Enn vex mótspyrnan gegn óþreytandi valdagræðgi ESB
5.6.2013 | 11:51
Framsal á fullveldisrétti aðildarríkja til Brussel í mörgum smáum áföngum hefur lengi verið helsta einkenni ESB-samrunans undir forystu Þjóðverja og Frakka. En nú er risin upp mikil mótmælaalda í aðildarríkjunum gegn síauknu framsali valds og valdasamþjöppun í Brussel.
S.l. miðvikudag sögðum við frá gagnrýni sem sprottið hefur upp undanfarnar vikur í Þýskalandi vegna vaxandi hörmunga sem skapast hafa í mörgum jaðarríkjum evrusvæðisins, þar sem sums staðar er allt upp í 60% atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16-24 ára. Í Þýskalandi eru viðbrögðin einkum þau að þörf sé enn meiri samruna aðildarríkjanna á sviði efnahags- og fjármála til bjargar evrunni. Því er þá jafnframt hótað að verði ekki fallist á víðtækari og sórfelldari samruna neyðist Þjóðverjar til að draga sig út af evrusvæðinu og taka aftur upp eigin gjaldmiðil.
Í flestum öðrum ríkjum ESB eru þó viðbrögð manna þveröfug við afstöðu Þjóðverja. Andstaðan gegn auknum samruna fer víðast hvar vaxandi. Fyrir einum áratug var talið víst að Bretar, Danir og Svíar tækju upp evru. Nú er mjög lítill stuðningur við það í þessum ríkjum. Í Bretlandi eru jafnvel miklar umræður um að stöðva frekara valdaframsal til Brussel og menn velta því fyrir sér hvernig endurheimta megi nokkuð af þeim fullveldisréttindum sem Bretar hafa þegar látið af hendi. Jafnframt vex þeirri kröfu ásmegin að Bretar segi sig úr ESB.
Í seinustu viku gerðust þau tíðindi að Hollande, forseti Frakklands, lenti í hörðum orðaskiptum fyrir opnum tjöldum við leiðtoga ESB. Aðdragandi deilunnar var sá að framkvæmdastjórn ESB setti fram óskir sínar um þau verkefni á sviði efnahagsmála sem aðildarríkjum bæri að taka sér fyrir hendur, m.a. hvernig haga skyldi fjárlagagerð í aðildarríkjunum. Í þessari samþykkt var nákvæmlega útlistað hvað þjóðþingum aðildarríkjanna bæri að gera á sviði efnahagsmála, m.a. hvað varðar tekjuöflun og útgjöld.
Með þessu nýjasta útspili hefur framkvæmdastjórn ESB gengið lengra í afskiptasemi sinni af aðildarríkjunum en nokkru sinni fyrr þótt vissulega hafi leiðtogar ESB lengi verið að færa sig upp á skaftið í þá áttina. Fyrir skömmu lét Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hafa það eftir sér, að þeim aðildarríkjum ESB sem ekki uppfylltu þá skyldu sína að taka upp evru, bæri að gera það upp við sig hvort og hvenær þau létu verða af því. Yfirlýsing Barruso vakti víða mikla hneykslun, ekki síst meðal Svía sem höfnuðu því í þjóðaratkvæði rétt eftir aldamótin að taka upp evru og hafa aldrei verið fjær því að vilja fórna krónu sinni en einmitt nú.
Það vakti jafnframt mikla athygli hve illa Hollande Frakklandsforseti brást við afskiptasemi leiðtoga ESB af efnahags- og fjármálastjórn í aðildarríkjunum. Hollande hélt því fram að kommissararnir í Brussel hefðu engan rétt til að gefa aðildarríkjunum fyrirskipanir um hvaða efnahagsumbætur þau ættu að ráðast í. Hollande komst svo að orði í viðtali við AFP fréttastofuna: Framkvæmdastjórnin hefur engan rétt til að stjórna því sem við gerum!.
Ýmsir hafa orðið til að líkja vegferð ESB við Titanic-slysið. Evrukreppan og sívaxandi atvinnuleysi sem henni fylgir, einkum á útjöðrum evrusvæðisins, er enn einn vitnisburðurinn um að sú kreddukenning sem ESB byggir á, að ein stærð henti öllum, stenst ekki. Sameiginlegur gjaldmiðill þjóða sem búa við mjög ólíkar aðstæður er pólitískt áhugamál manna sem vilja nota gjaldmiðilinn, evruna, til að knýja þjóðirnar til enn frekari samruna. En nú kemur æ betur í ljós að evrukerfið er vanhugsað, efnahagslega séð og á sök á óförum margra ríkja á útjöðrum evrusvæðisins.
Framtíð ESB er á huldu. En öllum Íslendingum ætti þó að vera ljóst að í þennan félagsskap eigum við ekkert erindi. Þvert á móti megum við þakka fyrir að búa við eigin mynt þótt hún sé oft óstöðug. Mynt sem hreyfist í rökréttum takti við efnahagsástandið hér heima fyrir þjónar hagsmunum okkar betur en gjaldmiðill sem hreyfist í takti við ástandið í fjarlægum stórríkjum á meginlandinu. RA
Athugasemdir
Hvernig getur ríkjasamband verið valdagráðugt gagnvart þeim þjóðum sem mynda sambandið?
Vinstrivaktin virðist haldin þeirri meinloku að ESB sé eitthvap allt annað og óskylt þeim ríkjum sem mynda það. Og ekki bara það heldur sé það eins konar skrímsli sem deili yfir þeim og drottni.
ESB er samstarfsvettvangur þeirra ríkja sem mynda það. Það er því ekki "valdagráðugra" gagnvart þeim en þau ákveða sjálf.
"Valdagræðgin", sem Vinstrivaktin kýs að kalla svo, er því jákvæð í augum aðildarríkjanna því að annars myndu þau ekki samþykkja hana.
Ásmundur (IP-tala skráð) 5.6.2013 kl. 16:33
Elsku Mundi minn, af hverju eru Samfylkingar, þessi 12.9% að reyna að troða Íslandi í ESB, þrátt fyrir gríðarlega andstöðu rúmlega 70% þjóðarinnar?
Og hvers vegna er ESB að eyða miljörðum í að heilaþvo Íslendinga til þess að samþykkja yfirgang smáflokks Samfylkingar?
Jú, af því að það eru hagsmunir ESB elítunnar og sjálfskipaðrar elítu litla Samfylkngarflokksins, sem vill vera partur af Brussel- elítunni. Þannig er það nú vinur minn. ESB og Samfylkingin er lítið að hugsa um hag okkar Íslendinga. Reyndar má ganga svo langt að segja að smáflokknum og Brussel- elítunni sé skítsama um hinn almenna Íslending, alveg eins og þeim er sama um fólkið í Grikklandi sem ekki fær lífsnauðsynleg lyf, og fólksins á Spáni sem fær ekki að éta.
Ef elítunni væri sama, þá væri Rauði krossinn ekki að lýsa s-Evrópu sem hamfarasvæði.
Og eitt í viðbót, þegar maður lætur óprúttna svindlara plata sig, þá reynir maður að rifta kaupunum. Eins og almenningur í ESB löndunum vill gera. Almenningur í ESB vill þetta valdabandalag hagsmunaklíku dautt, það vill ú. En það fær það ekki. Það fær ekki einu sinni að kjósa um málið.
Þannig er þetta nú, Mundaskinn.
Hilmar (IP-tala skráð) 5.6.2013 kl. 20:08
Ef elítunni væri EKKI sama, þá væri Rauði krossinn ekki að lýsa s-Evrópu sem hamfarasvæði.
Best að hafa þetta rétt. Óþarfi að gera einhver góðmenni úr krimma- elítunni í Brussel.
Hilmar (IP-tala skráð) 5.6.2013 kl. 20:11
Hilmar við erum á sama báti, okkar Íslands báti,áhöfnin er hafinn yfir alla aðra flokka.
Helga Kristjánsdóttir, 6.6.2013 kl. 02:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.