Afturköllum umsóknina um aðild að ESB

Það er að okkar mati heiðarlegast og réttast að afturkalla umsóknina strax formlega eins og núverandi ríkisstjórnarflokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar, segja tveir fyrrv. þingmenn VG í grein í Morgunblaðinu í dag, þeir Atli Gíslason og Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra. 

Hörðustu ESB-sinnar eins og Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður viðurkenndu á Alþingi (16.1. 2014) að umsókn um aðild að ESB fæli beinlínis í sér vilja til inngöngu í sambandið. Hinsvegar væri ekki meirihluti innan þingflokka núverandi ríkisstjórnar fyrir inngöngu og því væri réttast að slíta þeim viðræðum formlega. Það er aðeins gert með því að Alþingi afturkalli umsóknina frá í júlí 2009.

Reiptog um ESB vorið 2009

Okkur er minnistæð ESB-umræðan innan þingflokks VG við ríkisstjórnarmyndunina vorið 2009. Hún miðaði að stórum hluta að því að snúa niður þann hóp sem fylgdi hugsjónum, kosningaloforðum og grunnstefnu flokksins og neitaði að styðja aðildarumsókn að ESB. Lítið fór fyrir efnislegri umræðu innan þingflokksins um hvað umsóknin fæli í sér. Vísað var til þess að Norðmenn hefðu fellt aðildarsamning án þess að þurfa að breyta neinu hjá sér í samningsferlinu. Enginn nefndi að slíkt var ekki lengur í boði af hálfu ESB. Samþykktum ESB þar að lútandi hafði verið breytt eftir að Norðmenn felldu samninginn. Ýmsir reyndu að sannfæra sjálfa sig og aðra um að hægt væri að sækja um í þykjustunni, hringja dyrabjöllunni og hlaupa svo fyrir horn þegar húsráðandi opnaði. Aðrir töluðu digurbarkalega og sögðust ætla að sýna ESB í tvo heimana, setja fram hörð skilyrði, fyrirvara og tímasetningar sem sambandið yrði að samþykkja áður en gengið væri til samninga. Aumust voru þó rök þeirra sem sögðust verða að samþykkja umsóknina, leika sér að fullveldinu til þess eins að samþykkja kröfur Samfylkingarinnar. Þessu reiptogi innan þingflokksins lauk með því að fimm þingmenn undir forystu Atla Gíslasonar lögðu fram bókun sem kvað á um að umsókn um aðild að ESB yrði ekki studd. Síðar kom í ljós að margir í þingliði VG voru í raun stuðningsmenn aðildar að ESB.

Þá var horfið frá því að umsókn að ESB væri » ríkisstjórnarmál«, heldur yrði hún einskonar þingmannamál og réði meirihluti Alþingis örlögum slíkrar tillögu. Var fallist á að hverjum þingmanni væri frjálst að tala fyrir sinni skoðun í ESB-málum og greiða um þau atkvæði í samræmi við hana. Sú yfirlýsing rataði inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Síðar var reynt að virða þá samþykkt að vettugi.

 Nú er búið að kíkja í pakkann

Þrátt fyrir alla svardaga fór auðvitað svo að ESB neitaði að taka við skilyrtri umsókn enda stóð það aldrei til af þeirra hálfu. - Það væri Ísland sem sækti um aðild á forsendum ESB, en ekki öfugt. - Bréfið sem utanríkisráðherra fór með til Brussel var stutt og án skilyrða. Síðar kom það einnig í ljós að Icesave-samningarnir voru skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar. Þótt stjórnmálamenn og forystumenn ríkisstjórnar héldu áfram til heimabrúks yfirlýsingum eins og að »kíkja í pakkann«, »ná sem bestum samningum«, » kanna kosti og galla aðildar« var svar ESB alltaf kalt og skýrt: Allt eða ekkert.

Um aðildarumsókn og stækkunarferil segir svo á heimasíðu ESB: »Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu - sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.« 1)

Afturköllun IPA-styrkjanna er skýr staðfesting á stefnu og skilyrðum ESB fyrir framgang umsóknar að sambandinu. Aðeins er hægt að hraða ferlinu með því að flýta aðlöguninni.

Þótt við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra værum á fullkomlega öndverðum meiði í ESB-málum hélt hann því aldrei fram að hægt væri að semja sig frá lagaverki og sáttmálum ESB. Hinsvegar er hægt að hafa lúmskt gaman af því hvernig Össur hæðist að ESB-einfeldni og tvískinnungi formanna fyrrverandi ríksstjórnarflokka í bók sinni, Ári Drekans. Hún er mjög reyfaraleg á köflum, en það er önnur saga.

