Skaðlegt að láta óvirka umsókn liggja inni hjá ESB

Það er beinlínis skaðlegt fyrir Íslendinga að láta aðildarumsókn, sem þegar er dauð og ómerk, liggja áfram inni hjá framkvæmdastjórn ESB í Brussel. Á meðan Ísland er enn í hópi umsóknarríkja er það alls ekki fullgildur þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu.

 

Skýrt dæmi um þetta eru málefni norðurslóða. Það hefur mörgum komið undarlega fyrir sjónir hvað Ísland hefur lítið komið við sögu þegar fimm strandríki Norður-Íshafsins hafa fundað um Norðurskautssvæðið.

 

Ríkin fimm sem um er að ræða eru: Bandaríkin, Kanada, Grænland/Danmörk, Noregur og Rússland. Utanríkisráðherrar þeirra hafa komið saman til sérstakra funda og gefið út yfirlýsingar að þeim loknum, en auk þessara ríkja eiga svo Finnland, Ísland og Svíþjóð aðild að Norðurskautsráðinu. En nú er komið á daginn að þessi fimm ríki sem mestra hagsmuna eiga að gæta á norðurslóðum hafa markvisst haldið Íslendingum utan þessa fimm ríkja samráðshóps innan Norðurskautsráðsins vegna þess að aðildarumsókn Íslands lá inni hjá Evrópusambandinu. Ríkin fimm kæra sig ekki um að ESB nýti sér fyrirhugaða aðild Íslands til að efla bein og óbein áhrif sín innan hópsins.

 

Össur Skarphéðinsson hefur hvað eftir annað haldið því fram að aðildarumsóknin myndi styrkja stöðu Íslendinga á norðurslóðum. En Össur fer með fleipur eins og fyrri daginn. Þessu er einmitt þveröfugt farið. ESB hefur ætlað sér að nýta aðildarumsókn Íslands til að treysta sína stöðu.

 

Kjarni málsins er beinlínis sá að til þess að Ísland fái fulla aðild að ákvörðunum fimm Norðurskautslanda þarf að draga aðildarumsóknina formlega til baka. Þá yrði Ísland sjötta landið í þessum samráðshóp um málefni Norðurskautsins.

 

Einn færasti sérfræðingur í stjórnsýslumálum norðursins, Kanadamaðurinn Michael Byers, kom fram í viðtali í Ríkissjónvarpinu s.l. mánudag, 10. febrúar. Þar staðfesti hann einmitt að norðurslóðalöndin hafi ekki viljað hleypa Íslandi að viðræðuborðinu, þar sem mikilvægar ákvarðanir um stefnumótun eru teknar, af ótta við að ESB myndi gína þar yfir öllu í krafti umsóknar Íslands um aðild að ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband