Akademísk sýn á ESB

Þær röksemdir sem mest bar á [í Alþingiskosningunum] voru á annan bóginn Grýluröksemdin – ES er Grýla sem ætlar að stinga litla Íslandi í pokann sinn og éta síðan í rólegheitum – en hins vegar gulrótarröksemdin – við verðum tafarlaust x prósentum ríkari ef við göngum í ES.
(Vésteinn Ólason  prófessor í Fréttablaðinu 1. júní síðastliðnum sbr. hér)
 

Við ríkisstjórnarskipti óttast margir ESB sinnar um sinn stærsta draum og ekki af engu. ESB sinninn Vésteinn heldur áfram og afgreiðir röksemdir ESB andstæðinga sem hlægilegar. Rétt eins og prófessorinn hefur einkaskammstöfun á Evrópusambandinu (ES í stað ESB eða EU sem algengast er erlendis) hefur hann líka sérstakan einkaskilning því sem er að gerast í Evrópu:

ES er bandalag fullvalda ríkja sem eru fús að veita Íslandi inngöngu af því að þeim finnst landið menningarlega, félagslega og landfræðilega eiga heima í þessu bandalagi, ef það kýs að vera þar. Langflestum ríkjum ES er þó áreiðanlega alveg sama hvort Ísland gengur inn eða ekki, mörgum finnst bandalagið þegar of stórt. Þvert á móti því sem margir halda fram hefur ES gert mikið til að hjálpa Grikklandi og öðrum skuldakóngum.  

Síðar í grein sinni tekur prófessorinn fram að ESB andstæðingar færi aldrei fram rök fyrir máli sínu. Nú væri léttur leikur að afgreiða skrif prófessorsins með sömu "akademísku" vinnubrögðunum og hann temur sér sjálfur, - sem fremur hlægileg trúarbrögð. En hér á síðu Vinstri vaktarinnar tíðkast að færð séu rök fyrir skoðunum og því verður viðhaldið.

Það þarf ekki að fletta evrópskum fjölmiðlum lengi til að sjá að fullyrðing prófessorsins um að ESB sé bandalag fullvalda ríkja stenst illa skoðun. Í Evrópu er nú einmitt viðurkennt að ríkin deili fullveldi sínu og umræðan þar snýst um það hversu mikið fullveldisframsalið eigi að vera á næstu misserum og árum.

Ef til vill lifa einhverjir íslenskir prófessorar í þeim heimi að hægt sé að gefa einhverjum fullveldi sitt og halda því samt sjálfur. Fyrir þá sem þekkja til mannkynssögunnar minnir slíkur hálofamígur óþægilega mikið á skólaspeki miðalda sem sérhæfði oftar en ekki í mótsögnum og ruglanda.

En drýgst til skilnings á Evrópusamrunanum er einmitt mannkynssagan og þá verður að litlu sú trú að allt í einu sé komið fram á sjónarsviðið heimsveldi sem hafi enga lyst á að gleypa lítið og auðlindaríkt land norður í höfum. Þvert á móti er það eðli heimsvelda að vilja gleypa og éta, græða, drottna og eiga.

Á dögum Kalda stríðsins áttum við að vísu til trúmenn hér á landi sem lifðu í þeirri blekkingu að þeirra heimsveldi væri gott heimsveldi sem aldrei færi úr þeim jólasveinabúningi að gefa lítilmagnanum og aðstoða fákænar þjóðir við að byggja upp óskaplega mikið góð samfélög.

Gilti þá einu hvort trúmenn þessir sveifluðu Mogga eða Þjóðvilja sem sínu trúarsverði./-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er enginn munur á "hægri" og "vinstri".

Þetta er allt sama stjórnsýslu-klíkan.

Maður verður að hugsa sjálfstætt, og svíkja ekki sjálfan sig. Það er frumskylda allra einstaklinga, að standa með réttlætinu í eigin sál og sannfæringu. Það eru ábyrg, heilbrigð og eðlileg viðbrögð.

Í flugi er fólki skipað að vernda sjálfan sig, og síðan hina. Það getur enginn hjálpað öðrum, ef hann svíkur sjálfan sig.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.6.2013 kl. 18:02

2 identicon

Það er auðvitað ekki fullveldisafsal að hafa samstarf á vissum sviðum við önnur ríki. Þess vegna eru ESB-ríkin talin fullvalda ríki.

