Á bæði að hengja fólk og skjóta?
30.5.2013 | 11:46
Vaxandi atvinnuleysi víða á evrusvæðinu hefur verið eitt helsta áhyggjuefnið fólks þar um slóðir um langa hríð. Atvinnuleysi er stundum beitt sem ,,hagstjórnartæki" undir því yfirskini að losna við aðrar hremmingar, en svo virðist sem verst settu þjóðirnar innan ESB þurfi bæði að taka á sig hækkanir á ýmsum nauðþurftum og atvinnuleysi og sums staðar einnig verðbólgu. Atvinnuleysi í Grikklandi var komið upp í 27,2 % í Grikklandi og 26,7 % á Spáni í janúar 2013 og ef litið er á atvinnuleysistölur meðal ungs fólks er talan enn hærri, eða 59,1 % í Grikklandi og 55,9 % á Spáni, enda tala Spánverjar um týnda kynslóð unga fólksins síns.
Þetta atvinnuleysi er án efa ein erfiðasta birtingarmynd ástandsins í þessum löndum en þegar hækkun á rekstrarkostnaði heimilanna bætist ofan á þetta ástand fallast mörgum hendur. Rafmagn til heimilsnota hefur til að mynda hækkað um 21 % á Kýpur, 15 % í Grikklandi og 9 % á Spáni milli áranna 2011 og 2012. Þetta er því miður aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig þrengt er að fólki á margs konar hátt. Vonandi bera þessar þjóðir gæfu til að sjá fram á annað og betra ástand án of mikillar tafar, því afleiðingar þessa ástands geta orðið mjög alvarlegar og að hluta til eru þær af manna völdum. Krafa ESB og AGS um niðurskurð ríkisútgjalda og aukna gjaldtöku af fólki í þessum löndum er ekkert annað en olía á eldinn sem þegar brennur þar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.