Þrautpíndir skattgreiðendur evrusvæðis greiða kostnaðinn af björgun evrunnar

Suður-Evrópa er að bresta efnahagslega. Ekki er aðeins að evran eigi mesta sök á vandræðum margra ríkja á útjöðrum evrusvæðis. Björgunaraðgerðirnar kosta skattgreiðendur í öllum evruríkjunum stórfé og pólitísk samstaða um aðhaldsaðgerðir er að splundrast.

 

Í grein sem birtist í Daily Telegraph s.l. fimmtudag 11/7 eftir alþjóðlegan viðskiptaritstjóra blaðsins, Ambrose Evans-Pritchard, sem Evrópuvaktin þýddi og birti sama dag er athyglisverð úttekt á ýmsum hliðum evrukreppunnar. Þar er á það bent að viðbrögð evruríkjanna við skuldakreppunni hafa ekki skilað árangri. Endurreisn efnahags ríkja sem eiga í mestum vanda hafi ekki orðið að veruleika.

 

 „Skuldahlutfallið hækkar hratt. Pólitísk samstaða um aðhaldsaðgerðir er að splundrast í nær öllum evruríkjum. Og nú hefur Seðlabanki Bandaríkjanna sett allt á annan endann með yfirlýsingum um að draga úr kaupum á markaði.“

 

„Ritstjórinn segir að engir þeirra sem ráði ferðinni í Evrulandi séu tilbúnir til að viðurkenna að ekki sé hægt að halda við núverandi stefnu. Þeir voni að þeir geti leynt vandanum fram yfir kosningar í Þýzkalandi í haust eins og það skipti einhverju máli.

 

Skýrsla sem tekin hefur verið saman á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og lekið hefur verið til fjölmiðla sýni að Grikkir séu ekki að ná þeim markmiðum, sem samið hafi verið um og að það muni miklu. Í skýrslunni sé því haldið fram, að Grikki skorti vilja og getu til að innheimta skatta. Raunveruleikinn sé hins vegar sá, að stjórnvöld í Aþenu nái ekki umsömdum markmiðum vegna þess að efnahagslífið sé í frjálsu falli og ástæðan fyrir því sé sú að of langt hafi verið gengið í aðhaldi. Grísk hugveita segir að samdráttur í efnahagslífi verði 5% á þessu ári. Í einkasamtölum við blaðamenn segja forráðamenn hugveitunnar að samdrátturinn verði nær 7%. Fréttir um aukinn stöðugleika í Grikklandi sé blekking.

 

Efnahagskrísan á Ítalíu sé vaxandi. Skuldastaðan sé komin í 129% miðað við verga landsframleiðslu. Það sé meira en ríki án eigin gjaldmiðils geti ráðið við. Samanlagður efnahagslegur samdráttur á Ítalíu frá árinu 2007 stefni í 10%. Þetta þýði að Ítalía sé í kreppu. Sá gjaldmiðill sem Ítalir notist við þyrfti að lækka um 20-30%.

 

Á Spáni sé komið upp stórfellt pólitískt hneyksli, sem Lýðflokkurinn geti ekki lengur lokað augunum fyrir. Flokkurinn geti ekki lengur fylkt þjóðinni að baki sér í aðhaldspólitík. Spænska dagblaðið El Mundo segir að andrúmsloftið á Spáni einkennist í vaxandi mæli af þvi að „bylting“ sé í aðsigi.

 

Portúgal er á fallanda fæti. Efnahagslægð sem nú nemi 3% dragi úr skatttekjum. Þess vegna nái stjórnvöld ekki settum markmiðum. Heildarskuldir Portúgala nemi 370% af vergri landsframleiðslu. Opinberar skuldir séu komnar í 123% af vergri landsframleiðslu. Fjölmiðlar í Portúgal haldi því fram að Evrópusambandið vinni nú í leynd að öðru björgunarláni fyrir Portúgal.

 

Þetta er pólitískt jarðsprengjubelti segir í grein Evans-Pritchard. Nýtt neyðarlán yrði að fara fyrir þýzka þingið. Ef það gerðist fyrir kosningar yrðu skilyrðin grimmdarleg.

Nú sé spurningin hvort forráðamenn evruríkjanna viðurkenni í fyrsta sinn að skattgreiðendur verði að taka á sig kostnað til að halda gjaldmiðilsbandalaginu saman. Hingað til hafi allt byggst á lánum.

Á sama tíma hafi ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna um að draga úr kaupum á markaði haft þau áhrif að lántökukostnaður ríkja í Evrópu hafi hækkað um 70 punkta. Raunvextir fari stórhækkandi.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband