Fjórar ástæður gegn ESB aðild

Baráttan gegn heimsvaldastefnu ESB er ekki stundarfyrirbrigði sem hverfur við það eitt að umsókn Íslands er sett í salt. Í Noregi þar sem engin umsókn er í gangi heldur hugmyndafræðileg barátta gegn ásókn ESB áfram og sannar að mál þetta er aldrei afgreitt út af borðinu.

Ekki meðan ESB er til og hefur tilhneigingar til að slæma hrammi sínum í átt til þeirra ríkja álfunnar sem enn voga sér að halda í fullveldið. Heming Olaussen formaður Nei til EU samtakanna í Noregi rétti nýlega að bloggara þessarar síðu handhægan bækling þar sem taldar eru upp fjórar ástæður fyrir því að innganga í ESB sé óskynsamleg. Hér á eftir fer ágrip þessa rits:

forsiden_4_grunner_2010_stort_bilde1. Lýðræðishallinn, en hann var ein helsta ástæða þess að Norðmenn greiddu atkvæði gegn ESB 1994. Síðan þá hefur enn sigið á ógæfuhliðina í þeim efnum. Borgarar ESB vita lítið hvað gerist innan luktra dyra í Brussel og kosningaþátttaka er komin niður í 43,2%.

2. Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur ESB beitt sér fyrir aðgerðum sem eru fjandsamlegar fátækjum ríkjum, bæði með því að liðka þar fyrir fjárfestingum alþjóðlegra auðhringa og þrýsta á um algert viðskiptafrelsi. Vegna þessa eru þróunarlöndin svipt möguleikanum á að byggja upp eigið atvinnulíf og velferðarkerfi á sínum forsendum. ESB hefur líka dregið mjög úr þróunarhjálp til Afríku en beint allri þróunaraðstoð til ríkja innan Evrópu. Á móti hafa Miðjarðarhafs- og Balkanlöndin orðið að opna á frjálshyggju og einkavæðingu. 

3. Umhverfisstefna ESB er ein og sér nægileg ástæða til að fylgja sambandinu ekki að málum. Stefna þess er aukin miðstýring og miðsækni efnahagslífsins sem hefur í för með sér rányrkju, mengun og óþarfa tilflutninga á vörum. Sú stórfyrirtækjastefna og frjálshyggja sem ESB stendur fyrir er fjandsamleg umhverfinu eins og glöggt kom fram á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2009.

4. ESB löndin hafa ekki sjálfstæða utanríkisstefnu heldur koma þar fram sem einn aðili. Utan ESB studdi Svíþjóð oft með þróunarlöndum en hefur eiginlega ekki borið það við síðan landið gekk í ESB./-b. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

ESB er ekki ríki og samþykktir þess geta ekki komið í veg fyrir sjálfstæða utanríkisstefnu aðildarríkjanna. Um þetta eru fleiri dæmi en "vinstri"-vaktinn vill láta uppi.

Ef Svíar hafa ekki sinnt sérstakri þróunarríkjastefnu sem ég efast um þá er það vegna þess að þeir eru ánægðir með það sem ESB hefur fram að færa.

Umhverfismál eru alltaf erfið einstökum ríkjum og því talin ein helsta ástæðan fyrir gagnsemi evrópureglugerða sem aðildarþjóðir standa að. Stórfyrirtækjalobbíið hefur greinilega áhrif víðar en á Íslandi ef ofanskráð komment heldur vatni.

Hvað lýðræðishallann varðar er mörgu ábótavant bæði hér og þar en taka ber fram að það eru einungis lýðræðisríki sem fá aðild og fá að halda aðild. Það segir meira en mörg orð um hversu mikilvægt lýðræði telst sem grunnstoð innan bandalagsins. Að sjálfsögðu er um fulltrúalýðræði að ræða. Beint lýðræði er ekki komið alla leið til Brussel það verður að viðurkennast.

Gísli Ingvarsson, 8.7.2013 kl. 21:04

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Lengi lifi Vinstri-Vaktin gegn ESB. Lengi lifi ESB.

Gísli Ingvarsson, 8.7.2013 kl. 21:06

3 Smámynd: Elle_

Hið rangnefnda Evrópusamband (Ekki Evrópa en stal heitinu Evrópa og fána Evrópuráðsins til að villa um fyrir fólki) er eitt risastórt veldi og verðandi ríki.  Sambandsríki þess eru ekki fullvalda ríki og lúta utanríkisstefnu kommissara veldisins.

Elle_, 8.7.2013 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband