Makríldeilan er sýnikennsla í ofríki ESB
9.2.2014 | 11:39
Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB heimtar að fá að stjórna makrílveiðum við strendur Íslands og hótar refsiaðgerðum sem eru ólögmætar að alþjóðalögum ef við Íslendingar förum ekki að vilja ESB. Þetta er það sem biði okkar ef við gengjum í ESB.
Um miðjan seinasta mánuð fóru fram umræður á þingi ESB í Strassborg um þá ákvörðun Íslendinga að gera hlé á aðildarviðræðum. Írinn Pat the Cope Gallagher sem mjög hefur kvartað yfir makrílveiðum Íslendinga, hvatti forystu ESB að semja sem fyrst um aðild Íslands að ESB í því skyni að binda enda á þessa langvinnu og óþörfu deilu.
Með öðrum orðum: um leið og Ísland væri komið inn í ESB þyrfti ekki lengur að standa í átökum við Íslendinga um makrílveiðar Þá myndu stjórnarstofnanir ESB skammta okkur Íslendingum það magn af kvóta sem við mættum veiða, og ekki þyrfti þá frekar að þrasa um það mál.
Fulltrúar frá Eistlandi, Finnlandi og Króatíu tóku hins vegar annan pól í hæðina. Eistinn Indrek Tarand sagði að sú staðreynd að Íslendingar væru hikandi í afstöðu sinni til aðildar segði ekki minna um ESB en um Ísland, en Finninn og Króatinn sögðu að afstaða Íslendinga og staða þess máls græfi undan trú á ESB og stækkunarferlinu.
Sumir segja að Norðmenn séu helstu andstæðingar okkar í makríldeilunni. Vissulega eru þeir frekir og ætla sér stóran hlut í veiðunum. En þeir eru ekki í neinni aðstöðu til að segja okkur Íslendingum fyrir verkum og getað ekki hótað okkur refsiaðgerðum. En það gera forystumenn ESB. - RA
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.