Þeir sem höfnuðu þjóðaratkvæði 2009 heimta það nú í örvæntingu

Guðmundur Steingrímsson í Litlu Samfylkingunni og Össur í þeirri Stóru flytja nú tillögur um það á Alþingi að efnt verði til þjóðaratkvæðis um áframhald aðildarumsóknar. Með atkvæði sínu á þingi sumarið 2009 sáu þeir þó til þess að þjóðin fékk EKKI að kjósa um hvort sótt yrði um aðild.

 

Það er augljós meginmunur á því hvort ákveðið er að leggja aðildarviðræður til hliðar og hefja þær ekki að nýju nema að undangengnu þjóðaratkvæði, eins og ný stjórn hefur ákveðið, eða hvort fallist verður á örvæntingarfulla tilraun Össurar og Guðmundar til að halda lífi í dauðvona aðildarumsókn með því að heimta nú þjóðaratkvæði um áframhald aðildarferlis.

 

Hugsanleg þjóðaratkvæðagreiðsla á að sjálfsögðu að snúast um það hvort Íslendingar vilja ganga í ESB eða ekki. Raunar vitum við fyrirfram hvert svarið verður, eins og komið hefur skýrt fram í öllum skoðanakönnunum seinustu fjögur árin, þar sem þannig hefur verið spurt.

 

Jón Baldur L'Orange er athyglisverður og kraftmikill álitsgjafi á vefnum islandsfengur.blog.is og skrifar í gær um þessa áköfu viðleitni Össurar og Guðmundar til að klóra í bakkann:

 

„Það er hálf hallærislegt af Bjartri framtíð og Samfylkingunni að koma fram og segjast vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi aðildarviðræðunum við Evrópusambandið áfram. Þegar Guðmundur og Össur voru saman í liðinu sem lagði inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu í júlí 2009 þá kom ekki til greina að spyrja þjóðina um eitt eða neitt. Það er öll lýðræðisástin hjá þeim köppum. En núna, þegar það þjónar pólitískum hagsmunum þeirra í kapphlaupi um stuðning ESB sinna, þá berja þeir sér á brjóst og segjast vera lýðræðissinnar.

 

Í júlí 2009 lögðu þeir steina í götu lýðræðissinna sem vildu spyrja þjóðina um hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu með tilheyrandi fullveldisafsali og allar götur síðan hafa þeir barist hatrammlega gegn öllum þjóðaratkvæðagreiðslum um þetta mál og Icesave málið þar sem tekist var á um efnahagslega framtíð þjóðarinnar hvorki meira né minna.

 

Já, fyrst núna þegar þeir hafa verið hraktir úr ESB víginu af kjósendum þá þykjast þeir vilja spyrja kjósendur um mál sem var kosið um í síðustu alþingiskosningum. Skýrari niðurstaða gat ekki fengist í það mál. ESB stjórnin fékk slíka falleinkunn hjá fólkinu í landinu að forystufólk föllnu stjórnarflokkanna ætti að sjá sóma sinn í að láta lítið fara fyrir sér.

 

Nei, það gera þau aldeilis ekki, heldur láta þau öllum illum látum eins og við urðum vitni að á Alþingi í dag þegar helsti fagurgali ESB aðildar á Íslandi galaði falskt um ást sína á ESB sem væri alls staðar og allt um kring.

 

Samfylkingin hefur ekkert lært. Alltaf skal eina málið sem forysta hennar setur á oddinn vera aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ekkert annað kemst að hjá henni, ekki einu sinni alvarleg skuldastaða heimilanna eftir stjórnarsetu þeirra í sex ár. Þannig stormuðu þau fram á fyrsta degi með ESB málið, upphaf og endir alls hjá stjórnmálaflokki sem vill kalla sig Jafnaðarmannaflokk Íslands.

 

Með þessu áframhaldi þarf ríkisstjórnin lítið að gera til að vinna sér inn vinsældir. Stjórnarandstaða Samfylkingarinnar mun sjá til þess. Gott hjá henni.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Batnandi mönnum er best að lifa.  Nú bíð ég spennt eftir því að fulltrúar Samfylkinganna beggja berjist um að fá að flytja þingfrumvarp um að þegar "samningsumræðum" við ESB ljúki, þá fái landslýður að kjósa um já eða nei í BINDANDI atkvæðagreiðslu.   Slíku var nefnilega líka hafnað á þingi 2009.

Kolbrún Hilmars, 12.6.2013 kl. 15:55

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Þetta eru bara rugguhestar og vilja ráða með frekju og ofstopa.

Spurningin á að vera vilja íslendingar ganga í ESB? Já eða Nei.

En ekki einhver kíkja í pakkann spurning.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 12.6.2013 kl. 21:01

3 Smámynd: Elle_

Ekki um neitt að kjósa núna.  Hættum að ansa þessum sömu yfirgangshundum og spurðu okkur stærrihlutann ekki um eitt eða neitt.  Við getum eins vel kosið um hvort Össur megi mæta í bláum og grænum sokkum í vinnuna eða mæta yfirleitt.

Elle_, 12.6.2013 kl. 22:28

4 identicon

Þetta er nú meira ruglið.