Um Danmörku má td lesa á Wikipedia:" Danish foreign policy is based on its identity as a sovereign nation in Europe. As such its primary foreign policy focus is on its relations with other nations as a sovereign independent nation."

http://en.wikipedia.org/wiki/Denmark#Foreign_relations_and_military

ESB er ekki nýtt ríki sem ESB-ríkin lúta heldur samstarfsvettvangur þeirra. Að líkja slíku samstarfi við það að annað ríki nái yfirráðum yfir ákveðnu ríki er auðvitað fráleitt.

Ég tek undir það sjónarmið Vésteins að andstæðingar aðildar hafa engin rök. Auk þess sneiða þeir hjá að ræða þann alvarlega vanda sem ESB-aðild og evra leysa.

Það er eins og þeir vilji fljóta sofandi að feigðarósi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2013 kl. 18:15

3 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Segðu mér þá eitt Ásmundur því þú segir að öll ríki innan ESB séu sjálfstæð að á sama tíma fara ESB og EES hamförum yfir því að við ætlum ekki að flytja inn hrátt kjöt,ekki veit ég hvað þú átt með sjálfstæðu ríki ef að þetta er útkoman..............

Marteinn Unnar Heiðarsson, 4.6.2013 kl. 21:40

4 identicon

Marteinn, aðeins sjálfstæð ríki geta ákveðið að taka þátt í samstarfi ríkja.

Allt slíkt samstarf byggist á sameiginlegum reglum sem aðildarríkin samþykkja af fúsum og frjálsum vilja.

Þessi fullveldisumræða er stórundarleg. Það er eins og ESB-andstæðingar skilji ekki að ekki er hægt að borða kökuna en eiga hana samt áfram.

Við höfum áður tekið þátt í ýmis konar samstarfi ríkja þar sem við höfum þurft að lúta sameiginlegum reglum. Skv hugmyndum ESB-andstæðinga ættum við því fyrir löngu að hafa afsalað okkur fullveldinu.

Það er miklu frekar að EES-samningurinn feli í sér fullveldisframsal en ESB-aðild. Með ESB-aðild tökum við þátt í að semja lög ESB.

Þetta tal um fullveldisframsal felur í sér mikla þjóðrembu. Það skiptir mestu máli að lög séu vönduð en ekki hvort þó séu samþykkt á alþingi eða á Evrópuþinginu.

Íslensk lög eru mikil hrákasmíð. Ég treysti Íslendingum betur til að semja lög í samstarfi við aðrar ESB-þjóðir á því mikilvæga sviði sem ESB nær yfir. 

Þá verður vinnuálag á alþingi minna og auðveldara að taka upp ný og betri vinnubrögð þar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2013 kl. 22:17

5 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Ásmundur þú svaraðir ekki því sem ég var að tala um innflutning á hráu kjöti,finnst þér bara allt í lagi Ásmundur að okkur sé skipað að flytja inn hrátt kjöt gegn vilja okkar????Það kalla ég ekki sjálfstæði.......

Marteinn Unnar Heiðarsson, 4.6.2013 kl. 22:26

6 identicon

Samstarf er þess eðlis að menn gefa eftir minni hagsmuni fyrir meiri hagsmuni. 

Þar að auki eru það hagsmunir almennings að innflutningur á hráu kjöti verði leyfður. Við það lækkar matarverð.

Undirliggjandi ástæða fyrir þessari tregðu er ekki hætta fyrir innlenda stofna, sem er nánast engin að mati sérfræðinga, heldur er þetta liður í hagsmunabaráttu sérhagsmunaafla.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.6.2013 kl. 10:51

7 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Það er alveg rétt hjá þér að það eru miklir og vinavæddir sérhagsmunir innan ESB enda er nánast búið að ganga af Evrópskri bændastétt dauðri.En það er ekki rétt hjá þér að okkur stafi ekki hætta af innfluttu kjöti og að halda að verð á kjötvörum lækki eitthavað ef það er innflutt er bara þvæla og í mesta lagi væri verð á innfluttu kjöti ódýrara á meðan væri verið að drepa innlenda framleiðslu niður en svo má líka benda þér á það að við flytjum inn fullt af vörum frá ESB löndunum og það væri líka allt í lagi að bera það saman líka,en það hentar ekki þeim ESB-sérhagsmunaaðilum hér á landi ekki ;)

Marteinn Unnar Heiðarsson, 5.6.2013 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband