Áfram dúndrandi meirihluti gegn ESB-aðild

MMR kannaði nýlega afstöðu almennings til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 32,3% vera hlynnt því en 50,0% andvíg. Samkvæmt þessu tóku 17,7% ekki afstöðu. Ef þeir eru ekki meðtaldir eru hlutföllin um 60% á móti 40%.

Afstaða fólks til ESB-aðildar í skoðanakönnunum sveiflast stöðugt. En ávallt hefur þó verið öflugur meirihluti gegn inngöngu í ESB frá því að umsóknin var samþykkt á Alþingi sumarið 2009. Það var eingöngu á fyrstu mánuðunum í örvæntingunni eftir hrunið 2008 að kannanir sýndu meirihluta fyrir ESB-aðild. Það var einmitt þá að Samfylkingin nýtti sér tækifærið og vélaði meiri hluta þingmanna VG til að taka þátt í því með sér að sækja um aðild. En meirihlutinn meðal þjóðarinnar fyrir inngöngu í ESB gufaði upp nokkurn veginn um líkt leyti og ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar var mynduð og við tók skýr meirihluti gegn aðild sem hefur ekki haggast síðan.

Í þessari nýjustu könnun MMR, sem fram fór 9.-15. janúar s.l. og 981 einstaklingur tók þátt í, þótti eftirtektarvert að fólk yfir 50 ára aldri var líklegra til að segjast hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB) en þeir sem yngri eru. Stuðningur við inngöngu var rúm 29% meðal einstaklinga á aldrinum 30-49 ára og aðeins rúm 26% meðal einstaklinga á aldrinum 18-29 ára  

Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru frekar hlynntir inngöngu Íslands í ESB en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu sögðust 38,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 22,7% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni. Einnig hækkaði hlutfall þeirra sem voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB hækkaði með auknum tekjum.

Mikill munur var á afstöðu fólks eftir því hvort það kvaðst styðja ríkisstjórnina eða ekki. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu ríkisstjórnina voru 13,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 52,0% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.

Nokkur munur var á afstöðu til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Mikill meirihluti þeirra sem studdu Samfylkinguna voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB á meðan meirihluti þeirra sem studdu Framsóknar- og Sjálfsstæðisflokkinn voru andvíg inngöngu.

Afstaða stuðningsfólks annarra flokka var ekki jafn einsleit. Ef lesið er í tölur þeirra sem töldust stuðningsmenn VG og frá eru taldir þeir svarendur sem ekki tóku afstöðu (sem virðast reyndar hafa verið allmargir meðal VG-fólks eða rúmlega fjórði hver svarandi) var þó skýr meirihluti andvígur aðild eða tæp 57%. Jafnframt þarf að hafa í huga að stórfellt hrun varð í fylgi VG í seinustu kosningum, einmitt vegna þátttöku flokksins í ESB-leiðangrinum, og því er andstaða við ESB-aðild ekki jafn yfirgnæfandi þar og áður var.        - RA



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband