strax yfir að þau ætli að berjast gegn því sem þau voru að undirrita? Varla dettur fólki í hug að ábyrg ríkisstjórn myndi fara með land sitt í slíka vegferð?

 

Myndi stjórn í hlutafélagi ganga frá samningi um samruna við annað fyrirtæki vitandi það að meirihluti hluthafa væri andvígur samrunanum, og ekki aðeins það heldur væri öll stjórnin, hver einasti stjórnarmaður í fyrirtækinu, andvígur samrunanum.

 

En ætlaði samt að verja einhverjum árum í að gera ráðstafanir til að undirbúa samrunanann, miða öll störf fyrirtækisins við þann undirbúning, já og undirrita svo samkomulag um samruna með fyrirvara um samþykki hluthafafundar, til þess eins að geta svo sagt: við teljum samninginn sem við vorum að undirrita ekki fyrirtækinu í hag, og að mjög óráðlegt væri að staðfesta hann.

 

Í samskiptum Íslands og ESB er ekki einu sinni um samruna að ræða heldur beiðni umsóknarríkis um innlimun. Við munum áfram eiga gott samstarf við nágranna okkar í Evrópu og efla það víðtæka samstarf sem við eigum við Evrópuþjóðir. Um leið verður haldið áfram að auka viðskipti við lönd um allan heim og hefja sókn á nýja markaði, m.a. á grundvelli fríverslunarsamninga.

 

Fríverslunarsamningur við Kína hefur vakið mikla athygli. Kínverjar gerðu fríverslunarsamning við Íslendinga, fyrsta Evrópuþjóða. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri og eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti, bæði við þjóðir í Evrópu og um allan heim.

 

Í yfirskrift þessa fundar er spurt upp á ensku hvort Ísland sé ,,open for business”. Svarið er: „Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.“ “


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ofangreind tilvitnun lýsir fullkomlega rökréttri afstöðu ríkisstjórnarinnar.  Örlög aðlögunarferlisins að ESB voru mörkuð í síðustu Alþingiskosningum.  Það er enginn vegur fyrir þá, sem bera aðild Íslands að ESB fyrir brjósti, að ætlast til þess af núverandi ríkisstjórn, að hún taki nú upp þráðinn, þar sem fyrri ríkisstjórn hvarf frá, og taki til við aðlögun Íslands að umdeildustu stefnumálum ESB hérlendis.  Aðildarsinnar verða að bíða og berjast fyrir sínum málum í næstu Alþingiskosningum. 

Geymslan eða lagerinn, sem forsætisráðherra hafði orð á, er fullveldi landsins.  Það er ekki til sölu núna. Það verður ekki fyrir hendi eftir inngöngu í Evrópusambandið, hvað sem öfugmælakveðskap um styrkingu fullveldis við inngöngu líður.  Allt slíkt tal er ábyrgðarlaust og órökstutt. 

Bjarni Jónsson, 16.2.2014 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband