Hefur VG ekki fengið nóg af ESB - ruglinu?
11.2.2014 | 12:25
Vandræðagangur VG í afstöðunni til ESB-aðildar hefur leikið flokkinn grátt á liðnum árum og haft lamandi áhrif á framgang hans. Nú bætir varaformaðurinn gráu ofan á svart með því að leggja það til að gerður verði samningur um inngöngu Íslands í ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið.
Þetta kom fram á nýafstöðnum flokksráðsfundi VG. Varaformaðurinn, Björn Valur, boðaði þar opinskátt þessa stefnu, eins og sjá má á heimasíðu VG. Nú vill svo til að yfirlýsing Björns Vals gengur þvert á margyfirlýsta stefnu VG um að það samrýmist ekki hagsmunum Íslands að ganga í ESB. Frá upphafi hefur flokkurinn margítrekað þá stefnu. Hins vegar féllst VG á þá kröfu Samfylkingarinnar í seinustu ríkisstjórn að VG stæði að aðildarumsókn, enda áskildi VG sér það sérstaklega að hafa frjálsar hendur um afstöðu til málsins.
Forystumenn VG héldu því sem sagt fram, þegar fyrri ríkisstjórn var mynduð, að þeir hefðu samþykkt að sótt yrði um aðild að ESB í því skyni að kannað yrði, hvað í boði væri. Þeir gengu hins vegar aldrei svo langt að segjast ætla að gera formlegan samning við aðildarríki ESB um inngöngu Íslands í ESB. Þvert á móti héldu þeir þeim möguleika opnum að stungið yrði við fótum ef og þegar sú meginstaðreynd kæmi í ljós að samningurinn væri óaðgengilegur.
Björn Valur hefur hins vegar engan fyrirvara á afstöðu sinni. Hann gengur skrefinu lengra og vill að gerður verði formlegur samningur sem þjóðin eigi svo kost á að fella, ef henni sýnist svo. Hann hlýtur að gera sér ljóst að ríkisstjórn getur ekki gert samning um inngöngu í ESB nema hún mæli jafnframt með því að hann verði samþykktur. Öðru vísi gengur dæmið ekki upp, því að auðvitað fer ekki fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning nema sú ríkisstjórn sem við völd er hafi samþykkt samninginn svo og stuðningsflokkar hennar.
Er sú yfirlýsing varaformannsins að gera skuli formlegan samning um inngöngu Íslands í ESB í samræmi við skoðanir annarra forystumanna flokksins? Hér skal ekkert um það fullyrt. En æskilegt væri að Katrín formaður gerði opinberlega grein fyrir því hvort sú stefna VG standi ekki óbreytt að flokkurinn telji að það ekki samrýmast hagsmunum Íslands að ganga í ESB. - RA
Athugasemdir
Nei. En hinsvegar virðast flestir vera búnir að fá nóg af ruglinu og hatursáróðri hægri-öfga siðunnar svokallaðrar ,,vinstri" vaktar.
Almennilegt og málefnalegt fólk er allt á leiðinni inní ESB. Burt frá vitleysisrugli hægri-öfgamanna og kjána-própaganda.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.2.2014 kl. 12:45
Já, það er munur að vera hluti af "almennilegu og málefnalegu" fólki, eins og ESB sinnar eru.
Er ekki kominn tími til að hætta þessu helvítis lýðræðiskjaftæði og láta aðeins almennilegt og málefnalegt fólk kjósa en ekki þessa hægri öfgamenn (sem mér skilst að sé vel yfir 50% þjóðarinnar)?
Torfi Kristján Stefánsson, 11.2.2014 kl. 15:55
Ómar Bjarki ég mæli með því að þú flytjir til einhvers ESB lands en við neitum að taka við þér aftur þegar þú kemur vælandi til baka og ert búinn að fá nóg af eymdinni sem er í boði ESB...................
Jóhann Elíasson, 11.2.2014 kl. 16:41
Thatcherismar leynast víða og þá sem úlfar í sauðagæru.
Auðvaldið tók fyrrum formann VG á kné sér og er hann í miklu uppáhaldi hjá þeim.
Er BVG ekki hlaupadrengur fyrrv. formanns?
Allavega gerði BVG sér það fyllilega ljóst hvers vegna þurfti að breyta stjórnarskránni.
Blautir draumar LÍÚ um að ESB einkavæði fiskmiðin.
http://boli.bondi.is/jbl/ESB%20%20Kristjan%20Thorarinsson%20LIU%2012.5.11.mp3
Þetta vilja andsetnir aðildarsinnar, að LÍÚ mafían fái að braska með auðlindina út fyrir landsteinana.
L.T.D. (IP-tala skráð) 11.2.2014 kl. 17:04
Þetta er alveg eftir öðru hjá BVG, svikaslóðin í ESB málinu virðist engan endi hafa, heldur bara áfram.
BVG skilur engan veginn afhverju honum var hafnað í síðustu kosningum og hann skilur enn síður afhverju VG og Samfylkingin biðu sögulegt afhroð í kosningunum s.l. vor.
Að fyrrverandi formanni frátöldum hefur sennilega enginn einn unnið eins mikið að útrýmingu Vinstri Grænna og hugssjóna þeirra og þessi fyrrnefndi Björn Valur Gíslason.
Gunnlaugur I., 11.2.2014 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.