Evran og ESB hafa reynst fátæktargildra
29.1.2014 | 11:51
Einn af hverjum fjórum íbúum ESB á það á hættu að lenda undir fátæktarmörkum. Sífellt fjölgar þeim sem vinna sér inn mjög litlar tekjur. Fyrir vikið eykst bilið á milli þeirra sem eru vel stæðir og hinna sem eru undir fátæktarmörkum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu. EUObserver greinir frá þessu. Vitnað er til ársskýrslunnar Social and Economic developments in 2013 sem atvinnustjóri ESB, Laszlo Andor, kynnti 21. janúar s.l.
Atvinnustjóri ESB viðurkenndi að fátækt aukist verulega og þótt atvinnuleysi hafi minnkað örlítið þá sé það ekki nóg. Eurostat, hagstofa ESB, telur að avinnuleysið sé 12% á evrusvæðinu en 11% í ESB í heild. Um það bil 19 milljónir manna séu nú atvinnulausar á evrusvæðinu, en atvinnuleysi meðal ungs fólks sé 23%.
Tölurnar endurspegla aukið bil á milli evruþjóðanna. Atvinnuleysi á Spáni er 26,7% og 27,3% í Grikklandi - sem er um fimm sinnum meira en í Austurríki og Þýskalandi.
Af 28 löndum ESB eru 21 með reglur um lágmarkslaun, en þau liggja á bilinu frá 160 evrum (25 þúsund krónum) á mánuði í Búlgaríu og upp í tæplega 1.874 evrur (300 þúsund krónur) í Lúxemborg. Í ellefu löndum eru lágmarkslaunin minni en 500 evrur (78 þúsund krónur).
Vegna lágra launa í mörgum löndum mun það ekki koma atvinnulausum yfir fátæktarmörkin þótt þeir fái fullt starf, segir atvinnustjóri ESB, Laszlo Andor. Fram kemur í skýrslunni að 29 prósent atvinnulausra í Evrópu njóta ekki velferðaraðstoðar.
Ljóst er að evran hefur alls ekki orðið til þess að jafnvægi næðist á milli ríkja ESB, eins og fullyrt var að myndi gerast, og nú er atvinnuleysi fimmfalt hærra í Grikklandi og á Spáni en í Austurríki og Þýskalandi. Kjarnaríki ESB hagnast á evrusamstarfinu en jaðarríki gjalda fyrir. Það er mat fjölmargra hagfræðinga að evrusamstarfið eigi stóran þátt í auka á þann mun sem er á ríkidæmi evruþjóðanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.