Íslendingar geta ekki svarað því hvort þeir vilja ganga í ESB fyrr en þeir sjá samning. Þess vegna hefði verið galið að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknarferlið. Slíkt þekkist ekki í öðrum löndum.

Nú liggur hins vegar ljóst fyrir að báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar að slíta viðræðunum en láta kjósa um að taka þær upp aftur á kjörtímabilinu.

Það er því ljóst að ef ekki verður þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna er aðildarumsóknin úr sögunni um mörg ár ef ekki áratugi.

Það myndi hafa hörmungar í för með sér ef að líkum lætur.

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 23:42

5 Smámynd: Elle_

Ekki það að andstæðingum væri ekki sama hvað ykkur var lofað.  En endilega farðu að skilja að þessi fullyrðing (eða lygi) um loforð sem þú endurtókst aftur og aftur í pistlinum á undan (Forsenda - - -) er ósönn. 

Elle_, 13.6.2013 kl. 00:02

6 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Hver er þessi Ásmundur?

Hefur hann ekkert lært í gegnum árin?

Ég hélt að hann hafi verið tekinn af launum hjá ESB, hef ekki séð athugasemdir frá honum síðan fyrir kosningar.

Er búið að loka Evrópustofu, propaganda skrifstofu Þýskalands, afsakið ESB? Hélt að það hafi verið eitt af kosningarloforðunum?

Kveðja frá Houston.

Jóhann Kristinsson, 13.6.2013 kl. 00:05

7 Smámynd: Elle_

Munið þið eftir þessu (bara 2 dæmi: Hafa skal - - -)? Nú, nú??  Hver vill óður kjósa núna?  Næstum fyndið ef það væri ekki svona öfugsnúið:
Til að fá þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að ljúka viðræðum.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 18:20
Þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað sem menn vita ekki hvað er, er út í hött.

Asmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.12.2011 kl. 15:16

Elle_, 13.6.2013 kl. 00:40

8 identicon

Örvænting stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar strax komin í hámark á fyrstu valdadögum hennar.

Nú þegar svikin blasa við er einfaldlega sagt að engu hafi verið lofað. Hvernig verða endalokin þegar upphafið er svona?

Nú á að auka neyslu með því að lækka skatta og gjöld. Neysluaukning þýðir hins vegar frekari sóun á gjaldeyri sem er af skornum skammti. Er það markmiðið að stuðla að greiðsluþroti ríkisins?

Einu lausninni á vandanum, ESB-aðild, er hins vegar hafnað. Ótrúlega sorglegt að horfa upp á þessi ósköp.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.6.2013 kl. 08:38

9 identicon

Elle, það er sorglegt að horfa upp á þig afhjúpa svona eigin heimsku.

Áttu engan vin sem getur leitt þér fyrir sjónir að þú átt ekkert erindi í rökræður um ESB eða stjórnmál.

Þegar valið stendur um umsókn með eða án þjóðaratkvæðagreiðslu, velja stuðningsmenn aðildar auðvitað enga þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar valið stendur um þjóðaratkvæðagreiðslu eða að gefa aðildina endanlega upp á bátinn velja þeir auðvitað þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þó að það sé galið að kjósa um það sem ekki er vitað hvað er þá er hinn kosturinn einfaldlega enn verri í seinna tilvikinu.

Það eina sem vit er í er að ljúka umsóknarferlinu og kjósa síðan um aðild. Ríkisstjórnin býður hins vegar ekki upp á það.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.6.2013 kl. 09:18

10 Smámynd: Elle_

Ásmundur, maður rökræðir ekki við forherðinga.

Elle_, 13.6.2013 kl. 14:08

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásmundur, ert þetta ekki örugglega þú sjálfur í #9?

Miðað við málsgreinar þínar báðar sem hefjast á "Þegar valið stendur um..."  ættir þú manna helstur að skilja afstöðu andstæðinga aðildar.  "Auðvitað."

Við andstæðingar notum hins vegar ekki orðið umsóknarferli heldur aðlögunarferli.  Það gera stækkunarstjórar og aðrir fulltrúar ESB líka.

Kolbrún Hilmars, 13.6.2013 kl. 15:01

12 identicon

Kolbrún, þú mátt vel kalla umsóknarferlið aðlögunarferli fyrir mér. En allavega er þetta umsóknarferli enda er verið að sækja um aðild. Ef samningnum verður hafnað verður engin aðlögun.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.6.2013 kl. 16:26

13 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ekki sammála þér, Ásmundur.  Þegar aðlögunarferlinu lýkur er aðlöguninni lokið.  Og í rauninni ekkert um að kjósa lengur.  Segi meirihlutinn nei, verður það þrautinni þyngra að rífa niður allar þær lagasetningar sem aðlögunin hefur kostað.  Þetta vitið þið ESB sinnar mæta vel og bindið vonir við.

Umsókn er hins vegar þetta sem fyrrverandi utanríkisráðherra gerði - tvisvar, svona til öryggis - án þess að spyrja landslýð.

Kolbrún Hilmars, 13.6.2013 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband