Orsök evrukreppunnar er sú, að sama gengi hentar ekki öllum
12.2.2014 | 12:10
Ástæðan fyrir því að evruríkin glíma við meiri kreppu en önnur hagsvæði er einfaldlega sú að eins og sama stærð af fötum hentar ekki fyrir alla, eins hentar ekki sama gengi sameiginlegrar myntar öllum evruríkjum, stórum sem smáum, ríkum sem fátækum.
Hér á Íslandi er rekinn stífur áróður fyrir þeirri stefnu að íslensku krónunni verði fórnað og ný mynt tekin upp. Þá er evran oftast nefnd. En áróðurslið evrunnar og ESB á Íslandi verður að horfast í augu við staðreyndir. Reynslan af því að margar þjóðir með ólík efnahagskerfi noti sömu mynt er ekki góð.
Ekki bætir úr skák hér á landi, að hagkerfi okkar er tvímælalaust ólíkara sterkustu efnahagskerfum álfunnar en hagkerfi annarra Evrópuríkja. Ástæðan er sú að sjávarútvegur vegur óvenjulega þungt í efnahagskerfi okkar. Hagsveiflur hér á landi eru því ekki í miklum takti við hagsveiflur á evrusvæðinu. Evran myndi henta okkur verr en öðrum.
Hér að neðan er frétt sem birtist á mbl.is í gær. Þar fullyrðir enginn annar en iðnaðarráðherra Frakklands, Arnaud Montebourg, samkvæmt frétt AFP, að evran haldi niðri hagvexti evruríkja. Evran sé ástæðan fyrir óvenjulega litlum hagvexti á evrusvæðinu sem aftur leiðir til atvinnuleysis og vandræða. - RA
Segir evruna halda niðri hagvexti
Hátt gengi evrunnar dregur úr samkeppnishæfni franskra fyrirtækja og heldur niðri hagvexti á evrusvæðinu. Þetta segir Arnaud Montebourg, iðnaðarráðherra Frakklands, í viðtali við franska dagblaðið Les Echos síðastliðinn sunnudag. Hann bendir á að hagvöxtur á árunum 2012-2013 hafi verið 3,4% í Bandaríkjunum, 2,3% í Japan en aðeins 0,2% á evrusvæðinu.
Spurður hvort hátt gengi sé ekki gott fyrir innflutningsgreinar segir Montebourg að forgangsmál sé að efla útflutninginn til þess að draga úr viðskiptahalla við önnur ríki sem hafi verið neikvæður upp á 61 milljarð evra á síðasta ári. Evran valdi framleiðslugreinum í Frakklandi skaða í miðjum efnahagserfiðleikum í stað þess að auka samkeppnishæfni þeirra. Fara þurfi fram opinber umræða um það hvernig hægt verði að lækka gengi evrunnar.
Bendir hann á að samkvæmt franska fjármálaráðuneytinu myndi 10% gengislækkun evrunnar þýða 1,2% hagvaxtaraukningu í Frakklandi sem skapa myndi 150 þúsund fleiri störf, bæta viðskiptajöfnuðinn við útlönd og minnka hallann á ríkissjóði um 12 milljarða evra.
Ráðherrann segir Evrópska seðlabankann lítið geta gert í gegnum stýrivexti sína enda séu þeir nánast 0%. Þar með talið geti hann ekki staðið við verðbólgumarkið sitt upp á 2% enda yfirvofandi hætta á verðhjöðnun.
Athugasemdir
Rökleysa. Samkvæmt þessu hentaði íslenska krónan ekki öllu Íslandi - eða dollarinn öllum Bandaríkjunum.
Þessi rökleiðsla mundi enda í að hver einstaklngur ætti að hafa sinn eigin gjaldmiðil.
Bara eins og hvert annað rugl.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.2.2014 kl. 12:32
" Across Europe, privatization is a response to increased market liberalization required by development of the European Single Market and supporting Commission directives. It is also a response to budget deficits as member states endeavour to meet the Maastricht criteria to join a single currency."
David Parker.
Hvað ætli margar þjóðir í evrópu hafi einkavinavætt fyrir "skít og kanil" til þess eins að " lagfæra " bókhaldið og mæta kröfum myntbandalags?
Thatcher-ismar þola ekki einu sinni gagnrýni sem kemur frá bandalagsþjóðunum sjálfum, enda um heilög trúarbrögð að ræða.
L.T.D. (IP-tala skráð) 12.2.2014 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.