Alþingi ber að sýna heiðarleika og afturkalla umsóknina

Nú hefur umsóknarferlið staðið í fjögur ár og löngu er komið í ljós það sem reyndar var vitað fyrir að ESB veitir engar varanlegar undanþágur frá sáttmálum sínum, laga- eða regluverki. Ríkisstjórn sem er andvíg inngöngu í ESB getur ekki haldið aðlögunarferli áfram. Það er komið nóg af tvískinnungi. Það er að okkar mati heiðarlegast og réttast að afturkalla umsóknina strax formlega eins og núverandi ríkisstjórnarflokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar. Annars bíður þeirra eilíf umræða um svikabrigsl með utanríkismálin í uppnámi.

Með hreint borð, ESB-umsóknina út af borðinu, er hægt að byggja upp eðlileg samskipti Íslands og ESB á grunni tvíhliða samninga eins og við gerum við aðrar þjóðir.

Það er svo sjálfstætt mál hvort og hvenær efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er: »Vilt þú að Ísland gangi í ESB?« Slíka tillögu geta ESB-sinnaðar ríkisstjórnir (verði þær aftur til í framtíðinni) lagt fram hvenær sem þeim sýnist eða einstakir þýlyndir þingmenn.

1) »Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules, some 90,000 pages of them. And these rules are not negotiable.«


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gott að sjá ykkur aftur! Það er kominn timi til hjá ríkisstjórninni að fara að vinda sér í þetta mjög svo aðkallandi mál. Jón Bjarnasson væri búinn að því, réði hann einhverju.. Sá var ekki að tvínóna við hlutina,þegar hann var ráðherra,algerlega óhræddur um stöðu sína gerði hann það sem hjartað bauð honum,blessaður kallinn. Það er kominn tími til að afturkalla umsóknina. Persónulega vona ég að þessu fargi létti af mér,get þolað hverskonar skerðingar sem dunið hafa á frá því umsóknin fór með Össuri,en þessi er óþolanlega,ólíðandi.

Helga Kristjánsdóttir, 25.1.2014 kl. 23:36

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

nei nei - klárum saminginn - sennilega er esb bara gott fyrir okkur

Rafn Guðmundsson, 26.1.2014 kl. 00:39

3 Smámynd: Elle_

Gott að Vinstrivaktin er aftur farin að skrifa. Og sammála Helgu. Veit ekki alveg hvaða samning Rafn vill klára þar sem ekki var um neinn samning við Brussel að ræða, heldur yfirtöku af hálfu þeirra.

Elle_, 26.1.2014 kl. 15:44

4 identicon

Sæl / Nafna - Rafn og Elle , !

NIÐUR - með Vinstrivaktina gott fólk !

Samskonar HRÆSNARAR - og Heimssýnar liðið / styðjandi áframhald NATÓ og EFTA aðildar út í eitt.

Það er ekki nóg Elle - að ÞYKJAST vera á móti ESB hörmunginni - en halda svo Dauðahaldi í hinn ófögnuðinn NATÓ/EFTA fornvinkona góð !

Með beztu kveðjum til ykkar þriggja - ÖNGVUM til Vinstri vaktarinnar /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 23:04

5 Smámynd: Elle_

Halda dauðahaldi í EFTA? Ekki að ég verði að skýra það neitt en þú ættir að vita að ég vil ekki EFTA ef þú læsir það sem ég skrifa í Moggablogginu. Og hvað ætli Vinstrivaktin hafi ekki oft skrifað um neikvætt eðli EFTA? Nógu oft. Svona fullyrðingar út í loftið minna frekar á Brusselhlaupandi Össur og co en alvöru fullveldissinna eins og þig.

Elle_, 27.1.2014 kl. 11:30

6 identicon

Komið þið sæl - á ný !

Elle , !

Þakka þér fyrir leiðréttinguna - og vil ég biðja þig afsökunar á að hafa haft rangt við með meintum stuðningi þínum við EFTA skrifræðis- og kjaptaklúbbinn fornvinkona góð.

Eftir stendur - að Vinstri vakt / Nafna mín (Kristjánsdóttir) og Rafn hafa ekki enn svarið af sér stuðninginn við þetta Draugabatterí og hjálparhjól ESB.

Sömu kveðjur - sem seinustu /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.1.2014 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband